Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2024 Forsætisráðuneytið

1184/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024

Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1184/2024 í máli ÚNU 23120003.
 

Kæra og málsatvik

Hinn 30. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A vegna afgreiðslu Hagstofu Íslands (hér eftir einnig Hagstofan) á beiðni hans um upplýsingar.
 
Með erindi, dags. 10. október 2023, óskaði kærandi eftir upplýsingum um það hvers vegna taflan „Fjöldi foreldra sem andast eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsök samtala áranna 2009–2020“ á vef stofn­­unarinnar hefði ekki verið uppfærð síðan árið 2021. Í svari Hagstofunnar, dags. 11. október 2023, kom fram að vonandi næðist að uppfæra töfluna fyrir árslok. Kærandi ítrekaði fyrirspurn sína sama dag. Í svari Hagstofunnar, dags. 18. október 2023, kom fram að taflan yrði uppfærð á fimm ára fresti til að koma í veg fyrir rekjanleika í niðurstöðum, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opin­bera hag­skýrslugerð, nr. 163/2007.
 
Kærandi brást við erindinu samdægurs og óskaði svara við eftirfarandi atriðum:
 

  1. Hvenær ákvörðun hefði verið tekin um að uppfæra töfluna á fimm ára fresti frekar en árlega.
  2. Hvert hefði verið tilefni þess að ákvörðunin var tekin.
  3. Á hvaða vettvangi innan stofnunarinnar ákvörðunin hefði verið tekin.
  4. Hvort einhver ytri aðili hefði komið að ákvörðunartökunni.

 
Í svari Hagstofunnar, dags. 20. október 2023, kom fram að ákvörð­un­in hefði verið tekin fyrr á árinu af þeirri ástæðu sem tilgreind væri í svari Hagstofunnar frá 18. ok­tóber. Í öðru svari Hagstofunnar, dags. 21. nóvember 2023, kom fram að almennt væri svar við því af hverju eitt­hvað hefði ekki gerst hjá stofnuninni það að önnur verkefni hefðu haft forgang eða gagna­lind­ir hefðu ekki gefið tilefni til uppfærslu. Umrædd tafla yrði sjálfsagt uppfærð, líkt og aðrar töflur sem til stæði að uppfæra, þegar tækifæri gæfist. Kærandi ítrekaði í framhaldinu erindi sitt. Í svari Hag­stof­unnar, dags. 30. nó­vember 2023, kom fram að ekki væri hægt að svara fyrirspurn kær­anda með meiri ná­kvæmni.
 
Í kæru kemur fram að taflan sé ein af mjög fáum opinberum heimildum sem sýni afleiðingar þeirrar félagslegu að­skilnaðarstefnu sem kvenréttindakonur hjá hinu opinbera standi fyrir gegn B-foreldrum og B-fjölskyldum. Spurn­ing­um kæranda í erindi hans frá 18. október 2023 væri enn ósvarað og væri því óskað eftir því að úr­skurð­ar­nefnd um upplýsingamál hlutaðist til um að þeim yrði svarað.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Hagstofu Íslands með erindi, dags. 6. desember 2023, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
 
Í svari Hagstofunnar, dags. 7. desember 2023, var móttaka erindis úrskurðarnefndarinnar staðfest. Þar kom fram að stofnunin héldi úti 2.600 töflum á íslensku og öðru eins á ensku. Oft gerðu lög kröfu um að tilteknar upp­lýs­ing­ar væru uppfærðar og hefðu slík verkefni forgang í starfsemi stofnunarinnar. Um­rædd tafla væri ekki birt á grund­velli lagaskyldu. Ekki yrði séð að verið væri að biðja Hagstofuna um gögn heldur upplýsingar um hvernig stofn­unin tæki ákvarðanir í rekstri sínum. Það væru því engin gögn til að afhenda úrskurðarnefndinni.
 
Úrskurðarnefndinni bárust nánari skýringar frá Hagstofunni hinn 22. desember 2023. Kom þar fram að umrædd tafla hefði ekki verið uppfærð síðan árið 2021 vegna forgangsröðunar verkefna. Ekki væri haldin skrá utan um það hvaða töflur væru uppfærðar hvenær, nema um evrópska tölfræði eða annað sem væri lögbundið. Það gæti liðið mis­langur tími þar til hægt væri að uppfæra töflu, bæði vegna gagna og mönnunar verkefna. Þessi tafla væri upp­færð ef tækifæri gæfist. Samkeyra þyrfti nokkrar gagnalind­ir, sem gerði verkið snúnara því þá þyrftu allar gagna­lind­irnar að vera uppfærðar áður en vinna gæti hafist.
 
