Úrskurður nr. 341 - Örorkumat
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með kæru dags. 10. nóvember 2005 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. júlí 2005.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun með ódags. umsókn, mótt. 1. apríl 2005. Með örorkumati þann 18. júlí 2005 var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. janúar 2004 til 30. september 2006.
Í rökstuðningi með kæru segir:
„ Varð óvinnufær í lok nóv. 2001. Úrskurður 18. júlí 2005. TR dró lappirnar að koma frá sér til umboðs TR á B. Talað við C lífeyrisd. TR. 24. ágúst 2005. C sendi gögn austur í umboð. Talað v/hana aftur 29. sept. gleymdist að senda mér afrit af úrskurði og kærublað. Loksins póstlagt frá TR. 18. nóv. 2005.
Viðkomandi var ekki heima fyrr en 29. nóv. 2005.
Nóg er til af gögnum er varða þessa óvinnufærni frá byrjun, þ.e. Heilsugæslu B/Borgarspítali/Reykjalundur og fl.”
Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 16. nóvember 2005.
Tryggingastofnun endurskoðaði örorkumat sitt þann 17. nóvember 2005. Í hinu nýja mati segir að við endurskoðun gagna þyki sýnt að umsækjandi hafi haft mjög verulega færniskerðingu til almennra starfa og til athafna daglegs lífs síðan í nóvemberlok 2001. Nýr gildistími örorkumats er frá 1. desember 2001 til 31. desember 2003 og frá 1. október 2006 til 30 nóvember 2007.
Umbeðin greinargerð Tryggingastofnunar dags. 30. desember 2005 barst 2. janúar 2006. Þar segir:
„ Örorkumat kæranda hefur verið endurskoðað og samþykkt að læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris séu uppfyllt. Gildistími örorkumats er frá 1. desember 2001.
Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er heimilt að greiða tvö ár aftur í tímann frá því umsókn barst og mun upphaf greiðslna því miðast við 1. apríl 2003.
Þar sem kröfur kæranda hafa verið til greina að fullu óskast málið niðurfellt hjá úrskurðarnefndinni.”
Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 2. janúar 2006. Var kærandi spurður í bréfinu hvort hann teldi kærumálinu lokið, þar sem Tryggingastofnun hafði breytt afgreiðslu sinni, eða hvort hann vildi halda kærumálinu áfram. Kærandi hafði samband símleiðis þann 5. janúar 2006 og óskaði eftir að halda málinu áfram.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann, þ.e. upphafstíma örorkulífeyrisgreiðslna. Kærandi sem sótti um örorkulífeyri 1. apríl 2005 hefur fengið örorkulífeyri greiddan frá 1. apríl 2003 eða tvö ár aftur í tímann frá því umsókn barst. Hins vegar segir í endurskoðuðu örorkumati Tryggingastofnunar frá 17. nóvember 2005 að læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris séu uppfyllt og gildistími örorkumats sé frá 1. desember 2001.
Í rökstuðningi kæranda segist hann hafa orðið óvinnufær í lok nóvember 2001.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993 sé heimilt að greiða bætur tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn barst og svo hafi verið gert í tilviki kæranda.
Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 segir að tryggingayfirlæknir meti örorku þeirra sem sækja um örorkubætur. Umsókn er því forsenda þess að örorka sé metin af hálfu Tryggingastofnunar. Það er í samræmi við meginreglu 1. mgr. 47. gr. laganna um að sækja þurfi um bætur hjá Tryggingastofnun.
Í 2. mgr. 48. gr. segir að bætur aðrar en slysalífeyri og sjúkradagpeninga skuli aldrei úrskurða lengra aftur í tímann en tvö ár.
Kærandi sótti í apríl 2005 um greiðslu örorkulífeyris. Örorka kæranda var metin og var hann talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði til örorkulífeyris. Gildistími í endurskoðuðu örorkumati er frá 1. desember 2001 en hins vegar hefur kærandi fengið greiddan örorkulífeyri frá 1. apríl 2003. Hér er um mismunandi tímamörk að ræða sem erfitt getur verið fyrir umsækjanda um bætur að átta sig á. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur ekki fram skýring á mismunandi tímamörkum.
Örorkumat er grundvöllur greiðslu örorkubóta, en einungis einn þáttur af fleiri skilyrðum/lagaákvæðum sem uppfylla þarf svo til greiðslu bóta komi. Oftast fer saman upphafs gildistími örorkumats og upphafstími greiðslna örorkubóta. Umsækjandi um bætur kann þó að hafa uppfyllt læknisfræðileg skilyrði bótanna um lengri tíma, en kann að tapa rétti til greiðslna vegna lagaákvæða um umsókn og ákvörðun bótagreiðslna. Greiðslur geta ekki farið lengra aftur í tímann en ákvæði laga um almannatryggingar leyfir, sbr. 2. mgr. 48. gr. þar sem kveðið er á um að bætur skuli aldrei úrskurða lengra aftur í tímann en tvö ár.
Umsókn um örorkubætur er forsenda þess að örorkumat sé gert og forsenda greiðslna örorkulífeyris og því er að mati úrskurðarnefndar móttaka umsóknar hjá Tryggingastofnun málefnalegt viðmið þegar greiðsla bóta aftur í tímann er ákvörðuð. Kærandi hefur þegar fengið greidd tvö ár aftur í tímann miðað við móttöku umsóknar sem eru ítrustu greiðslur. Heimild til greiðslna lengra aftur í tímann er ekki fyrir hendi. Upphafstími greiðslna örorkulífeyris frá Tryggingastofnun þ.e. 1. apríl 2003 er staðfestur.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Upphafstími örorkulífeyrisgreiðslna til A, þ. e. 1. apríl 2003 er staðfestur.
F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
_____________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson
formaður