Hoppa yfir valmynd
22. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 273/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. september 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 273/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030021

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. mars 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. febrúar 2016, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðunin verði ógilt vegna brots á lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 21. október 2015. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 3. desember 2015 ásamt talsmanni sínum. Þann 29. febrúar 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka umsókn kæranda um hæli ekki til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 8. mars 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar. Með bréfi kærunefndar, dags. 23. mars 2016, var fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 1. apríl 2016. Þann 28. júní sl. kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Kærandi lagði fram viðbótargögn í viðtali hjá kærunefnd. Viðbótargögn bárust einnig frá kæranda þann 13. júlí sl.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er því lýst að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Slóvakíu.

Í umfjöllun um mat á trúverðugleika frásagnar kæranda í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi byggt á því að hann búi við ómannúðlegar aðstæður þar sem hann eigi ekki rétt á menntun, heilbrigðisþjónustu, húsnæði eða annarri félagslegri aðstoð sem flóttamaður í Slóvakíu. Þá hafi hann einnig byggt á því að […]verði fyrir fordómum. Hann hafi einnig orðið fyrir hótunum frá öðrum […] í Slóvakíu vegna fyrri starfa hans fyrir […]. Benti Útlendingastofnun á að aðlögun hælisleitenda og einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd að slóvakísku samfélagi fari aðallega fram með aðgerðum fjármögnuðum af Evrópusambandinu. Í gegnum slík verkefni sé handhöfum alþjóðlegrar verndar veitt félagsleg, fjárhagsleg, sálfræðileg og lagaleg aðstoð auk aðgangs að tungumálakennslu og aðstoð við að finna húsnæði. Aðgangur handhafa alþjóðlegrar verndar að verklegri þjálfun eða annarri starfsþjálfun sé formlega fyrir hendi samkvæmt lögum og hafi þeir sama rétt og aðrir borgarar til slíkrar þjálfunar. Handhafar alþjóðlegrar verndar eigi þó erfiðara með að sýna fram á að tiltekin skilyrði séu uppfyllt, t.d. varðandi gögn sem staðfesti menntun þeirra og tungumálakunnáttu.

Jafnframt benti Útlendingastofnun á að innanríkisráðuneyti Slóvakíu gefi út sjúkratryggingarvottorð beint til einstaklinga sem hlotið hafi viðbótarvernd. Það séu til dæmi þess að það skapi ákveðinn vafa hjá heilbrigðisstofnunum um að hvaða marki viðkomandi sé tryggður. Einstaklingar með alþjóðlega vernd þurfi ekki að afla sér sérstaks atvinnuleyfis áður en þeir hefji störf. Jafnframt hafi þessir einstaklingar verið skilgreindir sem hópur atvinnuleitenda sem þurfi á aukinni aðstoð að halda lögum samkvæmt og eigi því kost á að nýta sér sérstök úrræði vegna þessa. Mismunun og fordómar gegn einstaklingum með uppruna utan Evrópu sé þekkt. Bæði hjá saksóknara og lögreglu starfi sérhæft starfsfólk við rannsókn og saksókn afbrota sem drifin séu áfram af öfgaskoðunum í garð minnihlutahópa. Þá hafi innanríkisráðuneyti Slóvakíu sett fram aðgerðaáætlun um baráttu gegn slíkum afbrotum. Samkvæmt heimildum Útlendingastofnunar séu einstaklingar, […]. Ekki sé þó hægt að útiloka að kærandi hafi mætt einhverju mótlæti vegna þessa.

Með tilliti til ofangreinds var við úrlausn málsins á því byggt að kærandi hafi mætt fordómum og hugsanlegu aðkasti vegna uppruna síns, hann hafi átt erfitt með að fá vinnu og afla sér húsnæðis og hafi getað orðið fyrir aðkasti vegna vinnu sinnar […]. Ekki var fallist á að einstaklingum með uppruna utan Evrópu sé kerfisbundið mismunað varðandi menntun og heilbrigðisþjónustu í Slóvakíu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga segi að með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geti stjórnvöld synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn skv. 1. mgr. 46. gr. ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns. Í 2. mgr. 46. gr. a laganna segi að þó skuli taka umsókn til efnismeðferðar hafi útlendingur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Óumdeilt sé að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Slóvakíu. Þurfi þá að líta til þess hvort ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga komi í veg fyrir að kærandi verður sendur aftur til Slóvakíu.

Kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Slóvakíu og þar með leyfi til að stunda þar atvinnu og geti því unnið þar fyrir sér og aflað sér húsnæðis. Auk þess sé vert að líta til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn hafi slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dveldu innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Í framhaldi tók Útlendingastofnun fram að ekki verði séð að aðstæður kæranda varðandi húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 45. gr. laga um útlendinga.

Útlendingastofnun tók fram að það þekkist að einstaklingar með uppruna utan Evrópu verði fyrir fordómum og aðkasti í Slóvakíu, en yfirvöld hafi gripið til viðeigandi aðgerða og sé nú til að dreifa sérhæfðu löggæslufólki og rannsakendum sem sinni málum sem drifin séu áfram af öfgaskoðunum og fordómum. Stofnunin taldi því ljóst að kærandi geti leitað til yfirvalda verði hann fyrir hótunum eða öðru aðkasti. Var það mat Útlendingastofnunar að 45. gr. laga um útlendinga komi ekki í veg fyrir að kærandi verði sendur aftur til Slóvakíu.

Kærandi hafi engin tengsl við landið. Þá verði ekki séð að til staðar séu sérstakar ástæður sem mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til meðferðar hér á landi.

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, og var réttaráhrifum ekki frestað með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í upphafi greinargerðar sinnar tekur kærandi fram að því sé ekki andmælt að kærandi njóti viðbótarverndar í Slóvakíu. Hins vegar byggist krafa kæranda um að verða ekki sendur til Slóvakíu á því að þangað megi ekki senda hann vegna þess að sterkar vísbendingar séu um að aðbúnaður og aðstæður sem hann megi eiga von á þar í landi séu svo slæmar að það jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi bendir jafnframt á að samkvæmt 45. gr. laga um útlendinga megi ekki senda útlending til svæðis þar sem hann sé í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Kærandi tekur fram að hann sé ekki að óska alþjóðlegrar verndar gagnvart Slóvakíu, enda uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga þar sem Slóvakía sé ekki heimaland hans.

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að aðstæður, aðbúnaður og réttarstaða þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Slóvakíu leiði til þess að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á því að senda kæranda aftur til Slóvakíu.

Þeir sem njóti viðbótarverndar í Slóvakíu þurfi ekki atvinnuleyfi og eigi lögum samkvæmt jafnan aðgang að vinnumarkaðnum og slóvakískir ríkisborgarar. Þrátt fyrir þennan rétt þá þurfi þeir að kljást við margvíslegar hindranir sem geri þeim erfitt að aðlagast slóvakísku samfélagi. Vísar kærandi í alþjóðlegar skýrslur og bendir m.a. á að erfitt sé fyrir fólk með viðbótarvernd að fá vinnu í Slóvakíu, auk þess sem almennt atvinnuleysi sé mikið. Bendir kærandi auk þess á að litið sé á þennan hóp flóttamanna sem tímabundna borgara í Slóvakíu og að þeir eigi ekki rétt á fullum aðlögunaraðgerðum sem leiði til ríkisborgararéttar.

Einstaklingar með viðbótarvernd njóti hvorki framfærslu né húsnæðis á vegum yfirvalda. Þeir geti því þurft að hafast við á götunni svo mánuðum og árum skiptir. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki haft reglulegt húsnæði þann sem tíma sem hann hafi haft viðbótarvernd. Honum hafi stundum tekist að útvega sér tímabundna vinnu og hafi þá getað greitt fyrir ódýrasta gistiheimilið sem völ væri á. Annars hafi hann lengstum þurft að hafast við á járnbrautar- og strætisvagnastöðvum með tilheyrandi óöryggi og óþægindum, sérstaklega á veturna.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá reynslu sinni af samskiptum sínum við almenna borgara í Slóvakíu. Hann hafi ekki orðið fyrir líkamlegu ofbeldi sökum litarháttar eða trúar, […]. Þá hafi ráðamenn í Slóvakíu ekki farið leynt með andúð sína á fólki sem sé […].

Viðbótarvernd kæranda renni út í maí 2016. Samkvæmt 20. gr. slóvakískra útlendingalaga sé unnt að endurnýja til tveggja ára dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar. Það sé hins vegar ófrávíkjanlegt skilyrði laganna að umsókn um endurnýjun berist hið minnsta 90 dögum áður en leyfið falli úr gildi og þá sé gerð krafa um að umsóknin sé lögð fram á lögreglustöð í eigin persónu. Samkvæmt upplýsingum kæranda séu engar ívilnandi reglur gagnvart þeim sem séu handhafar viðbótarverndar og berist umsóknin ekki innan þessarar tímamarka þá þurfi viðkomandi að byrja á byrjunarreit og leggja fram nýja hælisumsókn.

