Aukið kynjamisrétti afleiðing átakanna í Úkraínu
Innrás Rússa í Úkraínu hefur haft afar neikvæð áhrif á konur og stúlkur um allan heim, aukið kynjamisrétti og leitt til aukins fæðuskorts, aukinnar vannæringar og orkufátæktar. Í nýrri skýrslu UN WOMEN - Global gendered impacts of the Ukraine crisis – er farið yfir fyrirliggjandi gögn og gerð tillaga um að sem fyrst verði hugað að afleiðingum átakanna fyrir konur og stúlkur.
Í skýrslunni er bent á að framfærslukreppan sem nú hefur skapast hafi í för með sér bráða ógn við lífsviðurværi, heilbrigði og velferð kvenna og framtíð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Kreppan sé knúin áfram af röskun stríðsins á olíu- og gasbirgðir, skorti á matvörum eins og hveiti-, maísolíu og sólblómaolíu með þeim afleiðingum að verðlag á matvælum, eldneyti og áburði hefur rokið upp úr öllu valdi.
Átökin valdi einnig sýnilegri aukningu á kynbundnu ofbeldi, barnahjónaböndum, brottfalli stúlkna úr skólum og ólaunaðri umönnun sem leggst einkum á konur og stúlkur. Slíkt álag stofni líkamlegri og andlegri heilsu kvenna og stúlkna í enn frekari hættu.
Skýrsla UN Women er viðbót við rit sem unnin voru af viðbragðshópi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um hnattrænt hættuástand um afleiðingar stríðsins í Úkraínu og viðbrögð og endurreisn á heimsvísu.
Niðurstöður skýrslunnar undirstrika þau hnattrænu áhrif á jafnrétti kynjanna og réttindi kvenna sem hafa orðið til vegna loftslagsbreytinga, hnignunar umhverfisins og heimsfaraldurs COVID-19. Í lok skýrslunnar eru tillögur um nauðsynlegar ráðstafanir til að ná heimsmarkmiðunum fyrir 2030 með því að efla þátttöku kvenna, leiðtogahæfni og ákvarðanatöku ásamt því að tryggja framboð af matvælum og orku.