Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Matvælasjóður verði settur á fót

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - mynd

Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu verður settur á fót Matvælasjóður og verður 500 milljónum króna varið til stofnunar hans á þessu ári. Stofnun sjóðsins er hluti af öðrum áfanga aðgerða til að bregðast við áhrifum COVID-19.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram í ríkisstjórn í gær frumvarp til laga um stofnun sjóðsins. Var samþykkt að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi. Unnið hefur verið að stofnun sjóðsins undanfarið ár í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en ákveðið var að flýta vinnu við að setja sjóðinn á fót sem hluta af aðgerðum til að skapa efnahagslega viðspyrnu þegar þetta tímabundna ástand er gengið yfir.

Styrkja nýsköpun og þróun

Matvælasjóður mun hafa það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Sjóðurinn mun styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla og verður við úthlutun sérstök áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og almennar aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Matvælasjóður verður til með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Til stofnunar sjóðsins verður varið 500 m.kr. sem verður úthlutað á þessu ári. Við úthlutun þeirra fjármuna en einnig við frekari stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð verður þess gætt að skipting fjármagns til landbúnaðar og sjávarútvegs verði með sambærilegum hætti og verið hefur.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Með því að setja á fót Matvælasjóð erum við í krafti nýsköpunar og þróunar að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í landbúnaði og sjávarútvegi til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Við Íslendingar erum enda matvælaþjóð. Byggjum afkomu okkar öfluga samfélags að stórum hluta á því að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, bæði til sjós og lands. Því er stofnun Matvælasjóðs, með áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, ekki bara skref í rétt átt – heldur ein forsenda þeirrar sóknar sem fram undan er í íslenskri matvælaframleiðslu.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta