Komugjöld barna felld niður
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að fella niður komugjöld barna á heilsugæslustöðvum og á sjúkrahúsum.
Þetta er meginefni reglugerðar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett og tekur gildi um áramótin og þýðir að börn og ungmenni undir átján ára greiða í framtíðinni ekkert fyrir komu á heilsugæslustöð og á sjúkrahús.
Hingað til hafa börn og ungmenni þurft að greiða komugjald þegar þau sækja sér þjónustu á heilsugæslustöðvum og hafa þau, eða foreldrar þeirra, greitt það sama og ellilífeyrisþegar og öryrkjar. Komugjöld þeirra á heilsugæslustöðvum hafa verið áætlaðar á bilinu 80 til 90 milljónir króna á landinu öllu.
Komugjöldin sem felld verða niður vegna barna og ungmenna sem sækja sér þjónustu á sjúkrahúsum eru 43 til 45 milljónir króna á Landspítalanum einum, en á landinu öllu nema komugjöld vegna barna 79 til 80 milljónum króna.
Samtals er þannig verið að fella niður komugjöld vegna heimsókna barna og ungmenna í heilbrigðisþjónustunni fyrir um 170 milljónir króna. Aðgerðin er hluti af fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um sérstakar aðgerðir til að skapa hér barnvænt samfélag með því að beita sér fyrir tilteknum markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi.
Komugjöld fullorðinna á heilsugæslustöðvar hafa verið óbreytt frá árinu 2005, en hækka nú um 300 krónur, úr 700 í 1.000 krónur fyrir komu til heilsugæslulæknis á dagvinnutíma. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða áfram hálft gjald fyrir komu á heilsugæslustöð, eða 500 krónur fyrir heimsókn á dagvinnutíma.
Fyrir komu og endurkomu á slysa og bráðamóttöku sjúkrahúsa verður almennt gjald 4.000 krónur og hækkar um 300 krónur. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða hálft gjald eða 2.000 krónur. Gjald vegna komu eða endurkomu á göngudeildir spítala vegna þjónustu annarra en lækna verður almennt 2.100 krónur og hækkar um rúmlega 200 krónur. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða í framtíðinni 1.100 krónur.
Þegar sjúkratryggður einstaklingur á aldrinum 18 - 70 ára hefur samtals greitt 21.000 krónur á sama almanaksári vegna heilbrigðisþjónustu á hann rétt á afsláttarskírteini. Er hér átt við heimsóknir á heilsugæslustöðvar eða til heimilislækna, vitjanir lækna, heimsókir á slysadeild, göngudeildir og bráðamóttöku sjúkrahúsa, heimsóknir til sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og til sérfræðilækna á göngudeildir sjúkrahúsa, rannsóknir á rannsóknastofum, geisla- og myndgreiningar og beinþéttnimælingar. Sama gildir þegar kostnaður vegna barna í sömu fjölskyldu fer yfir sjö þúsund krónur á almanaksárinu, þ.e. þá eiga fjölskyldur rétt á afsláttarskírteini vegna barnanna. Þegar lífeyrisþegar hafa greitt 5.200 krónur á sama almanaksári vegna þjónustunnar sem hér er tilgreind eiga þeir rétt á afsláttarskírteini sem Tryggingastofnun gefur út. Þetta eru ellilífeyrisþega 70 ára og eldri, örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega 67-70 ára, sem nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs, og ellilífeyrisþega 60-70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris.