Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Krafa um að skattrannsókn á tekjum yrði hætt

Skattar og ráðgjöf ehf
Pétur Steinn Guðmundsson, hdl.
Lágmúla 7
105 Reykjavík

Reykjavík 20. júní 2014
Tilv.: FJR14060014/16.2.1


Efni: Erindi Péturs Steins Guðmundssonar hdl. f.h. [A], kt. […].

Ráðuneytið vísar til erindis Péturs Steins Guðmundssonar, hdl., f.h. [A], kt. […], sem móttekin var hjá ráðuneytinu þann 3. júní 2014, vegna bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. maí 2014, þar sem ekki var fallist á kröfu um að skattrannsókn á tekjum [A] fyrir tekjuárin 2006-2010 yrði þegar í stað hætt. Framangreint bréf skattrannsóknarstjóra er svar við bréfi, dags. 5. apríl 2013 og tölvupósti, dags. 29. apríl 2014. Bréfið hefur ekki að geyma úrskurðarorð þar sem fram kemur að ákvörðunin sé kæranleg til ráðuneytisins. Krafist er að skattrannsóknarstjóri hætti nú þegar rannsókn á málefnum [A] fyrir tekjuárin 2006-2010 og að viðurkenndur verði úrskurður skattstjórans í Reykjanesumdæmi, nú ríkisskattstjóra, frá 2005 um sama efni.

Málavextir skv. erindinu eru þeir að þann 18. desember 2012 hófst skattrannsókn á skattskilum [A] vegna tekjuáranna 2006-2010. Áður, eða þann 25. október 2005, hafði skattstjórinn í Reykjanesumdæmi kveðið upp úrskurð sinn vegna tekjuársins 2003 í sambærilegu máli þar sem niðurstaðan var sú að [A] bar ekki að greiða skatta á Íslandi af tekjum sínum sem áttu uppruna sinn í Máritaníu[M], enda hafi hann framvísaði gögnum því til staðfestingar.

Þá kemur fram í erindinu að á grundvelli þessa úrskurðar og einnig þess að [A] hafi uppfyllt skilyrði tekjuskattslaga um að hafa verið búsettur erlendis í meira en fjögur ár verði að telja að skattrannsóknarstjóri hafi ekki heimild til rannsóknar á tekjum hans. Skattrannsóknarstjóra skorti því valdheimildir til að halda málinu áfram og sé bundinn af áðurnefndum úrskurði, dags. 25. október 2005.

Í VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er fjallað um stjórnsýslukærur. Í 26. gr. laganna er tilgreind kæruheimild aðila en þar segir að hægt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt. Það er grundvallaratriði að fyrir hendi sé kæranleg ákvörðun lægra setts stjórnvalds en í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að lögin gilda þegar ákvarðanir eru teknar um rétt eða skyldu manna, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir. Ákvörðun verður að beinast að tilteknum aðila eða aðilum svo hún teljist vera stjórnvaldsákvörðun. Fyrirmæli stjórnvalda, sem beint er til óákveðins fjölda manna eða ótiltekins hóps og fela í sér réttarreglu, teljast því ekki stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli.

Skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Svonefndar formákvarðanir, sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, verða því ekki kærðar fyrr en málið hefur verið ráðið til lykta.

Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins, um að taka til rannsóknar skattskil [A] fyrir tekjuárin 2006-2010, þ.m.t. hvort skilyrði um skattalega heimilisfesti séu uppfyllt, bindi ekki enda á mál hans og verði því ekki kærð til æðra stjórnvalds.

Telur ráðuneytið að þar sem lagaskilyrði til stjórnsýslukæru eru ekki fyrir hendi skorti ráðuneytið heimildir að lögum til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar. Erindinu er því synjað sökum skorts á kæruheimild, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir hönd ráðherra










Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta