Ríkisreikningur 2010
Fréttatilkynning nr. 6/2011
Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2010 er nú lokið. Niðurstaðan sýnir að hvað reglubundinn rekstur ríkisins varðar náðist sá árangur sem að var stefnt í aðhaldi ríkisfjármála og að koma þeim á sjálfbæran grunn. Frávik á gjaldahlið skýrast af óreglulegum liðum en ekki venjubundnum rekstri. Munar þar lang mest um 33 m kr. framlag til Íbúðarlánasjóðs sem niðurstaðan hefur orðið að gjaldfæra í heild sökum bágrar stöðu sjóðsins. Áframhaldandi árangur við að vinna á hallarekstrinum skiptir sköpum fyrir trúverðugleika þeirrar fjármálastefnu sem stjórnvöld hafa sett sér og fylgt eftir af festu. Íslenska ríkið er nú þegar farið að njóta góðs af því sem þegar hefur áunnist. Nýafstaðið, velheppnað skuldabréfaútboð ríkisins á erlendum markaði er órækur vitnisburður um það.
Fjármál ríkissjóðs 2009 og 2010 | ||||||
Fjárlög/ | ||||||
Reikningur | Fjáraukalög | Frávik | Reikningur | |||
Í millj. kr. | 2010 | 2010 | Fjárhæð | % | 2009 | |
Tekjur samtals | 478.697 | 477.692 | 1.005 | 0,2 | 439.516 | |
Gjöld samtals | 601.982 | 559.805 | 42.177 | 7,5 | 578.780 | |
Tekjur umfram gjöld | -123.285 | -82.113 | -41.172 | . | -139.264 | |
Frumjöfnuður | -84.437 | -39.214 | -45.224 | . | -99.029 | |
Lánsfjárafgangur/lánsfjárþörf, nettó (+/-) | -53.043 | -233.638 | 180.594 | . | -157.384 | |
Tekin lán, nettó | 155.488 | 168.000 | -12.512 | . | 199.501 | |
Innlend lán | 116.076 | … | … | . | 178.983 | |
Erlend lán | 39.412 | … | … | . | 20.518 | |
Breyting á handbæru fé | 102.445 | -65.638 | 168.082 | . | 42.117 | |
Hlutfall af vergri landframleiðslu, % | ||||||
Tekjur samtals | 31,1 | 31,0 | . | . | 29,4 | |
Gjöld samtals | 39,1 | 36,4 | . | . | 38,7 | |
Tekjur umfram gjöld | -8,0 | -5,3 | . | . | -9,3 | |
Frumjöfnuður | -5,5 | -2,5 | . | . | -6,6 | |
Lánsfjárafgangur/lánsfjárþörf, nettó (+/-) | -3,4 | -15,2 | . | . | -10,5 |
Afkoma ríkissjóðs
Tekjujöfnuður ársins 2010 varð neikvæður um 123 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 82 milljarða króna og var því raunútkoman 41 milljarði króna verri en gert var ráð fyrir í heildarfjárheimildum ársins. Þessi tekjuhalli er um 26% af heildartekjum ársins og 8% af landsframleiðslu. Tekjurnar voru nokkurn veginn í samræmi við áætlanir en gjöldin voru 42 milljörðum króna hærri. Þrátt fyrir að þessi niðurstaða sé verri en gert var ráð fyrir í áætlunum þá er hún betri en á árinu 2009 þegar tekjujöfnuðurinn var neikvæður um 139 milljarða króna. Frumjöfnuður ársins er neikvæður um rúman 84 milljarða króna en gert var ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 39 milljarða króna í heildarfjárheimildum ársins. Viðbótarframlag til Íbúðalánasjóðs að upphæð 33 milljörðum króna sem ekki var gert ráð fyrir skýrir þetta frávik að stórum hluta. Einnig voru veruleg frávik í nokkrum óreglulegum liðum sem erfitt er að áætla nákvæmlega fyrir. Nægir þar að nefna afskriftir skattkrafna, lífeyrisskuldbindingar og greiddan fjármagnstekjuskatt.
Tekjur ríkissjóðs
Tekjur ársins urðu alls 479 milljarðar króna sem jafngildir um 31% af landsframleiðslu ársins. Árið 2009 námu þær tæpum 440 milljörðum króna eða 29% af landsframleiðslu þess árs og aukast þær um 39 milljarða á milli ára. Þessi niðurstaða er nokkurn veginn í samræmi við tekjuáætlun ársins 2010. Tekjur ríkissjóðs eru eins og áður segir hærri en á síðasta ári og er það raunin í flestum tekjuþáttum. Þar munar mestu um tryggingagjöld sem aukast um tæpa 18 milljarða króna milli ára. Þá reyndust skattar á tekjur og hagnað einstaklinga rúmum 5 milljörðum króna hærri, fjármagnstekjur tæpum 7 milljörðum króna, eignarskattar 4 milljörðum hærri, virðisaukaskattur tæpum 3 milljörðum króna hærri og vörugjöld tæpum 7 milljörðum króna. Skattar á tekjur og hagnað lögaðila reyndust hins vegar tæpum 13 milljörðum króna lægri en á árinu 2009.
Gjöld ríkissjóðs
Gjöld ríkissjóðs reyndust um 602 milljarðar króna. Árið 2009 námu þau tæplega 579 milljörðum króna. Heildarútgjaldaheimildir hljóðuðu upp á 578 milljarða króna og því voru raunútgjöld um 24 milljörðum króna hærri en fjárheimildir gerðu ráð fyrir.
Stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs eru útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála og almennrar opinberrar þjónustu. Þessir þættir vega rúmlega 60% í útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2010. Gjöld til almannatrygginga og velferðarmála námu 135 milljörðum króna eða 22% af gjöldum ríkissjóðs og voru nokkurn veginn í samræmi við heildarfjárheimild. Útgjöld til almennrar opinberrar þjónustu námu tæpum 116 milljörðum króna og voru tæpum 10 milljörðum króna lægri en heildarfjárheimild gerði ráð fyrir. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs flokkast þarna undir og nam hann 68 milljörðum króna á árinu 2010 sem er mun lægra en á árinu 2009 og jafnframt rúmum 2 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir í áætlunum. Útgjöld til heilbrigðismála námu 113 milljörðum króna eða 19% af gjöldum ríkissjóðs og voru tæpum 3 milljörðum yfir fjárheimildum ársins þrátt fyrir að lækka um tæpa 4 milljarða króna milli ára.
Útgjöld til efnahags- og atvinnumála námu 61 milljarði króna eða 10% af heildargjöldum ríkissjóðs en þar vega þyngst 22 milljarða króna framlög til vegasamgangna. Gjöld til menntamála námu 47 milljörðum króna eða 8% af gjöldum ríkissjóðs. Gjöld vegna óreglulegra útgjalda námu 56 milljörðum króna eða 9% af gjöldum ríkissjóðs en þessi þáttur sveiflast verulega frá einu ári til annars. Útgjöldin hækka um 19 milljarða króna þar sem útgjöld vegna ríkisábyrgða aukast um 24 milljarða króna og lífeyrisskuldbindingar um 8 milljarða en á móti lækkuðu afskriftir skattkrafna um 12 milljarða króna á milli ára.
Fjármagnskostnaður
Lánsfjárþörf reyndist mun minni en lagt var upp með eða 3% af landsframleiðslu samanborið við 15% í áætlun. Nýjar lántökur námu rúmum 155 milljörðum króna umfram afborganir. Greiðslustaða ríkissjóðs er sterk og batnaði um 102 milljarða króna á árinu 2010. Í árslok var handbært fé 317 milljarðar króna.
Um Ríkisreikning 2010
Reikningur fyrir árið 2010 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er samstæðureikningur um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélag sem eru að hálfu eða meiru í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2010 verður aðgengilegur á veraldarvefnum á heimasíðu Fjársýslu ríkisins http://www.fjs.is/. þar sem hægt verður að fá nánari upplýsingar.
Fjármálaráðuneytið, 26. júlí 2011