Í kjölfar birtingar á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi kærandi greint talsmanni sínum frá því að kærandi hafi synjað beiðni slóvakískra lögreglumanna um að njósna um samlanda sína og aðra […] í flóttamannabúðunum þar sem hann hafi dvalið í Slóvakíu. […]. Lögreglan hafi boðið honum ýmislegt í skiptum fyrir aðstoðina, en hann hafi neitað. Hann hafi lent í ýmsum vandamálum gagnvart löndum sínum í kjölfarið. Hann óttist afleiðingar þess að hafa ekki orðið við bón lögreglunnar um aðstoð verði hann sendur aftur til Slóvakíu og telur sig af þeim sökum ekki geta leitað til yfirvalda vegna þeirra vandamála sem hann muni lenda í gagnvart löndum sínum í Slóvakíu. Í þessu sambandi sé rétt að nefna að í tilvikum þar sem stjórnvöld standi að baki ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Sú regla komi fram í leiðbeiningareglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Með því að senda kæranda til Slóvakíu sé brotið gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við m.a. 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Kærandi bendir á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breytingu á útlendingalögum, komi m.a. fram í sérstökum athugasemdum að ekki sé um tæmandi talningu að ræða í 12. gr. f laganna, þar sem veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni. Taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna, s.s. almennum aðstæðum í því landi sem viðkomandi yrði sendur til, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Miðað sé við að heildarmat fari fram á öllum þáttum máls áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Þau tilvik sem falli undir 12. gr. f laga um útlendinga geti einnig náð til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir, en að jafnaði taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum, s.s. fátæktar eða húsnæðisskorts.

Kærandi vísar í umfjöllun Útlendingastofnunar um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi frá 21. janúar 2011 (mál nr. 30696/09), og í máli Samsam Mohammed Hussein og fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Auk þess vísar kærandi í úrlausn Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Naima Mohammed Hassan o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 40524/10) frá 27. ágúst 2013. Í framhaldi af því bendir kærandi á að það séu ekki einungis hælisleitendur sem séu sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur vegna stöðu sinnar. Einstaklingar með alþjóðlega vernd séu það mjög oft einnig og engin ástæða sé til að greina þar sérstaklega á milli við mat á því hvort skilyrðum 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé fullnægt eða ekki. Bæði hælisleitendur og einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í úrlausnum sínum komist að þeirri niðurstöðu að ítalskt dvalarleyfi veiti viðurkenndum flóttamönnum sömu réttarstöðu og ítölskum borgurum. Bendir kærandi á að sé það heimfært yfir á stöðuna í Slóvakíu virðist sem einstaklingar með alþjóðlega vernd í Slóvakíu njóti að mestu sömu réttinda og slóvakískir borgarar. Kærandi bendir hins vegar á að hafa verði í huga það grundvallaratriði að þrátt fyrir að flóttamaður með viðurkennda stöðu njóti í orði kveðnu sömu réttinda og almennir borgarar viðkomandi lands þá séu flóttamenn í allt annarri og mun viðkvæmari stöðu.

Einstaklingur geti einn daginn verið heimilis- og bjargarlaus sem hælisleitandi og næsta dag verið áfram heimilis- og bjargarlaus, en með alþjóðlega vernd. Þó svo að einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti sömu eða sambærilegra réttinda og almenningur þá sé staða þeirra sjaldnast á pari við hinn almenna borgara, öfugt við það sem Mannréttindadómstóll Evrópu virðist telja. Að gera greinarmun á því hvort um hælisleitanda eða einstakling með alþjóðlega vernd sé að ræða sé því ekki það sem mestu skipti, heldur skuli einblína á hvort viðkomandi einstaklingur sé í hættu á illri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sáttmálinn mæli einungis fyrir um lágmarksvernd og hverju ríki sé heimilt að mæla fyrir um ríkari vernd en leiði af mannréttindasáttmálanum og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Kærandi bendir á að með hliðsjón af lögskýringargögnum varðandi 12. gr. f laga um útlendinga sé á engan hátt útilokað að ákvæðið geti átt við neyð af efnahagslegum rótum, s.s. vegna fátæktar eða húsnæðisskorts. Með vísan til ofangreinds hafi kærandi því sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna erfiðra almennra aðstæðna í Slóvakíu og að veita beri honum vernd á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Í viðbótargreinargerð kæranda kemur fram að verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu kæranda sé gerð sú þrautavarakrafa í málinu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt vegna brots á lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ekki minnst einu orði á varakröfu kæranda um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hins vegar komi þar fram að í greinargerð talsmanns kæranda sé skýrlega tekið fram að hann sé ekki að sækja um hæli frá Slóvakíu og því verði ekki fjallað um slíka umsókn. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ekkert fjallað nánar um varakröfuna og engar frekari forsendur eða rökstuðning að finna um hana og hvers vegna ekki sé tekin afstaða til hennar. Vísar kærandi í ákvæði 1. mgr. 46. gr. a, 8. mgr. 46. gr. og 3. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga. Þegar þau ákvæði séu skoðuð hafi Útlendingastofnun ekki haft heimild í lögum til þess að fjalla ekki um kröfu kæranda um dvalarleyfi af mannúðarástæðum þó svo að stofnunin teldi ekki ástæðu til þess að taka umsókn hans um hæli til efnismeðferðar. Útlendingastofnun hafi, almennt séð, heimild í 46. gr. a til þess að synja um efnismeðferð hælisumsóknar, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en aftur á móti sé sambærilega heimild ekki að finna í tengslum við umsóknir um dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Slíkar umsóknir beri því að taka til efnislegrar skoðunar þrátt fyrir að hælisumsókn sé synjað um efnislega meðferð.

