Um leitina að sjálfum sér
Fyrirspurnirnar sem berast inn á borð til okkar sem störfum í sendiráðum Íslands erlendis geta verið ansi fjölbreyttar. Það kemur fyrir að við erum beðin um að hafa upp á Íslendingum sem fólk langar að komast í samband við. Stundum er verið að leita að ættingjum eða gömlum skólafélögum, koma óskilamunum eða gömlum bréfum til skila eða annað í þeim dúr.
Ein slík fyrirspurn barst til mín nú í morgun, með viðhengi þar sem skönnuð höfðu verið nafnspjöld sem fundist höfðu á bæjarskrifstofum í smábænum La Motte Chalençon í Drôme héraði. Viðkomandi lýsti því að íslensk fjölskylda hefði heimsótt bæinn fyrir nokkrum árum í leit að upplýsingum um forfeður sína. Þau voru afkomendur Jeans nokkurs Armands sem var fæddur árið 1672 þar í bænum. Hann var húgenotti, eða mótmælendatrúar, sem flúði Frakkland í kjölfar ofsókna franska konungsins Loðvíks XIV, sólkonungsins svokallaða. Loðvík XIV á m.a. hafa sagt “Ríkið, það er ég” – eða “L'état, c'est moi”. Hann var kaþólskur og vildi ekki hafa það að einhverjir þegna hans aðhylltust aðra trú en hann sjálfur og fyrirskipaði því að þeir sem ekki vildu kasta mótmælendatrúnni skyldu píndir til þess eða ellegar drepnir.
Jean Armand var í hópi um 300.000 samlanda sinna og trúbræðra sem ákváðu að leggja í hættulega og erfiða ferð yfir fjöllin og freista þess að komast til nágrannalandanna. Hann settist fyrst að í Brandenbourg í Þýskalandi en flutti þaðan til Fredericia í Danmörku. Hann var í hópi um 200 húgenotta sem þáðu boð danska konungsins Kristjáns V um að setjast þar að. Boðið var tilkomið fyrir þrýsting frá drottningu hans, Charlotte-Amalie, sem var fædd í Þýskalandi og alin upp í kalvínisma.
Maðurinn sem sendi fyrirspurnina í sendiráðið hafði sett upp sýningu um flótta og útlegð húgenotta frá Frakklandi. Hann hafði valið fjóra flóttamenn úr héraðinu og skýrði sýningin frá örlögum þeirra. Armand hafði sest að í Danmörku, Gordan fjölskyldan settist að í Þýskalandi, skurðlæknirinn Durand flutti til S-Afríku og Fort endaði daga sína í Rússlandi. Við gerð sýningarinnar hafði hann notið aðstoðar ýmissa afkomenda þessara flóttamanna, þar á meðal tveggja danskra kvenna sem voru afkomendur Armands og bera nafnið Hermann, en nafninu var breytt eftir nokkra ættliði svo það hljómaði danskara að uppruna.
Í La Motte Chalençon hafði einhver á bæjarskrifstofunum svo grafið upp þessi tvö nafnspjöld Íslendinganna sem komu til bæjarins árið 2006 til að fletta í gömlum kirkubókum, rölta um kirkjugarðinn og skoða símaskrár. Og nú leitaði maðurinn á náðir sendiráðsins í þeirri von að það gæti aðstoðað hann við leitina að afkomendum Jean Armands á Íslandi.
Í stuttu máli má segja að þessi fyrirspurn hafi ekki kallað á mikla rannsóknarvinnu af hálfu sendiráðsins. Annað af nafnspjöldunum var mitt eigið.
Nína Björk Jónsdóttir er sendiráðunautur í París og barna- barna- barna- barna- barna- barna- barna- barnabarn Jean Armands.