Hoppa yfir valmynd
13. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 385/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 385/2021

Miðvikudaginn 13. október 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. júlí 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. apríl 2021 um breytingu á upphafstíma örorkumats.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um breytingu á upphafstíma örorkumats með umsókn 23. mars 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. apríl 2021, var nýr upphafstími samþykktur frá 1. maí 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júlí 2021. Með bréfi, dags. 5. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2021, barst frávísunarkrafa frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. september 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með tölvubréfi 13. september 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 29. september 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. september 2021. Með tölvubréfi, dagsettu sama dag, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. október 2021. Með tölvubréfi 11. október 2021 bárust frekari athugasemdir frá umboðsmanni kæranda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. apríl 2021 um að upphafstími örorkumats kæranda skuli vera frá 1. maí 2020. Þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka til greina læknisvottorð, dags. 11. mars 2021, þar sem staðfest sé að þjálfun kæranda hafi verið fullreynd árið 2018.

Þar sem kærandi skilji ekki íslensku sé netfang umboðsmanns á „hennar síðum“. Umboðsmanni hafi ekki borist þessi ákvörðun og hafi ekki vitað um hana fyrr en 26. júlí 2021 þegar hún hafi að beiðni kæranda hringt í Tryggingastofnun til að kanna stöðu málsins.

Hafi tilkynning verið send á netfang umboðsmanns hafi ekki komið fram nein tilkynning um að þetta væri vegna kæranda en umboðsmaður hafi ekki farið inn á síðu kæranda nema að hennar beiðni. Hafi umboðsmanni kæranda verið sendur tölvupóstur í tilefni af þessari ákvörðun hafi það verið gert með ófullnægjandi hætti þar sem ekki hafi verið minnst á að erindið hafi varðað kæranda og því verði að miða upphafstíma kæru frá deginum er umboðsmanni hafi fyrst verið kunnugt um ákvörðunina.

Umboðsmaður sé sjálf á endurhæfingarlífeyri og fái tilkynningar vegna þess og því hafi hún talið tilkynningar um nýtt skjal á „mínum síðum“ hafi varðað eingöngu hana sjálfa.

Þann 26. júlí 2021 hafi umboðsmaður kæranda fengið upplýsingar um kærða ákvörðun hjá starfsmanni Tryggingastofnunar, en þá hafi hún að beiðni kæranda hringt í stofnunina til að athuga stöðu málsins. Starfsmaðurinn sé reiðubúinn til að staðfesta það símtal þar sem hann hafi upplýst hana um þessa ákvörðun.

Þess sé krafist að kæran verði góðfúslega tekin til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, þrátt fyrir að meira en þrír mánuðir séu liðnir frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Kærandi sé öryrki og einstæð [...] móðir sem búi við kröpp kjör. Það varði hana miklu að upphafstími örorku sé réttilega metinn en sá læknir sem hafi skrifað vottorðið þann 22. júlí 2020 hafi ekki kynnt sér nægilega vel gögn um kæranda. Nýr heimilislæknir hafi svo kynnt sér gögn kæranda og sá hafi séð að endurhæfing hennar hafi verið fullreynd 2018.

Þess sé krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka nýja ákvörðun byggða á nýjum og réttum gögnum sem liggi fyrir.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 13. september 2021 er frávísunarkröfu Tryggingastofnunar andmælt. Þó svo að umboðsmaður kæranda hafi verið með umboð til að koma fram fyrir hönd kæranda hjá Tryggingastofnun þá útiloki það ekki að fyrst og fremst hafi átt að tilkynna kæranda sjálfri allar ákvarðanir en ekki umboðsmanni hennar. Umboðsmaður kæranda hafi sjálf átt við alvarleg veikindi að stríða frá því í [...] og hafi þá orðið 100% öryrki og algerlega óvinnufær sjálf. Eftir X mánuði á sjúkrahúsi hafi umboðsmaður kæranda verið algerlega ófær um að vinna og hugsa um sig sjálfa. Endurhæfing hafi tekið við en þá hafi hún ekki verið í launaðri vinnu. Kærandi hafi þrátt fyrir það leitað til umboðsmanns þar sem hún hafi áður verið hennar lögmaður en það hafi aðeins verið til vara ef hún skildi ekki tilkynningar sem hún myndi fá og í þeim tilfellum þyrfti hún að hafa samband til að umboðsmaður myndi aðhafast eitthvað.

Umboðsmaður kæranda hafi ekki fengið greiðslur fyrir þessa lítilsháttar aðstoð. Kærandi hafi gert starfsfólki Tryggingastofnunar grein fyrir þessari stöðu um aðkomu hennar sem hún hafi talið að hefði verið skrifuð niður.

Þar sem umboðsmaður kæranda hafi sjálf verið að fá greiðslur frá Tryggingastofnun hafi hún talið að tilkynningar væru vegna hennar sjálfrar, en hún hafi aldrei litið á „Mínar síður“ kæranda nema samkvæmt sérstakri beiðni frá henni í hvert sinn að fyrra bragði.

Tryggingastofnun hafi borið að tilkynna kæranda sjálfri niðurstöðuna en ekki umboðsmanni hennar og því sé ekki hægt að miða upphaf kærufrests við það tímamark sem umboðsmanni hafi verið sendur tölvupóstur. Umboðsmaður hafi þá ekki verið starfandi vegna veikinda.

Auk þess sé vert að benda á að tilvitnuð lög um upphaf kærufrests séu frá 2007 en á þeim tíma hafi verið send bréf til viðkomandi en ekki látið við það sitja að dæla út tölvupóstum og alls ekki hafi verið gert ráð fyrir að kærufrestur myndi byrja að líða þegar tölvupóstur væri sendur frá Tryggingastofnun. Tilkynning Tryggingastofnunar um kærða ákvörðun sé því ógild og ekki unnt að leggja hana til grundvallar í þessu máli.

Því megi einnig bæta við að enn í dag sé ekki að sjá að niðurstaða sé komin í mál kæranda um upphafstíma örorkubóta því að á síðu hennar birtist upplýsingar um stöðu málsins. Vísar þar umboðsmaður í skjámynd sem fylgdi með athugasemdum hennar.

Einnig sé ljóst að veigamikið læknisvottorð virðist annaðhvort ekki vera komið í málið eða að það hafi verið ranglega fært í málið, nánar tiltekið læknisvottorð frá C heimilislækni sem sé dagsett 12. mars 2021 en ekki árið 2020. Þar komi fram að frekari árangur hafi verið fullreyndur 2018 og hafi því verið óskað eftir að upphafstími örorkubóta myndi miðast við 31. október 2018. Því sé nauðsynlegt að taka málið upp aftur og þá með hliðsjón af þessu læknisvottorði sem sé í samræmi við staðfestingu sjúkraþjálfara kæranda um að frekari endurhæfing bæri ekki árangur eftir 2018.

Í kærunni sjálfri hafi verið gerð grein fyrir hvers vegna kæran hafi ekki komið fyrr en á þessum tíma og hvernig umboðsmanni hafi orðið kunnugt um niðurstöðu Tryggingastofnunar. Hvorki sé ásættanlegt né sanngjarnt að láta það bitna á kæranda að tilkynning stofnunarinnar hafi algerlega farið fram hjá umboðsmanni hennar sem hafi ekki átt von á henni, enda hafði hún einungis fengið tilkynningar varðandi sín persónuleg málefni hjá Tryggingastofnun. Tilkynning um póst frá Tryggingastofnun hafi verið tilkynning á „mínum síðum“ á netfang umboðsmanns kæranda og eðlilega hafi hún aðeins farið inn á sínar persónulegu síður, enda hafi hún skilið „mínar síður og ný skilaboð á þínum síðum svo að átt væri aðeins við hennar persónulegu síður. Að minnsta kosti hefði átt að standa að tilkynning væri vegna kæranda.

Það verði því að teljast afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, auk þess sem veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar þar sem niðurstaðan varði kæranda mjög miklu en hún hafi átt í verulega miklum fjárhagslegum erfiðleikum á þeim tíma sem hún hafi ekki fengið örorkubætur og hafi þurft að taka lán sem hún sé ekki fær um að endurgreiða. Kærandi sé 100% öryrki, einstæð móðir með [...] börn. Það sé því ljóst að niðurstaðan varði kæranda mjög miklu.

Auk þess virðist alls ekki hafa verið tekið tillit til veigamikils læknisvottorðs sem hafi verið sent Tryggingastofnun 12. mars 2021 en þar sé staðfest að endurhæfing hafi verið fullreynd 2018 eins og áður hafi verið greint frá.

Þess sé óskað að kærandi verði ekki látin gjalda fyrir veikindi umboðsmanns hennar og fjarveru vegna þeirra frá vinnu.

Í athugsaemdum umboðsmanns kæranda frá 30. september 2021 er greint frá því að [...]2021 hafi umboðsmaður kæranda verið mjög veik. Það gæti verið að hún hafi farið inn á síðu kæranda í kjölfar tölvubréfs án þess að átta sig á því að þetta væri lokaákvörðun Tryggingastofnunar í máli kæranda.

