Bein útsending frá vígslu á Húsi íslenskunnar
Hvað mun húsið heita?
Hús íslenskunnar, Nýtt hús Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands verður vígt formlega í dag. Á vígslunni verður endanlegt nafn hússins opinberað, en yfir þrjú þúsund tillögur bárust í nafnasamkeppni almennings.
Sýnt verður frá viðburðinum í beinni útsendingu og verður hægt að fylgjast með streyminu hér fyrir neðan frá kl.16:30. Einnig verður hægt að fylgjast með útsendingunni á Vísi, Stöð 2 Vísi og í útvarpinu á Rás 1.
„Þetta eru tímamót í menningarsögu þjóðarinnar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Hús þjóðarinnar
Ákvörðun um framlag til byggingar hússins var tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt árið 2008 og fyrsta skóflustunga var tekin árið 2013. Verkefnið hefur því verið lengi í vinnslu og margir hafa beðið spenntir eftir þessum tímamótum.
Á árunum 2016-2018 fór fram ítarleg endurskoðun og rýni á hönnun hússins með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í byggingu og rekstri. Í maí 2019 var gengið frá samningum um byggingu þess og hófust framkvæmdir í kjölfarið.
Heildarkostnaður við byggingu hússins er um 98,9% áætlun frá 2019 á verðlagi dagsins í dag. Stefnt var að því að flytja inn í húsið í haust svo þessi áfangi er að nást á undan áætlun.
„Ég vil þakka öllum þeim stóra og fjölbreytta hópi sem hefur komið að þessu verkefni í gegnum tíðina og ég óska íslensku þjóðinni til hamingju með húsið sitt – en af því getum við öll verið stolt. Með tilkomu þess verður menningararfi okkar tryggt gott og öruggt þak yfir höfuðið og tungumálinu okkar fært það langþráða lögheimili sem það á svo sannarlega skilið.“ segir ráðherra.
Heimili íslenskunnar
Húsnæðið mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu.
Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.
,,Það hillir undir að íslenskan og okkar dýrmætasti menningararfi fái langþráð og verðskuldað lögheimili. Hús íslenskunnar markar vatnaskil fyrir starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Með húsinu skapast loksins aðstaða til þess sýna okkar merkustu handrit sem eru samofin sjálfsmynd okkar sem þjóðar,‘‘ segir ráðherra.
Opið hús á fyrsta degi sumars
Í tilefni af vígslunni verður húsið svo opnað almenningi sumardaginn fyrsta, 20. apríl. Þennan dag geta gestir skoðað húsið áður en flutt er inn í það og starfsemi hefst. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem íslensk tunga verður í aðalhlutverki.Nánar má lesa um dagskrá hér á vef Stjórnarráðsins.