Einföldun á skráningarskyldu lítilla landeldisstöðva
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð til einföldunar á skráningarskyldu aðila í fiskeldi í samræmi við einföldunarfrumvarp sem samþykkt var á Alþingi í júní sl. Með lögunum var ráðherra fengin heimild til að kveða á um í reglugerð að starfsræksla fiskeldisstöðva á landi, þar sem hámarkslífmassi er allt að 20 tonnum á hverjum tíma og starfsemin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum, sé háð skráningarskyldu í stað útgáfu rekstrarleyfis.
Samkvæmt reglugerðinni verða fiskeldisstöðvar þar sem hámarkslífmassi í matfiska- og rannsóknareldi fer ekki yfir 20 tonn á hverjum tíma og hámarkslífmassi í seiðaeldi fer ekki yfir 1.000 kg. eða 10.000 seiði á hverjum tíma háðar skráningarskyldu. Mun það draga verulega úr kostnaði við að koma á fót minni landeldisstöð.