Í bréfinu sé ekki vitnað til læknisvottorðs sem beðið hafi verið svars við frá Tryggingastofnun. Vottorðið ætti að vera dagsett 11. eða 12. mars 2021, en læknirinn hafi hringt í umboðsman kæranda að kvöldi 11. mars til að upplýsa um að bréfið væri tilbúið þar sem staðfest sé að þjálfun hafi verið fullreynd og að hann myndi  senda það til stofnunarinnar. Þetta bréf staðfesti að kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir örorkubótum árið 2018. Það séu alvarleg mistök hjá Tryggingastofnun að vitna ekki í læknisvottorðið, hafi þetta verið lokaákvörðun, en engan veginn sé hægt að átta sig á því af bréfinu.

Hver sem kærufresturinn sé og hvort sem hann sé liðinn eða ekki, sé ljóst að um þýðingarmikið skjal sé að ræða í málinu og að beðið hafi verið svars vegna þess. Tryggingastofnun geti ekki afgreitt málið án þess að vísa til þess vottorðs. Það hafi alls ekki verið sent á árinu 2020 heldur í mars 2021, en umboðsmaður kæranda sé með tölvupósta frá ritara læknisins í tengslum við vottorðið sem sýni rétta dagsetningu. Það sé mjög alvarlegt og ótækt að Tryggingastofnun hunsi það algerlega og vísi ekki til þess í lokaákvörðun sinni.

Verði ekki fallist á að kæra hafi borist í tæka tíð sé þess krafist að málið verði endurupptekið í ljósi atvika og mistaka starfsmanna Tryggingastofnunar.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 11. október 2021 kemur fram að á „mínum síðum“ kæranda komi fram að staða umsóknar sé „í vinnslu“ og þar segi: „24.03.21 mál þitt er nú komið til vinnslu hjá sérfræðingum TR“ og því hafi á engan hátt verið unnt að skilja að bréf frá 15. apríl 2021 væri endanleg ákvörðun sem hafi verið byggð á öllum innsendum gögnum, enda hafi þar að auki ekki verið getið um læknisvottorð, dags. 11. mars 2021, sem sé grundvallargagn í málinu. Umboðsmaður kæranda hafi verið að bíða eftir ákvörðun byggða á því tiltekna læknisvottorði.  

Nokkur mistök hafi verið gerð í afgreiðslu Tryggingastofnunar í svokallaðri ákvörðun, dags. 15. apríl 2021, sem geri það að verkum að nauðsynlegt sé að stofnunin taki málið upp aftur og vinni það á grundvelli þeirra gagna sem hafi sannanlega borist stofnuninni. Umboðsmaður kæranda hafi óskað eftir að fá bréfpóst vegna umbjóðenda síns og væri gott ef Tryggingastofnun héldi eins vel utan um slíkar upplýsingar og stofnunin haldi utan um lestur rafrænna bréfa.

Með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ljóst að mjög veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar þar sem það varði einstæða móður miklu hvenær upphafstími örorku verði ákvarðaður. Þess sé krafist að úrskurðarnefnd hafni frávísunarkröfu Tryggingastofnunar og að málið verði tekið til efnislegrar afgreiðslu á grundvelli innsendra gagna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla á umsókn kæranda um örorkulífeyri. Tryggingastofnun fari fram á að málinu verði vísað frá þar sem kærufrestur sé liðinn.

Hið kærða örorkumat sé dagsett 15. apríl 2021 sem hafi verið birt á „Mínum síðum“ kæranda sama dag eftir klukkan 17:30. Tölvupóstur hafi verið sendur á staðfest netfang umboðsmanns kæranda þennan sama dag um að kærandi ætti nýtt skjal á „Mínum síðum“. Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi því verið tilkynnt umboðsmanni kæranda þann 15. apríl 2021.

