Heimsókn ráðherra á Vinnumálastofnun við Engjateig
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, heimsótti í dag þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar við Engjateig í Reykjavík. Mikill fjöldi fólks hefur skráð sig án atvinnu þessa fyrstu daga mánaðarins og annríki því verið mikið hjá stofnuninni við skráningu umsókna um atvinnu og atvinnuleysisbætur.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, tók á móti ráðherra ásamt Hugrúnu Jóhannesdóttur, forstöðumanni þjónustumiðstöðvar Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu, og Hrafnhildi Tómasdóttur, sviðsstjóra ráðgjafarsviðs þjónustuskrifstofunnar á Engjateigi. Þau kynntu fyrir ráðherra helstu verkefni Vinnumálastofnunar og lögðu mikla áherslu á að fólk nýti sér þær leiðir sem stofnunin hefur yfir að ráða til að styðja fólk til virkni og sjálfseflingar með þátttöku í fjölbreyttum námskeiðum sem stofnunin stendur fyrir og eru fólki að kostnaðarlausu. Bætt hefur verið við 26 starfsmönnum hjá Vinnumálastofnun frá því í byrjun október til að efla starfsemina og mæta auknu álagi og eins hefur verið aukið v ið húsnæði stofnunarinnar, meðal annars með opnun nýrrar þjónustuskrifstofu í Borgartúni. Þar er til húsa evrópska vinnumiðlunin EURES, öll þjónusta við atvinnuleitendur sem ekki tala íslensku og öll almenn ráðgjöf vegna atvinnuleitar erlendis.
Ásta Ragnheiður segir ekkert verkefni brýnna en að sporna gegn vaxandi atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum og jafnframt að byggja upp öfluga þjónustu við þá sem hafa misst atvinnu sína. „Þau eru þung sporin hjá fólki sem kemur hingað til að skrá sig án atvinnu og sækja um atvinnuleysisbætur á þessum erfiðu tímum, ekki síst vegna þess að við vitum ekki hve langan tíma tekur að koma atvinnulífinu á skrið á nýjan leik. Því verðum við að nota allar færar leiðir til að vinna gegn vaxandi atvinnuleysi.“ Ráðherra segir ekki síður mikilvægt að þeim sem misst hafa vinnuna standi til boða fjölbreytt verkefni og leiðir til að halda virkni sinni, halda tengslum við atvinnulífið og auka færni sína.