Jafnframt bendir kærandi á að í athugasemdum með 3. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga komi fram að tilgangurinn með ákvæðinu sé að koma í veg fyrir að mál sem með réttu eigi undir ákvæði laganna um flóttamenn verði afgreidd á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi telur að ákvæðið feli í sér skyldu stjórnvalda til að fjalla efnislega um rétt umsækjenda til hælis áður en fjallað sé um hvort skilyrði séu til þess að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Umfjöllun um rétt manna til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé hins vegar ekki takmörkuð við svokölluð efnismeðferðarmál. Af athugasemdum í greinargerð með 3. mgr. 12. gr. f verði ekki annað ráðið en að ákvæðinu sé ætlað að tryggja umsækjendum aukin réttindi og koma í veg fyrir að veitt verði dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða til þeirra sem í raun séu flóttamenn sem eigi rétt á alþjóðlegri vernd. Ákvæðið verði ekki túlkað á þann hátt að þeir sem sæki hér um hæli og falli undir 46. gr. a séu útilokaðir frá því að fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þvert á móti sé beinlínis gert ráð fyrir því í 2. mgr. 12. gr. f að veita megi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Einungis í þeim tilvikum þar sem ákvæði 46. gr. a eigi við kæmi til þess að einstaklingi yrði vísað til annars lands en heimaríkis. Ekki verði annað lesið úr ákvæði 2. mgr. 12. gr. f en að dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði einnig veitt til þeirra sem vísa eigi til annarra landa en heimalands, þ.e. þeirra sem falla undir 46. gr. a laga um útlendinga. Telur kærandi því að hér sé um annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar að ræða sem leiði til ógildingar hennar. Um sé að ræða brot á lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, enda hafi niðurstaða Útlendingastofnunar um að fjalla ekki um kröfu kæranda um dvalarleyfi af mannúðarástæðum ekki átt sér stoð í ákvæðum laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að í málinu liggi fyrir staðfesting slóvakískra yfirvalda á auðkenni kæranda. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti.

Athugasemdir kærunefndar

Kærunefnd gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki tekið til skoðunar umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærunefnd telur að með þessu hafi kærandi ekki fengið fulla og rétta umfjöllun á fyrsta stjórnsýslustigi um atriði sem kunna að hafa veigamikla þýðingu í máli hans. Með tilliti til málsástæðna kæranda og fyrri framkvæmdar í málum kærenda í sambærilegri stöðu, bæði hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi einnig borið að fjalla um umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Því er það niðurstaða kærunefndar að stofnuninni skuli gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

Í gögnum málsins má finna svar frá yfirvöldum í Slóvakíu til Útlendingastofnunar þar sem kemur fram að kærandi hafi fengið viðbótarvernd í maí 2014 og hafi sú vernd gilt í tvö ár. Í málinu liggja ekki fyrir frekari gögn um að kærandi sé með vernd í Slóvakíu. Með tilliti til þess að aðstæður kæranda eru breyttar frá því að ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin, þ.e. samkvæmt gögnum máls virðist vernd kæranda í Slóvakíu hafa runnið úr gildi, telur kærunefnd að þörf sé á að vísa málinu í heild aftur til Útlendingastofnunar. Er því beint til Útlendingastofnunar að taka þessar breyttu aðstæður kæranda til sérstakar skoðunar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda fyrir að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellantˈs case.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta