Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 503/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 503/2021

Miðvikudaginn 19. janúar 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. september 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 31. maí 2021. Með bréfi, dags. 16. september 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 30. nóvember 2021, þar sem kæranda var metinn örorkulífeyrir frá 1. júní 2021 til 31. maí 2025.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2021. Með bréfi, dags. 27. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 21. október 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. nóvember 2021, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda og óskað eftir afstöðu hans til hennar. Athugasemdir kæranda bárust í tölvubréfi 12. nóvember 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um örorku. Umsókn kæranda hjá VIRK hafi verið synjað. Þá hafi kærandi verið sendur til sérfræðings sem hafi þegar hitt hann, án þess að nokkuð hafi komið út úr því. Kærandi hafi gert allt sem hann geti, en hann sé með alvarlegan heilsuvanda.

Í athugasemdum kæranda frá 12. nóvember 2021 kemur fram að kærð hafi verið höfnun á umsókn um örorku og hafi sú ákvörðun verið felld úr gildi. Kærandi ætti að fá boð til læknis en það hafi ekki enn borist. Það sé ekkert annað sem kærandi hafi beðið um með kæru.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að eftir að kæra og kærumálsgögn hafi borist stofnuninni hafi málið verið tekið til nýrrar efnisskoðunar og yfirferðar. Eftir þá yfirferð hafi verið ákveðið að kærandi yrði boðaður í skoðun hjá matslækni Tryggingastofnunar. Smá bið sé hjá álitslæknum stofnunarinnar en bréf um boðun verði sent kæranda fljótlega.

Þar sem Tryggingastofnun hafi nú tekið málið upp að nýju og hafi ákveðið að senda kæranda í skoðun vegna umsóknar um örorkumat, óski stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísi fyrirliggjandi kæru frá. Fallist úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfuna áskilji stofnunin sér rétt til að leggja fram efnislega greinargerð vegna málsins.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. september 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála óskaði Tryggingastofnun eftir því í greinargerð sinni, dags. 21. október 2021, að úrskurðarnefnd velferðarmála vísaði kæru frá á þeim grundvelli að stofnunin hefði tekið málið upp að nýju. Tryggingastofnun greindi kæranda frá því með bréfi, dags. 26. október 2021, að hann yrði boðaður í skoðun innan þriggja vikna. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar og bréfs stofnunarinnar, dags. 26. október 2021. Kærandi svaraði bréfi Tryggingastofnunar á þá leið að hann hefði ekki enn fengið boð til læknis en það sé það eina sem hann hafi óskað eftir í kærunni. Með örorkumati, dags. 30. nóvember 2021, féllst stofnunin á umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Gildistími örorkumats var ákveðinn frá 1. júní 2021 til 31. maí 2025.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt umsókn kæranda um örorkulífeyri. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta