Hoppa yfir valmynd
2. mars 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2005

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 7/2005:

A

gegn

landbúnaðarráðherra

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 2. mars 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 12. september 2005, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til hvort landbúnaðarráðherra hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við skipun í stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands þann 26. ágúst 2004. Ráðherra lét í té rökstuðning hinn 14. september 2004 og telst kæran því hafa borist nefndinni innan kærufrests, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000.

Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt landbúnaðarráðherra með bréfi kærunefndar, dags. 28. september 2005, og óskað umsagnar hans um erindið. Umsögn ráðherra er dagsett 4. nóvember 2005 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 7. desember 2005, ásamt frekari gögnum, og voru þau kynnt landbúnaðarráðherra með bréfi kærunefndar, dags. 12. desember 2005. Í bréfi landbúnaðarráðherra til kærunefndar jafnréttismála, dags. 3. janúar 2006, kom fram að hann hafi þegar gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar við ráðningu í stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands. Bréf landbúnaðarráðherra var kynnt kæranda.

Kærunefnd jafnréttismála hefur að eigin frumkvæði aflað viðbótargagna, meðal annars gagna um þann umsækjanda sem stöðuna hlaut, sem og auglýsingu um starfið sem birtist í Morgunblaðinu 11. júní 2004, samanber mál kærunefndar kærunefndar nr. 2/2005. Gögn þessi voru kynnt kæranda með bréfi dags. 20. febrúar 2006.

Engar frekari athugasemdir hafa borist. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Staða rektors Landbúnaðarháskóla Íslands var auglýst laus til umsóknar í Morgunblaðinu hinn 11. júní 2004. Þar sagði meðal annars um hina auglýstu stöðu: „Rektor er yfirmaður stjórnsýslu Landbúnaðarháskólans og ber ábyrgð á rekstri hans. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Rektor er jafnframt æðsti fulltrúi Landbúnaðarháskólans gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur einnig ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans.“ Í auglýsingunni var kveðið á um að umsækjendur um stöðuna skyldu hafa lokið æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu.

Umsækjendur um stöðuna voru 14; 10 karlar og 4 konur. Óskaði landbúnaðarráðherra, með erindi dags. 7. júlí 2004, eftir umsögn háskólaráðs Landbúnaðarháskólans um hverjir af umsækjendunum uppfylltu skilyrði laga til að gegna stöðu rektors, í samræmi við ákvæði 25. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Í umsögn ráðsins til landbúnaðarráðherra, dags. 5. ágúst 2004, kemur fram að allir umsækjendur uppfylltu lágmarksskilyrði um menntun og reynslu, samanber ákvæði laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Þá kemur einnig fram í umsögn ráðsins, álit þess á nauðsynlegum bakgrunni, reynslu og menntun tilvonandi rektors. Kemur þar meðal annars fram að skýr framtíðarsýn væntanlegs rektors skipti höfuðmáli, sem og að mikilvægt væri að sá einstaklingur sem skipaður yrði hefði haldgóða reynslu af stjórnun starfsfólks og/eða rannsókna- og þróunarverkefna og samþættingu ólíkra sjónarmiða.

Hinn 26. ágúst 2004 skipaði landbúnaðarráðherra karlmann í stöðu rektors.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur rök að baki áðurgreindri ráðningu í stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands vera þokukennd. Helst megi ráða að eftirfarandi þættir hafi legið að baki ákvörðuninni: Meint framtíðarsýn þess sem stöðuna hlaut, sem sé óljós og óskilgreind, yfirsýn yfir íslenskan landbúnað og metnaðarfullar hugmyndir um samþættingu stofnananna þriggja. Ekki verði séð af gögnum málsins að yfirgripsmikil þekking þess sem stöðuna hlaut, á íslenskum landbúnaði og umhverfismálum almennt, sé meiri en kæranda. Hafi kærandi meðal annars haft með höndum búrekstur síðastliðin tíu ár á blönduðu búi með gróðurhús, kýr, kindur og hesta. Spanni slíkur búrekstur stóran hluta þeirrar starfsemi sem Landbúnaðarháskólanum sé ætlað að þjóna. Þá fái kærandi ekki séð að stjórnunarreynsla þess sem stöðuna hlaut hafi verið meiri en hennar. Nái stjórnunarreynsla beggja yfir búrekstur með mannahaldi, en auk þess hafi kærandi verið deildarstjóri við Garðyrkjuskólann og stjórnað fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum til margra ára. Kærandi telur sig hafa langa reynslu í mannauðsstjórnun sem stjórnandi rannsóknarverkefna um 15 ára skeið, atvinnurekandi í landbúnaði og kennari ungs fólks.

Þá byggir kærandi á því að hún búi yfir mikilli reynslu af að vinna með fólki. Megi þar nefna langa kennarareynslu og víðtæk sambönd í alþjóðlegum akademískum geira náttúruvísinda- og landbúnaðarvísindamanna.

Þá gerir kærandi athugasemdir við fyrirkomulag starfsviðtala. Engar staðlaðar spurningar hafi verið notaðar, ekkert hafi verið skráð um svör umsækjenda og ekki hafi verið sömu spyrlarnir í viðtölunum.

Kærandi hafi metnaðarfullar hugmyndir um starfsemi hins nýja Landbúnaðarháskóla sem hún hafi gert grein fyrir í starfsviðtalinu. Enn fremur hafi hún gert grein fyrir því hvernig menntun hennar myndi nýtast íslenskum landbúnaði. Hún hafi lagt áherslu á framtíð íslensks landbúnaðar og rætt hugmyndir sínar ítarlega í viðtalinu.

Kærandi lýsir menntun sinni og starfsreynslu sinni meðal annars svo í umsókn um stöðuna: B.Sc.-próf í líffræði við Háskóla Íslands 1980. Diploma í jarðræktarfræðum við sænskan háskóla 1982. M.Sc.-gráða í jurtaerfðafræði við sama háskóla 1984. Agronomie-doktorspróf í jurtakynbótum við sama háskóla 1991. Post.Doc.-diploma í sameindaerfðafræði við sama háskóla 1993. Kærandi vann við rannsóknir á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins 1994–1995 og á Líffræðistofnun Háskóla Íslands 1995–1996. Þá réðst hún að Garðyrkjuskóla ríkisins 1996 sem fagdeildarstjóri á B-braut. Fólst starf hennar í að byggja upp brautina frá grunni. Hætti hún þar störfum árið 2001. Kærandi hóf síðan nám við Kennaraháskóla Íslands 2002 og hefur lokið þaðan kennsluréttindanámi. Er hún nú fastráðinn kennari við C-grunnskólann. Þá hefur kærandi stundað búskap ásamt eiginmanni sínum frá 1997. Í umsókn eru auk þess talin upp mikilvægustu ritverk umsækjanda.

Kærandi telur rétt að kærunefnd jafnréttismála leiti álits sænska háskólans á akademísku ágæti hennar og þess sem stöðuna hlaut, þar sem í umsókn hans sé lítið hægt að átta sig á raunverulegum fræðistörfum hans. Kærandi telur sig fremri vísindamann en hann, og að hún búi yfir meiri reynslu af alþjóðlegri samvinnu við vísindastofnanir. Einnig telur hún sig hafa meiri kennslu- og skólareynslu en stjórnunarreynsla þeirra sé svipuð. Þá telur kærandi að mun færri konur en karlar séu í stjórnunarstöðum í landbúnaðarráðuneyti og undirstofnunum þess.

 

IV

Sjónarmið landbúnaðarráðherra

Landbúnaðarráðherra hafnar því alfarið að hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Allir umsækjendur hafi uppfyllt lágmarkskröfur til starfsins að mati háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands. Umsækjendur hafi verið boðaðir til starfsviðtals þar sem þeim hafi gefist færi á að kynna sig og viðhorf sín til starfsins. Hæfismat hafi farið fram og hafi kynferði umsækjenda ekki haft vægi í því sambandi. Í starfsviðtölum hafi verið lögð sérstök áhersla á að draga upp skýra mynd af framtíðarsýn umsækjenda fyrir íslenskan landbúnað, hvernig þeir teldu að Landbúnaðarháskóli Íslands gæti best þjónað íslenskum landbúnaði og hvernig þeir hygðust standa að samþættingu og samruna þeirra þriggja stofnana sem mynda Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í viðtali við þann sem stöðuna hlaut hafi komið fram sterk sýn um framtíð íslensks landbúnaðar og stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands innan hans. Einnig hafi hann haft vel mótaðar hugmyndir um hvernig hann hygðist standa að samruna þeirra stofnana sem mynda Landbúnaðarháskólann. Frammistaða kæranda hafi þótt slök. Svör kæranda við spurningum ráðuneytisins í starfsviðtalinu hafi hins vegar ekki gefið til kynna að hún hefði nægilega yfirgripsmikla þekkingu á viðfangsefninu eða þá stjórnunarhæfileika sem starf rektors óumdeilanlega krefðist.

Það hafi verið mat landbúnaðarráðherra, með hliðsjón af frammistöðu þess sem stöðuna hlaut í starfsviðtali og með tilliti til fjölþættrar reynslu hans innan landbúnaðarins, að hann væri best til þess fallinn að stýra því vandasama verkefni að leiða sameiningu hinna þriggja stofnana farsællega til lykta. Einnig hafi hann komið fram með metnaðarfullar hugmyndir um starfsemi hinnar nýju stofnunar og gert grein fyrir stjórnunaraðferðum sem líklegar væru til árangurs við þær erfiðu aðstæður sem sameining hinna þriggja stofnana óneitanlega myndu skapa stjórnanda Landbúnaðarháskóla Íslands.

Enginn vafi leiki á um ágæti menntunar kæranda og séu vísindastörf hennar fjölþætt. Á hitt beri að líta að staða rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands sé fyrst og fremst stjórnunarstarf sem kalli á mikla forystuhæfileika og mjög góða hæfni í mannlegum samskiptum. Menntun sé ekki einhlítur mælikvarði á hæfni til starfa og miklu máli skipti hvernig einstaklingnum auðnast að nýta hana í lífi sínu og starfi. Það hafi verið mat landbúnaðarráðherra í ráðningarferlinu að kærandi uppfyllti ekki þær kröfur sem hann hafi gert til rektors Landbúnaðarháskóla Íslands og hafi því annar einstaklingur verið skipaður til starfans.

 

V

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar skipaður var rektor Landbúnaðarháskóla Íslands þann 26. ágúst 2004.

Í 21. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, kemur fram að Landbúnaðarháskóli Íslands sé vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar og garðyrkju sem veiti nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræði- og rannsóknastörf í þágu íslensks landbúnaðar og garðyrkju. Í 2. mgr. 22. gr. laganna er tekið fram að rektor sé yfirmaður stjórnsýslu háskólans og beri ábyrgð á rekstri hans. Hann beri ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur fram að rektor sé æðsti fulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands meðal annars gagnvart stofnunum innan skólans og utan hans. Hann stýri starfsemi háskólans og hafi frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans og hafi ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum hans. Í 25. gr. kemur fram að landbúnaðarráðherra skipi rektor til fimm ára að fenginni umsögn háskólaráðs, og þann einan megi skipa rektor sem lokið hafi æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu.

Í auglýsingu um starfið kom fram að Landbúnaðarháskóli Íslands væri ný vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar og garðyrkju sem hafi verið mynduð með samruna þriggja stofnana, þ.e. Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum. Ráð væri fyrir því gert að skólinn tæki til starfa 1. janúar 2005, en hinn nýi rektor skyldi undirbúa starfsemi Landbúnaðarháskólans á tímabilinu 1. ágúst 2004 til 1. janúar 2005 ásamt háskólaráði.

Í umsögn háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands vegna umsókna um stöðu rektors Landbúnaðarháskólans, dags. 5. ágúst 2004, kom fram það álit ráðsins að í hugtakinu „æðri prófgráða“ í skilningi 25. gr. laganna fælist að umsækjandi hefði öðlast meistaragráðu eða ígildi hennar. Það var jafnframt álit ráðsins að í hugtakinu „stjórnunarreynsla“ í 25. gr. laganna fælist meðal annars stjórnun starfsfólks, stjórnun rekstrareininga ýmiss konar eða stjórnun akademískra verkefna og að túlka ætti skilyrðið með rúmum hætti. Það var því mat ráðsins að allir 14 umsækjendur um stöðuna uppfylltu lágmarksskilyrði laganna um æðri prófgráðu og stjórnunarreynslu.

