Einn nýr listabókstafur
Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið listabókstaf fyrir ein stjórnmálasamtök sem ekki buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar 2009. Þá hefur ráðuneytinu borist tilkynning um að stjórnmálasamtökin Bjartsýnisflokkurinn hyggist ekki bjóða fram lista við alþingiskosningarnar 27. apríl næstkomandi.
Nýr listabókstafur
J-listi: Regnboginn, fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun
Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis skal innanríkisráðuneytið halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar og ákveða bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra, með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.
Þó að stjórnmálasamtök hafi fengið úthlutað listabókstaf er það ekki formleg tilkynning um framboð. Landskjörstjórn auglýsir framboðslista eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.
Listabókstafurinn E ekki lengur skráður
Þar sem innanríkisráðuneytinu hefur borist tilkynning um að stjórnmálasamtökin Bjartsýnisflokkurinn hyggist ekki bjóða fram lista við alþingiskosningarnar 27. apríl næstkomandi hefur ráðuneytið ákveðið að stjórnmálasamtökin hafi ekki lengur skráðan listabókstafinn E sem þeim hafði áður verið úthlutað.
- Sjá einnig fréttir 13. febrúar og 8. mars um úthlutun listabókstafa