Lengdur Akureyrarflugvöllur skapar ný tækifæri
Í kjölfar lendingar þeirra lenti vél Flugfélags Íslands í áætlunarflugi frá Reykjavík, þota á vegum Iceland Express og fleiri vélar. Síðan voru flutt ávörp í Flugsafni Íslands og að lokum var hópflug norðlenskra flugvéla og Arngrímur Jóhannsson ,,dansaði“ á svifflugvél.
Framkvæmdir við lengingu flugbrautarinnar til suðurs hófust í fyrrasumar og lauk þeim um síðustu mánaðamót. Kostnaður við verkið er alls rúmlega 1.700 milljónir króna en auk lengingar og stækkunar öryggissvæða var tækjabúnaður endurbættur og öll flugbrautin malbikuð á ný. Verktakar voru Ístak og Hlaðbær-Colas.
Í ávarpi sínu sagði samgönguráðherra margar ástæður til að fagna þessum áfanga, meðal annars þá að hafa hrundið verkinu af stað í fyrravor áður en efnahagserfiðleikar dundu yfir þjóðina. Sagði hann þessa framkvæmd einu umfangsmiklu framkvæmdina á sviði flugmála sem samgönguyfirvöld stæðu að þessi misserin.
Ráðherra gat einnig um bókun stjórnar Flugstoða ohf. á stjórnarfundi 13. ágúst þar sem verklokum er fagnað um leið og stjórnin leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að styrkja aðra þætti flugvallarins með stækkun flugstöðvar, stækkun flughlaðs og bættum búnaði til eldsneytisafgreiðslu.
,,Við fögnum þessum áfanga líka vegna þess að nú opnast ný tækifæri fyrir útflutningsfyrirtæki og ferðaþjónustu til vöru- og farþegaflutninga og ég er sannfærður um að þau munu ekki láta sitt eftir liggja á þeim sviðum,” sagði samgönguráðherra einnig. ,,Þá opnast möguleikar fyrir Airbus þotu Air Greenland til viðkomu hér við á leið sinni frá Grænlandi til Kaupmannahafnar. Þessi fraktþota sem flýgur daglega tóm frá Grænlandi gæti lent hér og tekið fullan farm af fiskafurðum fyrir erlendan markað. Nú er þessum afurðum ekið að næturlagi til Keflavíkur í flug þaðan. Þessi möguleiki var ekki fyrir hendi áður en flugvöllurinn var lengdur og ég veit að þetta verður skoðað vandlega til dæmis hjá þeim Samherjamönnum. Forsenda þess er auðvitað að við gerum opinn loftferðasamning við Grænlendinga sem óneitanlega mun örva flugsamgöngur milli landanna og að því stefnum við.
Það verður því fagnaðarefni ef framkvæmd á borð við þessa getur aukið veltu og umsvif í atvinnulífinu sem ætti að vera ávísun á meiri uppbyggingu og fleiri atvinnutækifæri.”
Iceland Express tilkynnti einnig að ákveðið hefði verið að hefja vikulegt áætlunarflug milli Akureyrar og Gatwick næsta sumar.