Kæran sé frá 26. júlí 2021 og hafi verið móttekin 27. júlí 2021 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærufrestur hafi þá verið liðinn samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri að vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema annaðhvort verði talið afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Ekki verði séð að rök mæli með því að í þessu máli verði vikið frá þeirri meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa skuli frá kæru sem berist að liðnum kærufresti. Komist úrskurðarnefnd velferðarmála að annarri niðurstöðu, áskilji Tryggingastofnun sér hins vegar rétt til að koma að efnislegri greinargerð.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. september 2021, kemur fram að kærð ákvörðun, dags. 15. apríl 2021, hafi verið birt á „Mínum síðum“ kæranda sama dag eftir klukkan 17:30. Þar sem fyrir liggi umboð kæranda til umboðsmanns hennar og staðfest netfang hennar sé skráð hjá kæranda hafi verið sendur tölvupóstur til umboðsmannsins þann sama dag um að kærandi ætti nýtt skjal á „Mínum síðum“. Telji umboðsmaður sig ekki lengur bæran til að sjá um mál umbjóðanda síns, til dæmis vegna veikinda, beri honum að gera ráðstafanir vegna þess.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi umboðsmaður kæranda skráð sig inn á „Mínar síður“ kæranda að kvöldi 15. apríl 2021 með sínum rafrænu skilríkjum, eins og hún geti gert sem skráður umboðsmaður kæranda. Sama kvöld hafi hin kærða ákvörðun fyrst verið opnuð, þ.e. stuttu eftir innskráninguna. Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi því verið tilkynnt umboðsmanni kæranda þann 15. apríl 2021 og hún opnuð sama kvöld. Meðfylgjandi sé yfirlit yfir allar innskráningar inn á „Mínar síður“ kæranda frá og með 15. apríl 2021.

Tryggingastofnun ítreki því frávísunarkröfu sína þar sem kærufrestur sé liðinn og ekki verði séð að nein rök mæli með því að í þessu máli verði vikið frá þeirri meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga um að kæru, sem berist að liðnum kærufresti, skuli vísað frá.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. apríl 2021, um upphafstíma örorkumats kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega þrír mánuðir frá því að kæranda var birt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um nýjan upphafstíma örorkumats með bréfi, dags. 15. apríl 2021, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júlí 2021. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1.      afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2.      veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 15. apríl 2021 var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. september 2021, var umboðsmanni kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum við frávísunarkröfu Tryggingastofnunar. Í athugasemdum umboðsmanns kæranda er greint frá því að hún hafi sjálf verið lífeyrisþegi og umtalsvert veik á þessum tíma og hafi ekki gert sér grein fyrir því að tilkynning á „Mínum síðum“ frá Tryggingastaofnun hafi varðað kæranda en ekki hana sjálfa. Þá greinir umboðsmaður frá því að hún hafi einungis farið inn á svæði kæranda á „Mínum síðum“ Tryggingastofnunar þegar hún hafi sérstaklega verið beðin um það. Umboðsmaður kæranda bendir og á það að svo virðist sem að læknisvottorð, sem upplýsi um hugsanlegt tímamark upphafstíma örorku, hafi ekki legið til grundvallar kærðri ákvörðun. Einnig byggir umboðsmaður kæranda á því að ekki hafi mátt ráða af hinni kærðu ákvörðun að um endanlega ákvörðun hafi verið að ræða.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreindar upplýsingar um veikindi umboðsmanns kæranda og hvernig umboð hennar hafi verið hugsað ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fyrir liggur umboð, dags. 25. maí 2020, þar sem umboðsmanni kæranda er veitt fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna kæranda vegna umsóknar hennar um örorkubætur og endurmat hjá Tryggingastofnun. Af gögnum málsins verður ráðið að umboðsmaður kæranda sótti um breytingu á upphafstíma örorkumats kæranda með umsókn 23. mars 2021 í gegnum „Mínar síður“ kæranda, samþykkti skilmála sem kváðu á um að umsóknum yrði svarað rafrænt og gaf upp netfangið sitt í umsókninni. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var hin kærða ákvörðun birt á „Mínum síðum“ kæranda þann 15. apríl 2021 sem bæði umboðsmaður kæranda og kærandi höfðu aðgang að og umboðsmaður kæranda fékk sendan tölvupóst sama dag um að nýtt skjal biði á „Mínum síðum“. Þá liggja fyrir gögn um að umboðsmaður kæranda skráði sig inn á „Mínar síður“ kæranda sama dag og reglulega í framhaldinu. Ekkert bendir til þess að umboðsmaður kæranda hafi ekki verið fær um að kæra ákvörðunina innan kærufrests, þrátt fyrir veikindi sín. Hvað varðar þá málsástæðu að hugsanlega hafi tiltekið læknisvottorð ekki legið til grundvallar kærðri ákvörðun þá er ekkert því til fyrirstöðu að farið verið fram á við Tryggingastofnun að kærð ákvörðun verði endurupptekin. Þá er ekki fallist á að ekki hafi mátt ráða af hinni kærðu ákvörðun að um endanlega ákvörðun hafi verið að ræða. Að lokum verður ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda er hægt að óska eftir endurupptöku málsins hjá Tryggingastofnun líkt og fjallað hefur verið um.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta