Menningarhús á Sauðárkróki
Uppbygging menningarhúsa á landsbyggðinni heldur áfram. Um helgina var undirrituð viljayfirlýsing um áframhaldandi samstarf um fjármögnun og undirbúning menningarhúss í Skagafirði en fyrirhuguð er viðbygging við Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar undirrituðu samkomulag þess efnis að viðstöddu fjölmenni á atvinnulífssýningunni á Sauðárkróki.
„Það er mikilvægt að landsmenn fái notið lista og menningar og geti tekið þátt í slíku starfi um allt land. Við viljum skapa góð skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs og þar skipta menningarhúsin sköpum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra að undirritun lokinni.
Menningarhús hafa þegar risið eða verið stofnsett á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum en áform um uppbyggingu þeirra voru fyrst kynnt af þáverandi ríkisstjórn árið 1999 og var þá einnig rætt um menningarhús á Norðvesturlandi og á Fljótsdalshéraði.
Í samkomulagi frá árinu 2005 var gert ráð fyrir að uppbygging menningarhúss í Skagafirði yrði tvíþætt, í fyrsta lagi endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði sem er lokið og í öðru lagi viðbygging og endurbætur á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki sem nú stendur fyrir dyrum. Miðað er við að viðbygging og endurbætur á því rúmi bókasafn, listasafn, skjalasafn auk rýmis fyrir varðveislu og sviðslistir.
Undirbúningur og stefnumótun vegna menningarhúsa er á vegum sveitarfélaga á hverjum stað sem og verkefnastjórn framkvæmda. Fyrirhuguð kostnaðarhlutdeild ríkisins í framkvæmdinni er 60% á móti 40% hlut sveitarfélags líkt og við byggingu annarra menningarhúsa á landsbyggðinni. Stefnt er að því að þarfagreining þessa verkefnis liggi fyrir í árslok 2018.