Um tilefni þess að ákveðið hefði verið að uppfæra töfluna á fimm ára fresti frekar en árlega kom fram að það væri einn­ig vegna forgangsröðunar í framleiðslu og að lögbundin verkefni hefðu forgang. Ekkert væri skráð um þessa ákvörð­un hjá Hagstofunni en líklega hefði það verið á vettvangi millistjórnunar þar sem forgangsröðun verkefna færi að miklu leyti fram þar. Um væri að ræða rekstrarákvörðun líkt og þúsundir annarra slíkra ákvarðana sem þyrfti að taka svo að forgangsverkefni næðu fram að ganga. Varðandi mögulega aðkomu ytri aðila að ákvörð­un­inni væri svar­ið við því að sjálfsögðu neikvætt.
 
Skýringar Hagstofu Íslands voru kynntar kæranda með erindi, dags. 3. janúar 2024, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar fyrirspurn kæranda til Hagstofu Íslands í tengslum við töflu um fjölda foreldra sem andast, sem birt er á vef stofnunarinnar. Kærandi telur að fyrirspurninni sé ósvarað. Hagstofan telur að fyrir­spurninni hafi verið svarað eins nákvæmlega og mögulegt er. Úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál telur að líta beri svo á að með erindi Hagstofunnar, dags. 30. nóvember 2023, þar sem fram kom að ekki væri hægt að svara kæranda með meiri nákvæmni, hafi stofnunin vísað beiðni kæranda frá í skiln­ingi upplýsingalaga.
 
Upplýsingaréttur almennings tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til aðgangs að fyrir­liggj­andi gögnum sem varða tiltekið mál og aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þegar aðila sem heyrir undir gildis­svið laganna berst erindi, sem ber með sér að vera beiðni um aðgang að gögn­um, á hann að athuga hvort fyrir liggi annaðhvort þau gögn sem beinlínis er óskað eftir eða gögn sem innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í beiðninni, og taka ákvörðun um hvort aðgangur að gögn­unum á grundvelli upplýsingalaga verði veittur.
 
Af lögunum verður ekki leidd sambærileg skylda til að svara fyrir­spurn­um sem bera ekki með sér að vera beiðnir um að­gang að gögnum. Ekki er útilokað að skylt kunni að vera að bregðast við slíkum fyrir­­spurnum, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leið­beiningar­reglu þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauð­synlega aðstoð og leið­beiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það ekki í verka­hring úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­mál að skera úr um ágreining vegna slíkra fyrir­spurna, sbr. 1. mgr. 20. gr. upp­lýsingalaga.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir samskipti kæranda og Hagstofunnar vegna málsins. Það er mat nefnd­arinnar að með erindum Hagstofunnar, dags. 18. og 20. október 2023, þar sem fram kom að fyrr á árinu 2023 hefði verið ákveð­ið að umrædd tafla yrði uppfærð á fimm ára fresti frekar en árlega til að hindra rekjanleika í niðurstöðum, hafi kærandi mátt ætla að til væru gögn hjá stofnuninni um þá ákvörð­un. Af þeim sökum verður að líta svo á að fyrir­spurn kæranda til Hagstofunnar í fjórum liðum, dags. 18. október 2023, hafi verið beiðni um gögn í skilningi upp­lýsingalaga, og að stofnuninni hafi borið að taka hana til efnislegrar meðferðar.
 
Á hinn bóginn hefur komið í ljós við meðferð málsins að stofnunin kveður engin gögn liggja fyrir sem heyra undir beiðni kæranda. Nefndin hefur ekki forsendur til að rengja þá full­yrð­ingu stofnunarinnar. Verð­ur því að leggja til grund­­vallar að gögn sem heyri undir beiðni kæranda séu ekki fyrirliggjandi hjá stofn­­un­inni í skilningi upp­lýs­inga­laga. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrir­liggjandi er ekki um að ræða ákvörð­un um að synja um aðgang að gögnum sem kær­anleg er til nefnd­arinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun Hag­stofu Ís­lands því stað­fest.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Hagstofu Íslands, dags. 30. nóvember 2023, er staðfest.

 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta