Mannanafnanefnd, úrskurðir 13. júní 2002
Þann 13. júní 2002, var fundur haldinn í Mannanafnanefnd. Fundinn sátu Andri Árnason, formaður, Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir.
Eftirtalin mál voru tekin til afgreiðslu:
Mál nr. 40/2002
Eiginnafn: Ingisól (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Ingisól tekur eignarfallsendingu (Ingisólar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Ingisól er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 41/2002
Eiginnafn: Tamar (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Tamar tekur eignarfallsendingu (Tamarar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Tamar er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 42/2002
Eiginnafn: Hedda (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Hedda tekur eignarfallsendingu (Heddu) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Hedda er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 43/2002
Eiginnafn: Nora (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Nafnið Nora telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og fullnægir því ekki 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Nora er hafnað.
Mál nr. 44/2002
Beiðni um aðlögun erlends eiginnafns að íslensku.
Með bréfi Hagstofu Íslands dags. 31.maí sl. er, með vísan til 22. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, óskað úrskurðar um beiðni XX og YY, um að breyta rithætti fyrra eiginnafns sonar þeirra úr William í Vilhjálmur, sbr. 4. mgr. 8. gr. laganna, til hliðsjónar, svo nafnið verði lagað að íslensku máli í þjóðskrá.
Mannanafnanefnd telur lagaskilyrði uppfyllt og er fallist á framangreinda beiðni.
Úrskurðarorð:
Fallist er á beiðni um breytingu á rithætti eiginnafnsins William í Vilhjálmur, sbr. beiðni XX og YY dags. 24. maí 2002.
----------------------------------------
Nefndinni hefur borist erindi ZZ, dags. 17. apríl 2002, þar sem óskað er eftir endurupptöku máls nr. 15/2002, frá 7. febrúar 2002, um nafnið Sævarr. Í tilvísuðum úrskurði nefndarinnar kemur fram, að Sævarr telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks nútímamáls og sé andstætt íslenskri hljóðþróun. Var ekki talið að hefð væri fyrir nafni þessu. Beiðni um breytingu á rithætti úr Sævar í Sævarr var því hafnað. Í erindi ZZ 17. apríl sl. er til þess vísað að úrskurður nefndarinnar sé byggður á illa útskýrðum forsendum og gerir hann athugasemdir m.a. við tilvísun úrskurðarins til íslenskrar hljóðþróunar og mats á rithætti.
Í tilefni af erindi ZZ er tekið fram, að samkvæmt vinnulagsreglum mannanafnanefndar frá 7. september 2000 telst nafn hafa unnið sér hefð í íslensku ef það er nú borið af a.m.k. 15 íslenskum ríkisborgurum; ef það er borið af 10-14 íslenskum ríkisborgurum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri; ef það er borið af 5-9 íslenskum ríkisborgurum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri; það er nú borið af 1-4 íslenskum ríkisborgurum og kemur þegar fyrir á manntalinu 1910; það er ekki borið af neinum íslenskum ríkisborgara nú en kemur fyrir í tveimur manntölum frá 1703-1910.
Ekki er talið að fram hafi komið rök fyrir endurupptöku máls þessa.
Beiðni um endurupptöku er hafnað.
---
Úrskurðarbeiðandi:
Heiðar Ingi Svansson
Víðihvammi 10
200 Kópavogi
Nefndinni hefur borist erindi ÆÆ, dags. 14. mars 2002, sbr. erindi dags. 21. febrúar 2002, og erindi mannanafnanefndar , dags. 12. mars 2002, vegna eiginnafnsins Blær. Í tilvísuðu erindi mannanafnanefndar kemur fram, að eiginnafnið Blær er á mannanafnaskrá sem eiginnafn karla og með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn sem óheimilt að gefa stúlku slíkt nafn.
Í erindi Heiðars Inga frá 14. mars sl. kemur fram, að fósturdóttir hans, AA, hafi fæðst 1996, en núgildandi mannanafnalög séu nr. 45 frá 17. maí 1996. Bendir hann á að erindi hafi verið sent Mannanafnanefnd viku eftir fæðingu barnsins, en nafninu hafi verið hafnað. Máli hljóti að skipta hvenær nafnið Blær hafi verið skilgreint sem karlmannsnafn.
Fyrir liggur að karlmannsnafnið Blær var tekið á mannanafnaskrá á 1991, sbr. lög samþykkt á Alþingi 13. mars 1991.
Þegar af þessari ástæðu verður ekki fært að verða við erindi ÆÆ.
Beiðni um endurupptöku er hafnað.
Fleira ekki gert.
Fundi slitið.