Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Þroskahjálp í Malaví: Vilja auka samfélagsþáttöku fatlaðra í Mangochi

Frá hægri, Kristjana Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri sendiráðs Íslands í Lilongwe, Sara Dögg Svanhildardóttir og Anna Lára Steindal frá Landsamtökum Þroskahjálpar ásamt sérkennslukennurum við Koche Primary School í Mangochi héraði í Malaví. - mynd

„Með heimsókn og nýju verkefni Þroskahjálpar í Mangochi héraði er bundin von við að hægt verði að auka framgang í málefnum fatlaðra í héraðinu en fatlað fólk í Malaví býr við einhverjar erfiðustu aðstæður sem hugsast getur. Fötluð börn eru gjarnan geymd heima, oft falin fyrir utanaðkomandi og fá ekki nær alltaf að fara í skóla, enda skólar alls vanbúnir að taka á móti þeim. Vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft og mun hafa á efnahag þjóða má telja víst að staða fatlaðs fólks verði enn erfiðari þar eins og í öðrum,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe en fulltrúar landssamtakanna Þroskahjálpar og sendiráðsins hafa undanfarna viku heimsótt grunnskóla og leikskóla víðsvegar um Mangochi hérað í Malaví.

Þroskahjálp fékk nýverið styrk frá utanríkisráðuneytinu til þess að styðja við menntun og samfélagsþátttöku fatlaðra barna í Mangochi héraði í Malaví, samstarfshéraði Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu. Markmið verkefnisins er að auka möguleika fatlaðra barna til náms og þátttöku í samfélaginu og vinna að vitundarvakningu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en stjórnvöld í Malaví gerðust aðili að samningnum árið 2009.

Sendiráð Íslands í Lilongwe aðstoðaði starfsmenn Þroskahjálpar við skipulagningu funda og heimsókna í Lilongwe og Mangochi ásamt því að kynna starfsemi Íslands og héraðsyfirvalda í málefnum fatlaðra barna í Mangochi.

„Menntun er ein af meginstoðum við eflingu grunnþjónustu í Mangochi héraði í gegnum tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands og Malaví. Markmiðið er að efla grunnmenntun barna við 12 samstarfsskóla sem einnig felur í sér að bæta aðgengi fatlaðra barna að námstækifærum. Frá 2012 hefur Ísland í samstarfi við héraðsstjórnina Mangochi þjálfað ellefu kennara í sérkennslu fatlaðra barna en kennararnir styðja við um það bil 250 börn með sérþarfir í tveimur skólanna. Tólf salerni, eitt við hvern samstarfsskóla, hafa einnig verið reist en salernin eru sérstaklega útbúin fyrir fötluð börn,“ segir Inga Dóra.

 

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta