Hoppa yfir valmynd
6. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 477/2017 - Úrskurður

Örorkumat

Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 477/2017

Miðvikudaginn 6. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. desember 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. desember 2017 um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati frá 9. ágúst 2001.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2017, óskaði kærandi eftir því að greiðslur aldurstengdrar örorkuuppbótar til framtíðar yrðu miðaðar við að hann hafi uppfyllt skilyrði um 75% örorku frá X ára aldri eða frá árinu X. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2017, var beiðni kæranda synjað með þeim rökum að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku máls væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. desember 2017. Með bréfi, dags. 3. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 6. mars 2018, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dagsettu saga dag. Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, bárust athugasemdir Tryggingastofnunar og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. apríl 2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að útreikningur aldurstengdrar örorkuuppbótar miðist við að hann hafi verið 75% öryrki frá X eða frá því að hann varð X ára gamall. Til vara er þess krafist að örorkubætur verði miðaðar við 75% örorku frá þeim tíma sem staðfesting B læknis var gefin út 1990. Ekki er gerð krafa um að bæturnar verði greiddar afturvirkt heldur eingöngu að framtíðargreiðslur verði miðaðar við réttar forsendur í samræmi við greindar kröfur.

Til rökstuðnings framangreindri kröfu vísar kærandi í bréf sitt til Tryggingastofnunar. Þar segir meðal annars að Tryggingastofnun hafi á árinu 200[1] tekið ákvörðun um að kærandi væri 75% öryrki frá 1999 þó svo að í raun hafi kærandi orðið 75% öryrki löngu fyrr. Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi ekki verið byggð á fyrirliggjandi gögnum, hafi ekki verið rétt og hafi leitt til þess að kærandi fái mun lægri aldurstengda örorkuuppbót en hann ætti með réttu að fá.

Með læknisvottorði B, dags. 16. júlí 1990, hafi verið staðfest að kærandi hafi þá verið orðinn 75% öryrki og í raun frá því að hann varð X ára gamall. Þessi staðfesting hafi legið fyrir hjá Tryggingastofnun. Samkvæmt stjórnsýslulögum hafi stofnunin átt að kanna málið nægjanlega vel áður en ákvörðun var tekin.

Í athugasemdum kæranda, dags. 6. mars 2018, segir að Tryggingastofnun bendi réttilega á að samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli mál ekki tekið fyrir að nýju ef ár sé liðið frá því að stjórnvald tók ákvörðun nema veigamiklar ástæður liggi fyrir því. Kærandi telji að veigamiklar ástæður liggi fyrir upptöku málsins. Í fyrsta laga hafi ákvörðunin verið efnislega röng og ekki byggð á þeim gögnum sem hafi legið fyrir. Í öðru lagi hafi umrædd gögn legið fyrir hjá stofnuninni sjálfri þegar ákvörðunin var tekin og því telji kærandi að skilyrði 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Jafnframt sé uppfyllt skilyrði greinarinnar að um sé að ræða veigamiklar ástæður.

Þá greinir kærandi frá því að þegar ákvörðun var tekin um að upphafstími örorkumats hans yrði frá 1999 þá hafi hann ekki verið upplýstur um kærufrest vegna ákvörðunarinnar. Þetta sé mikilvægt atriði og óski kærandi þess að tekið verði tillit til þess í málinu.

Varðandi það atriði að Tryggingastofnun telji að kærandi hafi fengið öll þau réttindi sem hann hafi átt á sínum tíma og að það hafi verið að hluta til það sem stofnunin hafi byggt á er hún hafnaði kröfu hans. Þetta sé ekki rétt. Eins og svar Tryggingastofnunar frá 4. desember 2017 beri með sér sé ljóst að stofnunin hafi byggt ákvörðunina eingöngu á því að kærufrestur hafi verið liðinn. Hvorki hafi verið fjallað um réttindi hans né önnur efnisleg atriði í ákvörðuninni.

Þá sé bent á að í greinargerð Tryggingastofnunar sé ýjað að einhverju sem hægt sé að kalla efnislega umfjöllun „… og þannig er fullkomlega eðlilegt að einstaklingi sem uppfyllir skilyrði fyrir 75% örorkumati frá 1. september 1999 hafi ekki verið metin 75% örorka í gildistíða eldri reglna.“

Þessi umfjöllun sé í yfirlýsingarformi og ákaflega óljós. Kærandi spyr hvað það sé sem stofnunin meti fullkomlega eðlilegt og á hverju það sé byggt. Þar sem stofnunin hafi ekki komið með efnisleg rök að öðru leyti sé þess krafist að litið verði fram hjá þessari óljósu fullyrðingu stofnunarinnar. Verði það ekki gert sé þess óskað að stofnunin skýri mál sitt með greinargóðum hætti og dæmum sem byggi á þeim rökum og forsendum um mál hans sem stofnun hafi aðgang að.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. apríl 2018, segir í fyrsta lagi að krafa hans falli beint undir heimildir í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið efnislega röng og ekki byggð á nauðsynlegum gögnum sem hafi þó legið fyrir hjá stofnuninni. Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi áhrif á hag kæranda þar sem aldurstengd örorkuuppbót til hans sé skert meira en annars væri. Kærandi bendi á að þrátt fyrir allnokkur bréfaskipti um málið hafi Tryggingastofnun ekki með neinum hætti borið brigður á fullyrðingar hans og þar með í raun samþykkt að ákvörðunin sé röng og ekki byggð á fyrirliggjandi gögnum.

