Fulltrúar ÖSE funda með íslenskum stjórnvöldum vegna baráttu gegn mansali
Valiant Richey, sérstakur fulltrúi mansalsmála Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og sérfræðingar frá mansalsdeild stofnunarinnar funduðu fyrr í vikunni með íslenskum stjórnvöldum og þeim sem koma að baráttu gegn mansali hér á landi. Vinnustofur um mansal fara fram í dag og á morgun þar sem fjallað verður meðal annars um stöðu mansalsmála í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, refsivörslukerfið og áframhaldandi aðgerðir gegn mansali. Áþekk fundaröð með mansalsteymi ÖSE árið 2019 var talin gefa afar góða raun.
Þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Richey hittust á fundi í utanríkisráðuneytinu í fyrradag til að ræða stöðu mansalsmála í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. “Á fundi okkar kom fram að mansalsmálum hefur fjölgað mjög undanfarna mánuði alls staðar í Evrópu og að það megi setja í beint samhengi við innrásina og flótta kvenna og barna frá átakasvæðum. Þessi þróun er þyngri en tárum taki og mikilvægt að alþjóðasamfélagið leggist á eitt í að sporna við henni. Þar mun Ísland leita leiða til að geta orðið að gagni,” segir utanríkisráðherra.
Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að berjast gegn mansali með lagabreytingum, sérstakri aðgerðaáætlun og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þá hefur verið lögð áhersla á að veita þolendum mansals stuðning og öryggi með bættu verklagi og viðbúnaði, sér í lagi innan réttarvörslukerfisins. Komið var á samhæfingarmiðstöð í mansalsmálum sem er til húsa hjá Bjarkarhlíð með það að markmiði að samhæfa þjónustu við þolendur og átta sig á umfangi brotastarfseminnar í því skyni að geta beitt frekari aðgerðum gegn henni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er jafnframt lögð sérstök áhersla á að mansal, félagsleg undirboð og misnotkun á erlendu starfsfólki eigi aldrei að viðgangast á Íslandi.
Sérstök skrifstofa um mansal var sett á laggirnar hjá ÖSE árið 2003 og vinnur m.a. með aðildarríkjum ÖSE að þróa og innleiða stefnur og áætlanir í baráttunni gegn mansali. Þá heimsækja fulltrúar skrifstofunnar aðildarríki ÖSE til að koma á beinu og uppbyggilegu samtali um stefnumótun í baráttunni gegn mansali, styðja við innleiðingu skuldbindinga aðildarríkjanna, deila þekkingu og veita aðstoð þar sem þess er þörf.
Fjölmargir taka þátt í fundum og vinnustofu ÖSE á Íslandi, til dæmis starfsfólk ráðuneyta sem sérhæfir sig í málaflokknum, fulltrúar frá lögreglu og ríkislögreglustjóra, ákæruvaldi og dómstólum, Barna- og fjölskyldustofu, Vinnueftirlitinu, Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, fulltrúum stéttarfélaga og atvinnurekenda, frjálsum félagasamtökum o.fl. Þátttaka í fundum og vinnustofum af þessu tagi veitir bæði stjórnvöldum og öðrum sem málefnið varðar tækifæri til að efla þekkingu sína og berjast gegn þeirri samfélagslegu meinsemd sem mansal er.
Sérstakur fulltrúi ÖSE í mansalsmálum gefur út skýrslu eftir hverja heimsókn til aðildarríkja ÖSE þar sem fjallað er um árangursríkar aðgerðir sem hafa náð árangri í viðkomandi ríki, þær áskoranir sem staðið er frammi fyrir og hnitmiðuð tilmæli um mögulegar aðgerðir sem gætu bætt aðgerðir ríkisins í baráttunni gegn mansali. Skýrslurnar eru birtar á vefsvæði skrifstofunnar.