Nr. 335/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 10. apríl 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 335/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU23120074
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 18. desember 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Marokkó ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. desember 2023, um að synja umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis fyrir börn sem náð hafa 18 ára aldri, sbr. 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að dvalarleyfi hans verði endurnýjað.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir börn, sbr. 71. gr. laga um útlendinga, 4. desember 2017, með gildistíma til 10. september 2018. Dvalarleyfi kæranda hefur verið endurnýjað fjórum sinnum, þar af tvisvar eftir að kærandi varð 18 ára, sbr. 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, síðast með gildistíma til 25. maí 2023. Hinn 3. maí 2023 sótti kærandi um endurnýjun leyfisins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. desember 2023, var umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis synjað. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að fylgigögn með umsókn kæranda hafi verið ófullnægjandi og var dvalarleyfisumsókn hans því synjað, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 14. desember 2023 og kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 18. desember 2023.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram sérstaka greinargerð eða röksemdir vegna kæru sinnar. Af kæru má þó ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.
Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.
Eins og fram er komið lagði kærandi fram umsókn þann 3. maí 2023 um endurnýjun dvalarleyfis fyrir börn sem náð hafa 18 ára aldri, sbr. 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, en kærandi hafði áður verið með dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga, allt frá 4. desember 2017. Samkvæmt 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga er það skilyrði dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins að umsækjandi stundi annaðhvort nám eða störf hér á landi, sé búsettur hjá foreldri og sé hvorki í hjúskap né sambúð.
Í bréfi Útlendingastofnunar, dags. 5. júní 2023, var kæranda bent á að nokkuð skorti á að hann hefði lagt fram fullnægjandi gögn með umsókn sinni. Kom þar fram að kærandi þyrfti að sýna fram á að hann stundi nám eða starfi hér á landi. Var lagt fyrir kæranda að leggja fram ráðningarsamning ásamt umsókn um atvinnuleyfi eða staðfestingu á námi ásamt gögnum sem sýndu fram á framfærslugetu hans. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram atvinnuleyfisumsókn, dags. 13. september 2023, og ráðningarsamning, dags. 11. september 2023. Í tilkynningu frá Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2023, að vinnuveitandi kæranda hafi fallið frá umsóknarferli um atvinnuleyfi. Með tölvubréfi, dags. 14. nóvember 2023, var kæranda að nýju tilkynnt að honum bæri að stunda nám eða störf í samræmi við ákvæði 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga og var honum veittur 15 daga frestur til þess að leggja fram frekari gögn vegna málsins. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn hjá Útlendingastofnun.
Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 12. desember 2023, var kæranda synjað um endurnýjun dvalarleyfis. Í ákvörðuninni eru framangreind samskipti stofnunarinnar við kæranda rakin. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar eru enn fremur rakin ákvæði 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að þau gögn sem Útlendingastofnun hafi óskað eftir hafi ekki borist stofnuninni og því séu fylgigögn umsóknarinnar ófullnægjandi. Verði ákvörðun í málinu því að byggja á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi lagt fram þau gögn sem Útlendingastofnun óskaði eftir við meðferð málsins, sem voru síðan framsend til Vinnumálastofnunar í samræmi við 3. málsl. 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Eftir að Vinnumálastofnun hætti við úrvinnslu atvinnuleyfisumsóknar kæranda var hann upplýstur um það og veitt tilhlýðilegt ráðrúm til þess að bregðast við, svo sem með framlagningu gagna um nám eða störf. Kærandi brást ekki við síðara erindi Útlendingastofnunar sem leiddi til töku hinnar kærðu ákvörðunar, dags. 12. desember 2023. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að gera athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, enda voru kæranda gefnar skýrar leiðbeiningar um hvaða fylgigögn skorti og hvaða kröfur væru gerðar til þeirra.
Úr þessu hefur kærandi ekki bætt á kærustigi og verður ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga því staðfest.
Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar
Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta að því í ákvörðunum sem byggjast á 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga að tilgreina hvaða gögn það er sem skortir, eða af hvaða ástæðum þau kunna að vera ófullnægjandi í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares