Hoppa yfir valmynd
15. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda, Benelúx-ríkja og Araba- og múslimaríkja funda um átökin á Gaza

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna, Benelúx-ríkja, Sádi-Arabíu, Jórdaníu, heimastjórnar Palestínu, Katars og Tyrklands. - myndUtenriksdepartementet/Killian Munch

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sótti fund utanríkisráðherra Norðurlanda og Belgíu, Hollands og Lúxemborgar með utanríkisráðherrum nokkurra Araba- og múslimaríkja í Osló í dag. Tilgangur fundarins var að ræða leiðir til að binda enda á átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, hvernig tryggja megi framgang tveggja ríkja lausnar og leiðir til að styrkja og viðhalda stofnunum og stjórnkerfi palestínsku heimastjórnarinnar. 

„Það er ómetanlegt að fá að heyra sjónarmið kollega minna um það hræðilega ástand sem nú ríkir á Gaza-ströndinni og fá innsýn í þeirra hugmyndir um hvernig tryggja megi varanlegan frið á svæðinu,” segir ráðherra. Á meðan á fundinum stóð bárust fréttir af því að Ísrael hefði ákveðið að opna landamærin við Kerem Shalom fyrir mannúðaraðstoð. „Það ríður á að veita næga aðstoð til bágstaddra og stöðva átökin strax. Hins vegar er það mín von að nú gefist alþjóðasamfélaginu annað tækifæri til að láta tveggja ríkja lausnina verða að veruleika og koma á varanlegum friði. Það mun krefjast erfiðra málamiðlana og raunverulegs sáttavilja, en það er það eina sem getur rofið þennan vítahring ofbeldis.” 

Utanríkisráðherra átti auk þess tvíhliða fund með Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar.  

„Fundurinn var gott tækifæri til að hlýða á sjónarmið ráðherrans, en ekki síður til að koma á framfæri afstöðu íslenskra stjórnvalda og samúðarkveðjum vegna hins óbærilega mannfalls sem við höfum mátt horfa upp á meðal almennra borgara,“ segir Bjarni. 

Í lok nóvember átti ráðherra sömuleiðis símafund með Eli Cohen, utanríkisráðherra Ísraels, þar sem hann vottaði honum samúð vegna hryðjuverkaárásanna 7. október, kom áhyggjum Íslands af mannúðarástandinu á Gaza á framfæri sem og innihaldi ályktunar Alþingis um stöðuna. 

Fundurinn í dag var haldinn að beiðni Sádi-Arabíu eftir sameiginlegan leiðtogafund Araba- og múslimaríkja (Joint Arab-Islamic Extraordinary Summit of Organisation of Islamic Cooperation (OIC) og the League of Arab Sates) sem haldinn var í Riyadh 11. nóvember síðastliðinn. Í niðurstöðum þess fundar var kallað eftir því að alþjóðasamfélagið grípi tafarlaust til aðgerða til að stöðva átökin á Gaza. Fulltrúar ríkjanna hafa farið á milli höfuðborga fastaríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að afla stuðnings við vopnahlé á Gaza og ályktun um að Ísrael leyfi stofnunum Sameinuðu þjóðanna, í stað Ísraelshers, að sjá um eftirlit með mannúðargögnum sem fara um Rafah-landamærin frá Egyptalandi til Gaza. Hópurinn hefur meðal annars fundað með utanríkisráðherra Bretlands, David Cameron, og Macron Frakklandsforseta, og ferðast til Peking og Moskvu.

Sendinefnd ríkjanna var leidd af utanríkisráðherra Sádi-Arabíu en þar að auki sóttu fundinn utanríkisráðherrar Jórdaníu, heimastjórnar Palestínu, Katars og Tyrklands, auk framkvæmdastjóra Samtaka um íslamska samvinnu (e. Organisation of Islamic Cooperation). 

 

Upplýsingasíða um afstöðu og mannúðaraðstoð Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ásamt Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar. - mynd
  • Utanríkisráðherrar Norðurlanda, Benelúx-ríkja og Araba- og múslimaríkja funda um átökin á Gaza - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta