Hoppa yfir valmynd
12. desember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 1227/2024 Úrskurður

Hinn 12. desember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1227/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24080182

 

Kæra […]

  • 1Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

    Hinn 30. ágúst 2024 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn karlmanns er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Írans (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og brottvísa honum frá landinu. Var kæranda gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.

    Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal nefndin meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðun Útlendingastofnunar, sem m.a. felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort taka eigi mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 36. gr. laganna og hvort skilyrði fyrir brottvísun og endurkomubanni séu uppfyllt. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.

    Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga um útlendinga.

  • 2Málsmeðferð

    Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 24. júlí 2024. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 25. júlí 2024 kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Ungverjalandi. Hinn 14. ágúst 2024 var beiðni um upplýsingar um stöðu kæranda beint til yfirvalda í Ungverjalandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ungverskum yfirvöldum, dags. 28. ágúst 2024 kom fram að honum hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns 18. ágúst 2016 og að hann hafi síðast fengið útgefin ferðaskilríki 15. júlí 2024. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 15. ágúst 2024 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 29. ágúst 2024 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi brottvísað frá landinu. Það var mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur til endursendingarríkis. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda sama dag og barst kærunefnd greinargerð kæranda 2. september 2024.

  • 3Greinargerð til kærunefndar

    Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og mat lagt á öll sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.

    Í greinargerð er aðstæðum kæranda lýst. Fram kemur að kærandi sé frá Íran en hafi fengið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi þar sem hann hafi dvalið í sex ár. Kærandi hafi komið hingað til lands þar sem hann hafi orðið fyrir áreiti og fordómum í Ungverjalandi.

    Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kæranda falli undir 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að fordómar og hatursorðræða í garð fólks af erlendum uppruna sé vandamál í Ungverjalandi. Heimildir beri með sér að vandamálið hafi stigmagnast á síðustu árum vegna strangrar innflytjendastefnu stjórnvalda. Lögregluyfirvöld hafi sætt ásökunum um misbeitingu valds og ofbeldi gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd, flóttafólki og innflytjendum við beitingu laganna og flutnings fólks yfir landamærin til Serbíu. Kærandi telur að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi geri kröfu um að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og til vara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laganna.

  • 4Umsókn um alþjóðleg vernd
    1. Lagagrundvöllur

    Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda og reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er varða landamæraeftirlit og umsóknir um alþjóðlega vernd eftir því sem tilefni er til.

    Ákvæði laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga sem og önnur ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem máli skipta við úrlausn umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd verða reifuð í viðeigandi köflum hér að neðan.

    1. Aðstæður kæranda

    Kærandi er karlmaður á [..] sem er staddur hér á landi einn. Kærandi kvaðst hafa farið frá Íran árið 2006. Hann hafi búið í Þýskalandi í sex mánuði, tvö ár í Frakklandi, átta ár í Grikklandi og sex ár í Ungverjalandi. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd í Ungverjalandi 5. janúar 2015 og svo að nýju 14. október 2015. Kærandi hlaut vernd í Ungverjalandi 18. ágúst 2016. Kærandi hefur auk þess hlotið málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd sem hann lagði fram í Þýskalandi 20. janúar 2015, í Frakklandi 21. október 2022 og í Austurríki 29. apríl 2024. Þá kom kærandi hingað til lands 24. júlí 2024 og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd. Kærandi kvaðst hafa farið frá Ungverjalandi árið 2022 vegna fordóma þar í landi. Kærandi hafi verið með atvinnu um tíma í Ungverjalandi og hafi þá verið með aðgang að húsnæði á vinnustað sínum. Kærandi greindi frá því að glíma við líkamlega heilsufarskvilla en hann sé með verki í baki.

    Kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, 15. ágúst 2024, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem hann teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvubréfi nefndarinnar 30. ágúst 2024 um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er mál kæranda nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar kæranda geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

    1. Niðurstaða um 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

    Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:

    Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi 18. ágúst 2016. Sú vernd sem kærandi nýtur í Ungverjalandi telst virk alþjóðleg vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

    Með lögum um breytingu á lögum um útlendinga nr. 68/2024 var þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga felld brott samkvæmt 5. gr. breytingarlaganna. Samkvæmt lagaskilum 14. gr. breytingarlaganna gildir umrædd breyting um meðferð umsókna sem bárust eftir gildistöku laganna. Lögin voru birt í Stjórnartíðindum 3. júlí 2024 og tóku gildi 4. júlí 2024, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 24. júlí 2024 eða eftir gildistöku breytingarlaganna og gildir því 2. mgr. 36. gr. þágildandi laga um útlendinga ekki um umsókn kæranda. Hið sama á við um 32. gr., 32. gr. a, 32. gr. b, 32. gr. c og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga sem felld voru úr gildi með breytingarreglugerð nr. 1069/2024.

    1. Landaupplýsingar

    Lagt hefur verið mat á aðstæður í Ungverjalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

    Ungverjaland er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Ungverjaland er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ungverjaland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og samninga Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og barnasáttmálann. Þá er ríkið aðili að Flóttamannasamningnum.

    Samkvæmt skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá árinu 2024 fá einstaklingar sem hljóta alþjóðlega vernd í Ungverjalandi ekki útgefin dvalarleyfi heldur ungversk skilríki. Útgáfa framangreindra skilríkja taki a.m.k. einn mánuð frá því að ákvörðun um veitingu verndar hafi verið tekin og gildi skilríkin í sex ár frá útgáfu. Í framangreindum skýrslum, m.a. skýrslu ECRE, kemur einnig fram að alþjóðleg vernd sæti kerfisbundinni endurskoðun á þriggja ára fresti þar sem útlendingastofnun Ungverjalands skoði hvort skilyrði verndar séu enn til staðar. Skuli slík endurskoðun ekki taka meira en 60 daga. Einstaklingurinn sé þá kallaður í viðtal og ef ekki sé grundvöllur fyrir afturköllun sé málsmeðferð hætt. Vernd sé ekki afturkölluð nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, s.s. hafi viðkomandi snúið aftur til heimaríkis eða framið alvarlegan glæp sem brjóti í bága við ungversk lög. Einstaklingur geti borið ákvörðun um afturköllun verndar undir dómstóla, sem geti þá fellt ákvörðunina úr gildi eða gert útlendingastofnun að taka málið til meðferðar að nýju. Þeir sem hlotið hafi réttarstöðu flóttamanns geti sótt um ríkisborgararétt í landinu eftir þriggja ára dvöl en handhafar viðbótarverndar eftir átta ára dvöl að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi í apríl 2017 lagst gegn endursendingum umsækjenda til Ungverjalands en ekki endursendingum þeirra sem þegar hafi hlotið vernd í landinu.

    Í skýrslu ECRE kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar hafi heimild til að dvelja í flóttamannabúðum í allt að 30 daga frá verndarveitingu. Frá árinu 2016 hafi flóttamenn ekki notið frekari stuðnings ríkisins varðandi húsnæði eða framfærslu en eigi þó rétt á félagslegri aðstoð og aðgengi að húsnæðismarkaði til jafns við ungverska ríkisborgara þrátt fyrir að ýmsar hindranir geti staðið því í vegi að þeir geti nýtt sér þá aðstoð. Skýrsla á vegum Menedék Associtation frá 2021, staðfesti að það séu engin sérstök húsnæðisúrræði á vegum ungverskra yfirvalda í boði fyrir handhafa alþjóðlegrar verndar og viðbótarverndar þar í landi. Vegna almenns húsnæðisskorts í landinu sé leiguverð almennt hátt og þá gæti mismununar á leigumarkaði en talið sé að Ungverjar kjósi fremur að leigja öðrum Ungverjum húsnæði sitt en erlendum aðilum. Frjáls félagasamtök og kirkjur hafi veitt flóttafólki aðstoð, m.a. endurgjaldslausa gistingu. Flest gistiskýlin séu staðsett í Búdapest og dvelji því flestir flóttamenn í höfuðborginni. Þá hafi staðan versnað eftir að stjórnvöld í Ungverjalandi hafi ákveðið að stöðva fjárveitingar árið 2018 til félagasamtaka sem buðu upp á aðstoð fyrir flóttamenn. Í skýrslu ECRE kemur jafnframt fram að handhafar alþjóðlegrar verndar hafi aðgang að félagslegu kerfi landsins, s.s. atvinnuleysisbótum, veikindarétti og fæðingarorlofi, til jafns við ungverska ríkisborgara, þó krefjist sum sveitarfélög þess að viðkomandi hafi haft lögheimili á svæðinu í vissan árafjölda. Þá séu skilyrði atvinnuleysisbóta að viðkomandi einstaklingur hafi starfað í landinu í að lágmarki 365 daga á síðustu þremur árum. Í skýrslu ECRE kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi hafi aðgang að vinnumarkaðnum þar í landi til jafns við ungverska ríkisborgara, að undanskilinni starfsemi þar sem þess sé krafist í lögum að ungverskir ríkisborgarar sinni. Handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi glími þó við ýmsar hindranir á vinnumarkaðnum þar í landi, m.a. vegna tungumálaörðugleika og því standi margir í reynd frammi fyrir atvinnuleysi í Ungverjalandi. Þá hafi handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi sama aðgang að þjónustu vinnumálastofnunar þar í landi og ungverskir ríkisborgarar þó að erfitt geti verið í sumum tilvikum að finna enskumælandi þjónustufulltrúa.

    Í skýrslu ECRE kemur einnig fram að handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi hafi, að sex mánuðum liðnum frá veitingu verndar, aðgang að heilbrigðisþjónustu til jafns við ungverska ríkisborgara en fram að þeim tíma njóti þeir sömu réttinda og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í framangreindum skýrslum kemur fram að þegar einstaklingur hafi atvinnu í Ungverjalandi sé hann sjúkratryggður og eigi rétt á allri þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann hafi þörf á, sem að meginstefnu til sé gjaldfrjáls, t.d. almennum læknisskoðunum, sjúkrahúsdvöl, lyfjum og tannlækningum. Í einhverjum tilvikum þurfi einstaklingar þó að greiða fyrir hluta sérfræðiþjónustu eða lyfja. Hafi einstaklingur ekki atvinnu eða sé af einhverjum ástæðum ekki sjúkratryggður eigi hann rétt á heilbrigðisþjónustu til jafns við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Feli það í sér aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu, s.s. læknisskoðunum auk sérfræðilækninga í neyðartilfellum. Ýmsar hindranir séu þó við nýtingu þjónustunnar m.a. vegna tungumálaörðugleika, langs afgreiðslutíma sjúkratryggingakorta, þekkingarleysis á ungverskum lögum og stjórnsýslu og mismununar af hálfu opinberra starfsmanna, þ.m.t. lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Þá hafi verið gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar sem hafi haft neikvæð áhrif á handhafa alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi sem hafi yfirgefið landið og verið endursendir til Ungverjalands af öðru Evrópusambandsríki. Samkvæmt lögunum falli réttur þeirra til sjúkratrygginga niður við brottför og þá segir í skýrslunni að ef heilbrigðisaðstæður viðkomandi eru slæmar og hann þarfnist tafarlausrar heilbrigðisþjónustu geti kostnaður vegna hennar fallið á viðkomandi.

    Af framangreindum skýrslum verður ráðið að ungversk yfirvöld hafi átt við margvíslegan vanda að etja við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur móttökukerfið í Ungverjalandi verið harðlega gagnrýnt. Kemur þá m.a. fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að í júlí 2018 hafi ungverska þingið samþykkt löggjöf sem geri það að verkum að lögmenn, ráðgjafar, sjálfboðaliðar og aðrir sem aðstoði m.a. umsækjendur um alþjóðlega vernd geti átt yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Þá hafi ungverskum skattalögum verið breytt á þá leið að 25% skattur skuli lagður á starfsemi frjálsra félagasamtaka sem snúi að stuðningi við innflytjendur. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2024 hafi enginn aðili greitt skatt á grundvelli laganna árið 2022 og 2023 og þá bera fréttamiðlar með sér að engin þekkt rannsókn hafi verið framkvæmd á vegum skattstofunnar. Þá hafi Evrópudómstóllinn árið 2021 kveðið upp dóm um að umrædd löggjöf sé andstæð reglum Evrópusambandsins. Samkvæmt áliti Hungarian Helsinki Committee ná breytingar sem gerðar voru á lögunum ekki að fullnægja dómi Evrópudómstólsins að öllu leyti. Lög í Ungverjalandi leggi bann við mismunun á grundvelli þjóðernis og leggi refsingu við móðgandi og ógnandi háttsemi í garð aðila af öðrum kynþætti eða þjóðfélagshópi. Embætti umboðsmanns ungverska þingsins annist eftirlit gegn mismunun. Frjáls félagsamtök hafi þó bent á að yfirvöld í Ungverjalandi séu treg til að flokka atvik sem hatursglæpi.

    Í skýrslu United Nations Human Rights frá árinu 2019 kemur fram að á síðustu árum hafi umsóknum um alþjóðlega vernd í Ungverjalandi fjölgað verulega en í kjölfarið hafi orðið vart við umburðarleysi og hatursorðræðu gagnvart þessum hópi, svo og flóttafólki og innflytjendum. Hatursglæpir og hatursorðræða séu refsiverð samkvæmt ungverskum hegningarlögum en eftirfylgni með löggjöfinni skorti. Í skjóli þess refsileysis sem viðgangist í málaflokknum hafi hatursorðræða rutt sér til rúms á opinberum vettvangi og ofbeldi gegn innflytjendum, umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki aukist til muna. Í skýrslunni kemur þó fram að í höfuðstöðvum lögreglu ríkisins hafi sérstök áhersla verið lögð á að uppfæra áætlun um hatursglæpi. Í skýrslu ECRE kemur fram að opinber umræða í Ungverjalandi feli í sér útlendingahatur og að pólitísk umræða hafi falið í sér umfjöllun sem beinist sérstaklega að flóttamönnum, umsækjendum um alþjóðlega vernd, múslimum og LGBT+ einstaklingum. Þá hafi mikil fjöldi innflytjenda, lagabreytingar og umfjöllun í fjölmiðlum skapað vettvang fyrir slíka hatursorðræðu. Í skýrslunni kemur þó einnig fram að stofnuð hafi verið áætlun, D.A.D.A., sem notuð sé af afbrotavarnarþjónustu lögreglunnar og framkvæmd í skólum sem stuðli að gagnkvæmri virðingu samhliða því að takast á við ofbeldisfulla hegðun. Auk þess séu starfræktar stuðningsþjónustur, Victim Support Service (VSS), sem bjóði upp á gjaldfrjálsan hjálparsíma fyrir þolendur, m.a. þolendur hatursglæpa, og aðra tiltæka þjónustu sem feli í sér sálrænan stuðning, fjárhagsstuðning og lögfræðiaðstoð.

    1. Niðurstaða um 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

    Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

    Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.

    Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga segir að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga er rétt að líta til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun, sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

    Við túlkun á 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal líta til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá skal hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim, en með þeim skýra fyrirvara að dómar Evrópudómstólsins á þessu réttarsviði eru ekki bindandi fyrir íslenska ríkið. Í 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er að finna sambærilegt ákvæði og í 3. gr. mannréttindasáttmálans.

    Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Evrópudómstólsins leiðir að þrátt fyrir að ríki hafi rétt til að stjórna hverjir dvelji á landsvæði þeirra geti flutningur einstaklings til annars ríkis falið í sér brot á banni við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þetta á við ef veruleg ástæða er til að ætla að viðkomandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð ákvæðinu.

    Meðferð endursendingarríkis og aðbúnaður handhafa alþjóðlegrar verndar þurfa að ná tilteknu alvarleikastigi til að fela í sér brot gegn banninu. Því alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda ríkisins hefur þær afleiðingar að einstaklingur, sem að öllu leyti er háður stuðningi þess, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann getur ekki mætt grundvallarþörfum sínum og grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn. Það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni verulega við brottvísun frá aðildarríki telst ekki nægjanlegt til að teljast vanvirðandi meðferð. Þá er ríkjum ekki skylt að sjá þeim sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum.

    Litið hefur verið til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda í endursendingarríki með hliðsjón af aðstæðum handhafa alþjóðlegrar verndar þar í landi, sbr. gögn málsins og framangreindar landaupplýsingar. Ekkert bendir til að endursending kæranda til endursendingarríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Ungverjalandi, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

    Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður í Ungverjalandi og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, hefur ekki verið sýnt fram á að hann eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og flutningur hans til endursendingarríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

    Samkvæmt framansögðu verður umsókn kæranda ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

  • 5Brottvísun og endurkomubann
    1. Lagagrundvöllur

    Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

    Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar brottfarar sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Umræddar lagabreytingar voru m.a. gerðar til að tryggja að framkvæmd brottvísana hér á landi væri í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun og endursendingum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (brottvísunartilskipunin) sem Ísland er skuldbundið af vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu.

    1. Niðurstaða um brottvísun og endurkomubann

    Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 24. júlí 2024. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kæranda úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi.

    Kæranda var gefið færi á að andmæla mögulegri brottvísun frá Íslandi og endurkomubanni í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi lagði ekki fram andmæli. Með vísan til framkominna gagna, athugasemda kæranda og framangreindrar umfjöllunar um aðstæður kæranda í Ungverjalandi telst brottvísun hans frá Íslandi og endurkomubann ekki fela í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

    Með vísan til 3. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal kærandi yfirgefa landið án tafar. Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laganna skal að jafnaði veita frest í 7-30 daga til sjálfviljugrar brottfarar. Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verður að skilja orðalagið án tafar þegar veittur er frestur til sjálfviljugrar brottfarar svo að miða verði við lágmarksfrest í 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestur kæranda til sjálfviljugrar brottfarar er því 7 dagar og tekur ákvörðun um brottvísun og endurkomubann ekki gildi yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur án tafar.

    Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann er staðfest.

  • 6Krafa kæranda á grundvelli 37. og 74. gr. laga um útlendinga

    Kærandi gerir kröfu um að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laganna. Samkvæmt orðalagi ákvæðanna kemur ekki til skoðunar að veita útlendingi alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi samkvæmt þeim lagaákvæðum nema umsókn um alþjóðlega vernd hafi verið tekin til efnismeðferðar. Þar sem umsókn kæranda hefur ekki verið tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur ekki til skoðunar hvort hann uppfyllir skilyrði framangreindra ákvæða. Er þeirri kröfu kæranda hafnað.

  • 7Athugasemdir, samantekt og leiðbeiningar
  1. umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki.
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices - Hungary (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • 2023 Country Reports on Human Rights Practices - Hungary (U.S. Department of State, 22. apríl 2024);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Hungary (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union (EASO, 1. júlí 2020);
  • Asylum Information Database National Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, 28. ágúst 2024);
  • Freedom in the World 2023 – Hungary (Freedom House, 2023);
  • Freedom in the World 2024 – Hungary (Freedom House, 29. febrúar 2024);
  • ECRI report on Hungary (European Commission against Racism and Intolerance (ECRI), 9. mars 2023);
  • Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (https://help.unhcr.org/hungary);
  • Upplýsingar af vefsíðu Hungarian Helsinki Committee (https://helsinki.hu);
  • Upplýsingar af vefsíðu OSCE – Office for Democratic Institutions and Human Rights (ODIHR) (https://hatecrime.osce.org/hungary);
  • Your social security rights in Hungary (European Commission, júlí 2022);
  • World Report 2023 – European Union (Human Rights Watch, 28. september 2022) og
  • World Report 2024 – Hungary (Human Rights Watch, 11. janúar 2024).

Kærandi telur að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun um hvort umsækjandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, lýtur að því hvort þörf sé á sérstökum stuðningi við umsækjanda í gegnum umsóknarferlið á meðan á dvöl hans stendur hér á landi. Með vísan til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um útlendinga er ljóst að það mat samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem fram fer hjá Útlendingastofnun, sé ekki kæranlegt til kærunefndar og hafi ekki önnur réttaráhrif en sérstaklega er getið um í lögum og reglugerð. Er umræddri málsástæðu hafnað.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur nefndin þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur nefndin tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                  Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta