Þjálfun í ökugerði skilyrði frá næstu áramótum
Með breytingu á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini verður ökunemum skylt frá ársbyrjun 2008 að gangast undir þjálfun í ökugerði. Skulu þeir gera það á ökunámstímanum eða áður en fullnaðarskírteini er gefið út. Nokkrir aðilar hafa lýst áhuga á að reka ökugerði hérlendis.
Umræða um æfingasvæði fyrir ökunema eða ökugerði hefur staðið hérlendis í áraraðir. Á liðnu ári hóf samgönguráðuneytið að kanna hvort rekstrargrundvöllur ökugerðis væri raunhæfur án stuðnings ríkisins og hefur hún nú leitt til niðurstöðu um útgáfu á breyttri reglugerð. Gert er ráð fyrir því að ökunemar skuli fá þjálfun í ökugerði og að hún fari þar fram undir eftirliti ökukennara. Í ökugerði verði nokkrar brautir þar sem unnt verði til dæmis að æfa viðbrögð við hegðan bíls þegar veggrip er takmarkað. Gert er ráð fyrir því að áður en ökugerði er tekið í notkun skuli liggja fyrir samþykki og viðurkenning Umferðarstofu á skipulagi þess og rekstri og Umferðarstofu er einnig falið eftirlit með rekstri ökugerða.
Boðað var til fundar í samráði við Ríkiskaup vegna hugsanlegs sérleyfis og lýstu þar fimm aðilar áhuga sínum og sendu jafnframt ákveðnar upplýsingar. Þessir aðilar voru Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar, Bílaklúbbur Akureyrar, Iceland Motopark/Toppurinn, Nýi ökuskólinn og Ökukennarafélag Íslands og Akraneskaupstaður saman.
Í framhaldinu var aftur boðað til fundar og lágu þá fyrir drög að reglugerðarbreytingunni. Þeir sem lýst höfðu áhuga á rekstri ökugerðis lögðu þar fram upplýsingar um faglega hæfni, viðskiptaáætlun, vilyrði fyrir lóð og fleira. Í framhaldinu var Ríkiskaupum falið að meta framlögð gögn. Var niðurstaðan sú að miðað við forsendur hefðu þessir aðilar sýnt fram á að rekstrarforsendur væru til staðar fyrir fleiri en einn aðila til að byggja upp og starfrækja ökugerði án sérleyfis.
Í breyttri reglugerð um ökuskírteini er kveðið á um þjálfun ökunema í ökugerði og í viðauka er lýst nánar hvernig ökugerði skuli úr garði gert. Þessi breyting mun taka gildi 1. janúar 2008.
Breytingu á reglugerð nr. 501/1997 má sjá hér.