Hoppa yfir valmynd
24. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Úkraína og losunarheimildir til umfjöllunar á EES-ráðsfundi

Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Jessika Roswall, Evrópumálaráðherra Svíþjóðar og Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB sem fer meðal annars með málefni EES-samningsins - mynd

EES-ráðið, sem skipað er utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna í EES – Íslands, Liechtenstein og Noregs – og fulltrúum Evrópusambandsins, kom saman til reglulegs fundar í Brussel í dag.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi þar meðal annars viðskiptakerfi um losunarheimildir í flugi og lét í ljós ánægju með að fyrir lægju útlínur að lausn um hvernig það yrði útfært gagnvart Íslandi.

„Af hálfu Íslands hefur alltaf legið fyrir að málið yrði ekki tekið óbreytt upp í EES-samninginn og að því höfum við í utanríkisþjónustunni unnið hörðum höndum undanfarin misseri. Yfirlýsingar leiðtogar Evrópusambandsins í Reykjavík í síðustu viku staðfesta að sú vinna hefur skilað árangri og það var áréttað á fundinum hér í Brussel í dag,“ segir Þórdís Kolbrún..

Meginhagsmunir Íslands í málinu snúa að því að brúa bilið þangað til flug út fyrir EES-svæðið, þ.m.t. til Ameríku fellur undir ETS-kerfið hinn 1. janúar 2027. Þá jafnast samkeppnisstaða tengiflugs um Ísland yfir Atlantshafið til lengri tíma litið.

„Með þeirri lausn sem liggur á borðinu getur Ísland áfram veitt endurgjaldslausar heimildir til flugfélaganna þangað til áðurgreind breyting verður. Byggist lausnin á viðurkenndri sérstöðu Íslands og jafnar samkeppnisstöðu flugfélaganna í þessu millibilsástandi,“ segir Þórdís Kolbrún.

Árið 2026 verða áhrifin af kerfinu metin, sérstaklega fyrir tíðni flugsamgangna til og frá Íslandi. Breytist ESB löggjöfin ber að taka tillit til sérstöðu Íslands þegar þær breytingar koma til skoðunar til upptöku í EES-samninginn, m.a. ef ESB ákveður að undanþiggja áfram flug af EES-svæðinu út úr sambandinu. Til viðbótar var Íslandi tryggð sama sérlausn og Malta og Kýpur fengu til að brúa verðmuninn á vistvænu þotueldsneyti og jarðefnaeldsneyti.

Á fundinum í Brussel í dag voru málefni Úkraínu ofarlega á baugi og þar áréttuðu þátttakendur stuðning við varnarbaráttu Úkraínu gegn Rússlandi. Utanríkisráðherra lagði meðal annars áherslu á mikilvægi niðurstöðu leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík um að draga Rússland til ábyrgðar vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Á fundinum var einnig sérstök umræða um samkeppnishæfni innri markaðarins í ljósi áskorana á alþjóðavettvangi. Lagði Þórdís Kolbrún áherslu á að reglur innri markaðarins mættu ekki fela í sér of miklar byrðar fyrir fyrirtæki, einfalda þyrfti regluverk og hlúa að framtakssemi einstaklinga enda væri hlutverk stjórnvalda að tryggja samkeppnishæfni en vera ekki fyrir. Það væru einstaklingarnir og fyrirtækin sem skapa verðmætin.

EES-ráðið er pólitískur vettvangur EES-samstarfsins. Ráðið fundar næst í nóvember.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta