Hoppa yfir valmynd
18. júní 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rök ráðuneytisins gagnvart stefnu Eftirlitsstofnunar EFTA

Félags- og tryggingamálaráðuneytið telur mikilvægt að ákvæðum laga um rétt útsendra starfsmanna til launa vegna veikinda og slysa og til slysatrygginga verði ekki breytt þar sem um mikilvæg réttindi sé að ræða. Því hefur ekki verið orðið við kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA um afnám þeirra og mun íslenska ríkið grípa til varna fyrir EFTA dómstólnum.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Eftirlitsstofnun EFTA ákveðið að stefna íslenska ríkinu fyrir EFTA dómstólinn á þeim forsendum að lög frá árinu 2007 um skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn sína til tímabundinna starfa á Íslandi samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins um frjálsa þjónustustarfsemi né ákvæðum tilskipunar um úrsenda starfsmenn. 

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur í samskiptum við EFTA lagt áherslu á nauðsyn þess að halda inni í lögunum ákvæðum um rétt útsendra starfsmanna til launa í veikinda- og slysatilvikum og rétt þeirra til slysatrygginga vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku. Er það álit ráðuneytisins að þarna sé um mikilvæg grundvallarréttindi að ræða sem ekki verði fallið frá fyrr en að fullreyndu, því verði skilningur Eftirlitsstofnunar EFTA staðfestur muni það setja í uppnám þær margháttuðu varnir sem hér hefur verið komið upp á undanförnum árum gegn félagslegum undirboðum.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki fallist á röksemdir Íslands í þessu máli. Íslensk stjórnvöld hafa aftur á móti ákveðið að láta reyna á sjónarmið sín fyrir dómi og munu ekki hvika frá þeirri stefnu sem þau hafa markað til varnar félagslegum undirboðum nema á grundvelli skýrra fyrirmæla EFTA dómstólsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta