Hoppa yfir valmynd
11. október 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um skuldajöfnuð vaxtabóta

Bókhaldsstofan Stemma ehf.
Steiney B. Halldórsdóttir
Sundaborg 3
104 Reykjavík


Reykjavík 11. október 2017
Tilv.: FJR17090005/16.2.3

Efni: Stjórnsýslukæra Steineyjar B. Halldórsdóttur f.h. [A].

Ráðuneytið vísar til kæru Steineyjar B. Halldórsdóttur f.h. [A], dags. 31. ágúst 2017, vegna synjunar tollstjóra á beiðni um leiðréttingu á skuldajöfnuði vaxtabóta inn á skattskuld fyrrum sambúðaraðila.

Í kærunni er þess óskað að synjun tollstjóra verði endurskoðuð og kæranda endurgreiddar vaxtabætur þar sem lagaheimild til skuldajafnaðar hafi ekki verið til staðar.

Málavextir og málsástæður.
Málavextir eru þeir að með bréfi til tollstjóra, dags. 17. júlí 2017, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á þeim greiðslum sem var skuldajafnað upp í skuld fyrrverandi sambúðaraðila, öðrum en þeim sem var skuldajafnað inn á álagningu sem myndaðist á sambúðartíma þeirra. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, synjaði tollstjóri þeirri beiðni með vísan til 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Kærandi og fyrrverandi sambúðaraðili voru samsköttuð á árunum 2012 og 2013 (tekjuárin 2011 og 2012). Þær inneignir kæranda sem skuldajafnað var upp í skuldir fyrrverandi sambúðaraðila og kærandi óskar endurgreiðslu á, voru vaxtabætur sem kærandi fékk í álagningu áranna 2012 til 2017. Samtals námu vaxtabæturnar sem var skuldajafnað 1.389.890 kr.

Umsögn tollstjóra.
Hinn 4. september 2017 óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra um kröfu kæranda um endurgreiðslu vaxtabóta.

Í umsögn tollstjóra kemur fram að inneignum kæranda hafi verið skuldajafnað inn á gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld (AB) fyrrverandi sambúðaraðila eins og hér greinir:

Inneign í álagningu 2012 kr. 2.409.- skuldajafnað inn á AB 2012.
Inneign í álagningu 2013 kr. 547.177.- skuldajafnað inn á AB 2013.
Inneign í álagningu 2014 kr. 104.660.- skuldajafnað inn á AB 2012 og 2013.
Inneign í álagningu 2015 kr. 95.709.- skuldajafnað inn á AB 2013.
Inneign í álagningu 2016 kr. 244.851.- skuldajafnað inn á AB 2012 og 2013.
Inneign í álagningu 2017 kr. 389.084.- skuldajafnað inn á AB 2012 og 2013.

Tollstjóri tekur fram að í tekjubókhaldskerfi ríkisins komi fram að kærandi og fyrrverandi sambúðaraðili hafi verið samsköttuð árin 2012 og 2013. Vaxtabótum kæranda hafi einungis verið skuldajafnað inn á skattkröfur sem mynduðust vegna þeirra ára sem sameiginlegum skattframtölum var skilað en ekki inn á skattkröfur fyrrverandi sambúðaraðila vegna annarra ára eins og skilja megi af kærubréfi.

Forsendur og niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bera hjón, sbr. 62. og 80. gr., óskipta ábyrgð á greiðslu skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Gildir reglan með sama hætti um samskattað sambúðarfólk. Ábyrgðin fellur ekki niður við sambúðarslit eða skilnað heldur helst á meðan viðkomandi skattkrafa er ógreidd og gild. Heimild til skuldajafnaðar vaxtabóta kemur fram í 14. mgr. B-liðar 68. gr. framangreindra laga. Þá er jafnframt vísað til nýfallins dóms Hæstaréttar í máli nr. 426/2017 þar sem staðfest var fjárnámsgerð vegna sjálfskuldarábyrgðar maka á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að þessu virtu telur ráðuneytið að farið hafi verið að lögum og reglum í málinu og staðfestir ákvörðun tollstjóra frá 28. ágúst 2017.

Úrskurðarorð.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 28. ágúst 2017, um að hafna beiðni um endurgreiðslu vaxtabóta er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra








Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta