Hoppa yfir valmynd
29. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 5/2017

Hinn 10. mars 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 5/2017:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 300/2015

Ákæruvaldið

gegn

X

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 2. febrúar 2017, fór X þess á leit að hæstaréttarmál nr. 300/2015, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. janúar 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir, mar og opið sár á nefi sem sauma þurfti með tveimur sporum. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til 30 daga fangelsisrefsingar og við þá ákvörðun litið til þess að atlaga hans hefði verið tilefnislaus og harkaleg. Fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Fyrir Hæstarétti krafðist endurupptökubeiðandi meðal annars ómerkingar héraðsdóms. Sú krafa var annars vegar reist á þeim grunni að borið hefði að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að þrír dómarar skipuðu dóm og hins vegar á því að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga. Ekki var fallist á þetta í dómi Hæstaréttar og var sérstaklega tekið fram að ekkert væri fram komið um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins. Þá var þess getið að dómurinn gæti ekki vegna ákvæða 2. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gæfu skýrslu fyrir Hæstarétti. Að þessu gættu var dómur héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna.

Í héraðsdómi var sakfelling endurupptökubeiðanda meðal annars byggð á framburði eiginkonu brotaþola sem dómurinn mat greinargóðan auk þess sem ekki stæðu rök til að hafna þeim framburði þótt lögreglumaður sem ræddi við hana á vettvangi hafi ritað í skýrslu sína að hún hefði sagst ekki hafa séð atvikið. Þá bar sérfræðingur á slysa- og bráðadeild um að áverki brotaþola samrýmdist því að hann hefði fengið hnefahögg og taldi héraðsdómur að endurupptökubeiðandi hefði engar trúverðugar skýringar getað gefið á tilurð áverkans. Endurupptökubeiðandi var auk fangelsisrefsingar gert að greiða brotaþola miskabætur.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að fram séu komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Fram hafi komið í málflutningi fyrir Hæstarétti að dómarar hefðu ekki afrit af myndbandsupptöku sem endurupptökubeiðandi hafi tekið á vettvangi og afhent lögreglu en þau gögn hafði ákæruvaldið ekki sent réttinum. Brugðið hafi verið á það ráð að senda dóminum afrit af upptökunni eftir málflutning. Endurupptökubeiðandi telur í ljósi þess að upptakan hafi ekki legið fyrir við málflutning í Hæstarétti þá megi jafna þeim við ný gögn.

Enn fremur telur endurupptökubeiðandi að læknabréf, dagsett 19. júlí 2013, ásamt myndum af áverkum sem hann hafi hlotið af atlögu brotaþola vera ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Jafnframt byggir endurupptökubeiðandi beiðni sína á að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Endurupptökubeiðandi telur að þeim vanhöldum ákæruvaldsins að færa fyrir dóminn umrædda upptöku megi jafna til verulegra galla á málsmeðferð samkvæmt d-lið ákvæðisins.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð hafi verið fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi hefur lagt fram skjáskot úr umræddri myndbandsupptöku. Hann telur þau hrekja framburð brotaþola og eiginkonu brotaþola um staðsetningu hennar þegar meint hnefahögg hafi átt sér stað, sem og þá fullyrðingu að endurupptökubeiðandi hafi slegið brotaþola með hægri hendi en hann hafi haldið á myndavélinni í þeirri hendi.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Stafliðir a-d 1. mgr. 211. gr. eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Endurupptökubeiðandi byggir meðal annars á því að fram séu komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Meðal þeirra gagna sem endurupptökubeiðandi leggur fram er læknabréf, dagsett 19. júlí 2013. Þess er sérstaklega getið í dómi héraðsdóms að læknabréf þetta hafi legið fyrir við úrlausn málsins og gerð grein fyrir efni þess. Rakið er í læknabréfinu að sár á endurupptökubeiðanda hafi verið ljósmynduð og hendur hans skoðaðar. Slík gögn geta ekki talist ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 211. gr. Svonefnd skjáskot úr myndbandi því sem endurupptökubeiðandi tók á vettvangi teljast ekki heldur ný gögn í skilningi a-liðar þar sem myndbandið sjálft var meðal málsgagna og efni þess rakið að nokkru leyti í dómi héraðsdóms. Ljóst er þannig að myndbandið var meðal þeirra sönnunargagna sem lágu fyrir dómi. Hafi raunin verið sú að myndbandið hafi fyrst verið afhent Hæstarétti að loknum málflutningi þá lá það í öllu falli fyrir þegar Hæstiréttur dæmdi málið.

Endurupptökubeiðandi hefur ekki leitt líkur að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í málinu hafi verið ranglega metin, svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. Í héraðsdómi er fjallað um þau atriði sem endurupptökubeiðandi tiltekur sérstaklega því til stuðnings að forsendur séu til endurupptöku. Í dóminum er framburður endurupptökubeiðanda reifaður, sem og framburður vitna og brotaþola. Þá er gerð grein fyrir öðrum gögnum sem lágu fyrir, þar á meðal hljóð- og myndbandsupptöku endurupptökubeiðanda og fyrrnefndu læknabréfi. Með hliðsjón af framburði brotaþola, eiginkonu brotaþola og sérfræðings á slysa- og bráðadeild um að áverkar brotaþola samrýmdust því að hann hefði fengið hnefahögg og að endurupptökubeiðandi hefði engar trúverðugar skýringar getað gefið á tilurð áverkans, var hann sakfelldur. Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar að ekkert hafi komið fram um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála. Hæstiréttur staðfesti síðan niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna.

Þegar horft er til þessara forsendna sem leiddu að mati dómstóla til sönnunar um sekt endurupptökubeiðanda leiða þau sjónarmið sem rakin eru í beiðni hans um endurupptöku, sem einnig var byggt á fyrir dómi, ekki til þess að verulegar líkur teljist á að sönnunargögn sem færð voru fram hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að þar sem myndbandsupptaka hans hafi ekki legið fyrir við málflutning í Hæstarétti og ákæruvaldið ekki lagt hana fram fyrr en eftir málflutning þá hafi verið verulegir gallar á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga. Á þessi sjónarmið verður ekki fallist. Fyrir liggur að myndbandsupptakan lá fyrir héraðsdómi og Hæstarétti áður en málið var dæmt. Breytir síðbúin afhending myndbandsins, hafi henni verið til að dreifa, því ekki að Hæstiréttur hafði tök á að leggja mat á þetta sönnunargagn áður en málið var dæmt. Þá er til þess að líta að í dómi Hæstaréttar er vísað til forsendna héraðsdóms þar sem fjallað er um umrædda myndbandsupptöku. Endurupptökubeiðandi hefur því ekki sýnt fram á að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Samkvæmt framansögðu er ekkert skilyrða a, c eða d-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt. Þar sem beiðni um endurupptöku þykir bersýnilega ekki á rökum reist er beiðni hans hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Beiðni X um endurupptöku máls nr. 300/2015, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. janúar 2016, er hafnað.

 

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta