Samkomulag um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum
Nr.6/2007
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkis- og sjávarútvegsráðuneytum
Samkomulag náðist um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á fundi Íslands, Noregs, Evrópusambandsins, Rússlands og Færeyja í nótt. Stjórn veiðanna hefur verið í uppnámi frá árinu 2003 og á nýliðnu ári nam veiði umfram vísindaráðgjöf u.þ.b. þriðjungi. Því var mikilvægt að koma böndum á veiðarnar til að stöðva ofveiði úr stofninum.
Samningurinn felur í sér að heildarafli á þessu ári verði 1.280.000 tonn sem er í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES).
Samkvæmt samningur verður hlutur ríkjanna úr heildarveiðinni eftirfarandi:
Ísland: 14,51%
Noregur: 61%
ESB: 6,51%
Rússland: 12,82%
Færeyjar: 5,16%
Veiðiheimildir árið 2007 verða eftirfarandi:
Ísland: 185.728 tonn
Noregur: 780.800 tonn
ESB: 83.328 tonn
Rússland: 164.096 tonn
Færeyjar: 66.048 tonn
Samkvæmt samningnum hefur Ísland aukinn aðgang til síldveiða innan norskrar lögsögu en í þeim samningum sem í gildi voru árin 1996 – 2002. Íslensk skip hafa ótakmarkaðan veiðiaðgang á Jan Mayen-svæðinu, auk þess sem þau hafa heimild til að taka allt að 18,6% af veiðiheimildum Íslendinga í norskri fiskveiðilögsögu norðan 62°N.
Samninganefndirnar voru sammála um mikilvægi samningsins fyrir sjálfbæra nýtingu síldarstofnsins.
Samninganefnd Íslendinga var skipuð Stefáni Ásmundssyni sjávarútvegsráðuneytinu, sem var formaður nefndarinnar, Ragnari Baldurssyni utanríkisráðuneytinu og Friðriki Arngrímssyni LÍÚ.