Í umsögn háskólaráðs var jafnframt tekið fram að í lögum nr. 57/1999 væri einungis kveðið á um lágmarksskilyrði. Taldi háskólaráðið það vera mikilvægt og í samræmi við lögbundið hlutverk þess að veita landbúnaðarráðherra álit á nauðsynlegum bakgrunni, reynslu og menntun tilvonandi rektors. Var álit háskólaráðsins byggt á því að Landbúnaðarháskóli Íslands væri vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar, sem myndi eiga samstarf við innlendar og erlendar mennta- og rannsóknastofnanir auk þess sem Landbúnaðarháskólinn væri stór vinnustaður með mikla vaxtarmöguleika á ýmsum sviðum. Það var því álit háskólaráðsins að nýr rektor þyrfti að hafa aflað sér doktorsgráðu eða eiga sambærilegt fræðastarf að baki. Jafnframt var tekið fram að Landbúnaðarháskóli Íslands væri byggður á grunni þriggja stofnana. Við hina nýju stofnun myndu starfa um 140 starfsmenn og þar yrðu í upphafi 350 nemendur. Rektor skólans hefði það hlutverk ásamt háskólaráði að móta skólanum stefnu til framtíðar. Miklu myndi þar ráða um árangur hvernig tækist til með samruna og samstarf þessara þriggja heilda. Þar skipti skýr framtíðarsýn höfuðmáli og mikilvægt væri að sá einstaklingur sem skipaður yrði hefði haldgóða reynslu af stjórnun starfsfólks og/eða rannsókna- og þróunarverkefna og samþættingu ólíkra sjónarmiða.

Í umsókn kæranda um stöðuna er menntun hennar og starfsreynsla rakin. Menntun hennar er eftirtalin: B.Sc.-próf í líffræði við Háskóla Íslands 1980. Diploma í jarðræktarfræðum við sænskan háskóla 1982. M.Sc.-gráða í jurtaerfðafræði við sama háskóla 1984. Agronomie-doktorspróf í jurtakynbótum við sama háskóla 1991. Post.Doc.-diploma í sameindaerfðafræði við sama háskóla 1993. Um starfsferil sinn eftir 1993 segir kærandi að hún hafi unnið við rannsóknir á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins 1994–1995 og á Líffræðistofnun Háskóla Íslands 1995–1996. Þá hafi hún ráðist að Garðyrkjuskóla ríkisins 1996 sem fagdeildarstjóri á B-braut. Hún hafi lokið þar störfum árið 2001. Kærandi lauk síðan kennsluréttindanámi við Kennaraháskóla Íslands árið 2002. Er hún nú fastráðinn kennari við C-grunnskólann. Þá hefur kærandi stundað búskap ásamt eiginmanni sínum frá 1997.

Í starfsferilsskrá þess er stöðuna hlaut kemur fram að hann hafi lokið búfræðiprófi frá Bændaskólanum Hvanneyri árið 1983, raungreinadeildarprófi frá Tækniskóla Íslands árið 1986, B.Sc.-gráðu frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1989 og doktorsprófi frá Sænska Landbúnaðarháskólanum árið 1996. Hann hefur starfað sem tamningamaður með hléum í rúm 20 ár. Þá hefur hann meðal annars starfað sem héraðsráðunautur í hagfræði og haft yfirumsjón með bændabókhaldi og rekstraráætlunum hjá Búnaðarsambandi Suðurlands árin 1989–1990. Þá var hann rannsóknamaður í Svíþjóð samhliða námi og í hlutastarfi. Hann var kennari við búvísindadeild á Bændaskólanum á Hvanneyri árin 1996–2001, ráðunautur í erfða- og kynbótafræði hjá Bændasamtökum Íslands frá árinu 1996 og landsráðunautur í hrossarækt hjá sömu samtökum frá árinu 1999. Sá sem stöðuna hlaut var hrossaræktandi og bóndi frá árinu 1992. Þá hefur hann leiðbeint nokkrum meistaranemum til lokaprófs. Að lokum eru rakin helstu ritstörf á sviði vísinda hans árin 1990–2004.

Eins og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar í málum nr. 121/2002 og 330/2003 er atvinnurekanda játað nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjanda, teljist sjónarmið atvinnurekanda í þá veru eðlileg og málefnaleg. Því vali eru þó settar þær skorður er leiddar eru af ákvæðum jafnréttislaga nr. 96/2000. Við mat á því hvaða sjónarmið teljast vera málefnaleg hefur meðal annars verið litið til þeirra skilyrða sem leiða má af lögum og þess sem fram kemur í auglýsingu um starfið. Það er jafnframt álit kærunefndar jafnréttismála að í ljósi þess að um var að ræða nýja og ómótaða stöðu hafi mátt játa landbúnaðarráðherra viðeigandi svigrúm til þess að ákveða hvaða þættir voru helst taldir skipta máli við mat á hæfni umsækjenda, enda væri að því leyti til byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Í rökstuðningi vegna skipunarinnar og í bréfum til kærunefndarinnar hefur landbúnaðarráðherra lýst því á hvaða sjónarmiðum hæfnismat hans á umsækjendum um stöðu rektors hafi grundvallast. Þannig hafi verið farið yfir umsóknir með tilliti til menntunar og starfsreynslu auk þess sem litið hafi verið til starfsviðtala við umsækjendur. Þá hafi upplýsingar um umsækjendur verið bornar saman við þau atriði er fram komu í umsögn háskólaráðs. Talið hafi verið mikilvægt að rektor Landbúnaðarháskóla Íslands hefði yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum landbúnaði og fjölþættu hlutverki stofnunarinnar innan hans. Skýr framtíðarsýn, farsæl stjórnun og næmur skilningur á mannlegum samskiptum væru höfuðatriði í þessu samhengi, enda myndi reyna á þessa þætti umfram aðra í fari yfirstjórnanda stofnunarinnar við að leiða saman mannauð þeirra þriggja stofnana sem fram til þessa hefðu verið sjálfstæðar.

Landbúnaðarráðherra hafi metið það svo að sá er skipaður var í stöðu rektors hafi haft fjölþætta reynslu og leiðtogahæfileika sem nýttust í starfi rektors og því hafi hann verið skipaður í stöðuna. Í rökstuðningi landbúnaðarráðherra til kæranda, dags. 14. september 2004, kemur fram að allir umsækjendur hefðu verið boðaðir í starfsviðtöl þar sem þeir hafi svarað spurningum starfsmanna ráðuneytisins og þeim þar gefinn kostur á að kynna sig og viðhorf sín til starfsins. Í viðtölunum hafi verið lögð sérstök áhersla á að draga upp skýra mynd af framtíðarsýn umsækjenda um íslenskan landbúnað, hvernig þeir teldu að Landbúnaðarháskóli Íslands gæti best þjónað íslenskum landbúnaði og hvernig þeir myndu standa að samþættingu þeirra þriggja stofnana sem mynda Landbúnaðarháskóla Íslands. Var það mat landbúnaðarráðherra að í viðtölum við þann sem skipaður var í stöðuna hafi komið í ljós einlægur áhugi hans og metnaðarfullar hugmyndir um starfsemi hinnar nýju stofnunar. Þar að auki hafi hann gert grein fyrir stjórnunaraðferðum sem að mati landbúnaðarráðherra væru líklegar til árangurs við þær erfiðu aðstæður sem sameining hinna þriggja stofnana myndi skapa yfirstjórnanda Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fyrir liggur að framangreindar hugmyndir og stjórnunaraðferðir þess sem skipaður var í stöðuna og það hvernig þær hafi verið frábrugðnar hugmyndum annarra umsækjenda voru ekki skráðar sérstaklega í starfsviðtölunum eða í kjölfar þeirra. Hefur landbúnaðarráðherra í engu upplýst kærunefndina um framangreind atriði, þótt eftir því hafi verið leitað af hálfu kærunefndarinnar. Þá liggur ekki fyrir formlegur samanburður á hæfi einstakra umsækjenda.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að landbúnaðarráðherra hafi ekki verið óheimilt að ljá framangreindum sjónarmiðum, sem fram komu í starfsviðtali við þann sem skipaður var, viðeigandi vægi við mat sitt á hæfi umsækjanda. Svo sem rakið er hér á undan var í auglýsingu um starfið lögð áhersla á stjórnunarreynslu umsækjenda og til þess vísað að um nýtt starf var að ræða. Í rökstuðningi landbúnaðarráðherra hefur meðal annars komið fram að sá sem skipaður var hafi í starfsviðtali lýst þekkingu sinni á stjórnsýslu íslensks landbúnaðar og þróunar atvinnugreinarinnar og framtíðarþörfum, auk þess sem hann hafi haft fjölþætta reynslu á þessu sviði.

Með hliðsjón meðal annars af dómi Hæstaréttar í máli nr. 330/2003 og með vísan til framangreinds rökstuðnings landbúnaðarráðherra, auk þess að um nýtt embætti var að ræða, þykja ekki hafa verið leiddar líkur að óbeinni mismunun í skilningi 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 við skipun landbúnaðarráðherra í embættið.

Eru því ekki efni til að líta svo á að landbúnaðarráðherra hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við skipun í stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að landbúnaðarráðherra hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, í máli þessu.

 

Ragna Árnadóttir

 

Ása Ólafsdóttir

 

 

 

 

Sérálit Björns L. Bergssonar

 

Ég er sammála meirihluta nefndarinnar um að játa megi í máli þessu landbúnaðarráðherra meira svigrúm en endranær í því ljósi að um nýtt embætti var að ræða við nýja stofnun. Eðlilegt er að stjórnvald geti við þessar aðstæður veitt mati á framtíðarsýn umsækjenda til rækslu starfans og viðhorfum til þess hvaða stjórnunaraðferðum umsækjandi hyggst beita sérstakt vægi.

Þetta mat ræður þó að mínu mati vart úrslitum í máli þessu eins og á hefur verið haldið af hálfu landbúnaðarráðherra.

Er þar fyrst til þess að líta að mínu mati að þó menntun kæranda og þess sem starfið hlaut hafi verið ámóta þá sé starfsreynsla kæranda veigameiri og starfsferill hennar fjölbreyttari en þess sem skipaður var í embættið. Á það sérstaklega við um reynslu hennar af stjórnun, meðal annars sem deildarstjóri á B-braut Garðyrkjuskóla Íslands.

Alltént er ljóst þegar þessi tvenn atriði eru vegin saman, meiri stjórnunarreynsla kæranda andspænis framtíðarsýn og hugmyndum þess sem starfið hlaut um stjórnunaraðferðir, að brýnt var við þessar aðstæður að glöggar upplýsingar hefðu legið fyrir af hálfu ráðuneytisins hvernig starfsviðtöl fóru fram. Til þess að þessi huglægu matsatriði geti ráðið úrslitum þyrftu þannig að liggja fyrir upplýsingar um það hvaða atriði það hafi verið sem ráðuneytið leitaði eftir hjá umsækjendum í viðtölum og hvernig þeir gerðu grein fyrir hugmyndum sínum í þessum efnum. Raunar er það mitt mat að jafnvel þó litið yrði svo á að þau væru bæði jafnhæf til að gegna starfinu þá geti þessi huglægu matsatriði ekki ráðið úrslitum eins og hér stendur á. Stafar það einfaldlega af því að ekkert liggur fyrir um þessi atriði annað en almennar fullyrðingar án þess að nánari grein hafi verið gerð fyrir þeim og það þrátt fyrir að eftir upplýsingunum hafi verið leitað af hálfu kærunefndar jafnréttismála. Þar sem ekki hefur verið gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem kærði tiltekur, geta þau ekki talist haldbær í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla fyrir því að sá sem starfið hlaut var tekinn fram yfir kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef máli er vísað til kærunefndar og leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000. Þykir ráðherra ekki hafa tekist á málefnalegan hátt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Með vísan til framangreinds er það mín niðurstaða að með skipun þess sem starfið hlaut í embætti rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri hafi landbúnaðarráðherra brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

 

Björn L. Bergsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta