Hoppa yfir valmynd
24. september 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Brugðist við röngum staðhæfingum varðandi sérgreinalækna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndVelferðarráðuneytið
Þrír læknar birta grein í Morgunblaðinu í dag þar sem þeir halda því meðal annars fram að heilbrigðisráðherra ætli sér að færa þjónustu sérgreinalækna að miklu leyti eða alfarið inn á göngudeildir sjúkrahúsa. Eftirfarandi eru athugasemdir ráðherra við megininntak greinarinnar, þar sem læknarnir fara rangt með staðreyndir.

Eins og fram kemur í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey; Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítalans hefur orði veruleg aukning á stofurekstri sjálfstætt starfandi sérgreinalækna síðustu ár og starfsemi þeirra færst að sama skapi út af Landspítalanum. Í skýrslunni segir að þessi þróun hafi átt sér stað, án tillit til þess hvort um sé að ræða sérgreinar sem eðlis síns vegna ættu frekar að vera innan sjúkrahússins eða ekki. Þá hefur Ríkisendurskoðun bent á hvernig fjármunir hafa á liðnum áratug færst frá opinberu heilbrigðisþjónustunni inn í einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lýst þeirri stefnu ítrekað að hún hyggist styrkja opinbera heilbrigðiskerfið og vinna að þeirri stefnu sem byggist á almennri sátt í samfélaginu og felst meðal annars í því að efla heilsugæsluna til muna með þverfaglegri mönnun heilbrigðisstétta og vinna að því að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Það hefur hins vegar komið skýrt fram af hálfu ráðherra að það sé alls ekki stefna eða markmið að fyrirbyggja starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks á stofum með greiðsluþátttöku hins opinbera:

„Það sem skiptir máli og hefur margsinnis verið bent á, bæði af hálfu erlendra ráðgjafafyrirtækja, Ríkisendurskoðunar og fleiri bærra aðila, er að ríkið axli ábyrgð sína sem kaupandi þjónustu fyrir almannafé. Fjármunir til heilbrigðisþjónustu eru ekki ótakmarkaðir, ekki fremur en til annarra verkefna. Þess vegna þarf að skilgreina hvaða þjónustu vantar og í hvaða mæli og sjá til þess að þeir sem á þjónustunni þurfa að halda geti fengið hana. Það er óvenjulegt við rekstur íslenska heilbrigðiskerfisins að ekki skuli vera fyrir hendi þjónustustýring varðandi starfsemi sérgreinalækna og á það hefur verði bent margsinnis. Þessu þarf að breyta. Það er hins vegar alröng fullyrðing sem fram kemur í grein læknanna þriggja, þeirra Högna Óskarssonar, Sigurðar Árnasonar og Sigurðar Guðmundssonar, að ég ætli að færa þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna „að miklu leyti eða alfarið inn á göngudeildar sjúkrahúsanna“ og mér finnst það áhyggjuefni að rangfærslur sem þessar séu ítrekað settar fram í umræðunni“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta