Aðgengi að opinberum útboðum einfaldað með rafrænu útboðskerfi
Ríkiskaup hafa innleitt rafrænt útboðskerfi með það að markmiði að einfalda aðgengi að opinberum útboðum og draga úr umsýslukostnaði. Í nýja kerfinu eru auglýsingar og útboðsgögn öllum aðgengileg endurgjaldslaust.
Vonir standa til þess að breytingarnar leiði til þess að fleiri fyrirtæki taki þátt í opinberum útboðum og að samkeppni aukist.
Í rafrænu útboðskerfi geta bjóðendur sent tilboð sín rafrænt í stað þess að koma tilboðum til Ríkiskaupa á pappír í umslögum. Tilboðstími útboða getur styst, gagnaframsetning verður skilvirkari og úrvinnsla tilboða oftast rafræn. Þannig er öll umsýsla einfölduð.
Einfaldara umhverfi opinberra innkaupa
Undanfarið hefur verið unnið að fleiri verkefnum í því augnamiði að einfalda umhverfi opinberra innkaupa, auka skilvirkni og gagnsæi. Nú má nálgast öll útboð ríkisaðila, sveitarfélaga og fyrirtækja í opinberri eigu á einum stað.
Þá eru einnig aðgengilegar rafrænt upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins.