Starfshópur skoði bættar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðis
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur skipað starfshóp um bættar og umhverfisvænar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Verkefni hópsins verður að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur á þessari leið með umhverfisvænum hætti og leggja fram tillögur til úrbóta. Horft verður m.a. til leiðakerfis, þjónustustigs, verðskrár, staðsetningar og umgjörðar biðstöðva og kolefnisfótspors.
Í hópnum eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Isavia, Strætó bs., Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.
Hópnum er ætlað setja fram tillögu að aðgerðaáætlun um úrbætur á næstu þremur árum en jafnframt verður horft til þess að ná umbótum á þjónustunni næsta sumar. Niðurstöður og tillögur að úrbótum fyrir næsta sumar eiga að liggja fyrir í apríl 2023. Tillögur til lengri tíma munu liggja fyrir í september 2023.