Varðandi fullyrðingu Tryggingastofnunar um að kærufrestur hafi verið kynntur á sínum tíma þá sé sérstaklega tekið fram að á þeim tíma hafi sú ákvörðun, sem sé grundvöllur núverandi fyrirkomulags, verið ákveðin milli læknis kæranda, B og Tryggingastofnunar. Ákvörðunin hafi því aldrei verið birt honum. Stofnunin fullyrði jafnframt að kærandi hafi fengið allar sínar óskir uppfylltar og því hafi ekki verið ástæða til að kynna honum kærufrestinn. Það sé rangt. Kærandi hafi ekki fengið óskir sínar og kröfur uppfylltar eins og hann hafi rakið í bréfum sínum.

Í þriðja lagi sé gerð athugasemd við það sem kærandi telji vera óeðlilega afstöðu Tryggingastofnunar gagnvart úrskurðarnefndinni. Kærandi eigi erfitt með að átta sig á því hvernig stofnun eins og Tryggingastofnun sem beri að hlíta úrskurðum nefndarinnar geti áskilið sér rétt til að koma að greinargerðum í tilteknum málum hafi nefndin hugsað sér að kveða upp úrskurð sem sé andstæður því sem stofnunin vilji. Nú sé það þannig að á milli æðra og lægra setts stjórnvalds sé ákveðinn aðskilnaður. Þetta hafi verið talið það augljóst að ekki hafi verið ástæða til að tiltaka það sérstaklega í lögum. Kærandi leyfi sér einnig að benda á að kæra hans snúist um að fá mál tekið upp að nýju eftir að kærufresti sé lokið en ekki síður um efnislegu umfjöllunina sem þá verði. Þessi tvö atriði verði ekki aðskilin. Tryggingastofnun hafi m.ö.o. fengið ærin tækifæri til að fjalla efnislega um málið. Með þeirri umfjöllun sem stofnunin hafi valið að setja fram hafi hún í raun þegar komið því að um efnisatriði málsins sem stofnunin telji við hæfi. Það sé réttur kæranda að málið verði tekið til umfjöllunar nú þegar án frekari aðkomu Tryggingastofnunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á beiðni kæranda um endurupptöku á örorkumati, dags. 9. ágúst 2001, í þeim tilgangi að hann fengi greidda hærri aldurstengda örorkuuppbót. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 5. desember 2017, hafi beiðni kæranda um endurupptöku á örorkumati verið synjað.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. sé svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Kærandi hafi óskað endurupptöku á örorkumati með bréfi, dags. 28. nóvember 2017. Með vísan í læknisvottorð B, dags. 16. júlí 1990, hafi verið gerð krafa um að 75% örorkumat kæranda gilti frá B ára aldri hans eða frá árinu X. Ekki hafi verið farið fram á að bætur yrðu greiddar afturvirkt heldur eingöngu að framtíðargreiðslur yrðu miðaðar við forsendur greindra krafna.

Kæranda hafði verið metin 50% örorka frá ágúst X þangað til í ágúst X en þá hafi verið samþykkt að hækka örorkumatið í 65% á grundvelli læknisvottorðs þess sem kærandi vísi til varðandi kröfu sína um hækkun matsins.

Örorkumati kæranda hafi verið breytt úr 65% í 75% með örorkumati, dags. 9. ágúst 2001, sem hafi gilt afturvirkt frá september 1999 og sé varanlegt. Gildistími breytts örorkumats sé í samræmi við breytingu á ákvæðum áðurgildandi laga nr. 118/1993 um almannatryggingar sem átt hafi sér stað með lögum nr. 62/1999 en sú breyting hafi tekið gildi 1. september 1999. 

Aldurstengd örorkuuppbót hafi verið greidd frá breytingu á lögum um almannatryggingar með lögum nr. 130/2003 sem tóku gildi 1. janúar 2004. Fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar miðist við þann aldur sem einstaklingur hafi í fyrsta sinn verið metinn 75% öryrki.

Í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á, nema að veigamiklar ástæður mæli með því. Tryggingastofnun telji að kærandi hafi fengið öll þau réttindi sem hann hafi átt á sínum tíma og sé því ekki hægt að sjá að veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið. Beiðni kæranda um um endurupptöku á örorkumati, dags. 9. ágúst 2001, hafi því verið synjað.

Þá sé bent á að í gildistíð eldri reglna um örorkumat höfðu tekjur einstaklings áhrif á örorkumat hans og þannig sé fullkomlega eðlilegt að einstaklingi, sem hafi uppfyllt skilyrði fyrir 75% örorkumati frá 1. september 1999, hafi ekki verið metin 75% örorka í gildistíð eldri reglna.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að heimild til endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 feli í sér heimild til að taka mál sem tekin hafi verið ákvörðun í aftur til efnislegrar meðferðar á grundvelli þess að röng ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Ef lengri tími en ár sé liðinn frá því að ákvörðun var tekin séu sett strangari skilyrði um endurupptöku máls og verði mál þá ekki endurupptekið nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Kærandi hafi hvorki sýnt fram á að röng ákvörðun hafi verið tekin né að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins. 

Einnig sé þeirri fullyrðingu kæranda vísað á bug að honum hafi ekki verið gerð grein fyrir því að frestur væri til að kæra ákvörðunina. Kæruheimild komi fram í örorkumati frá 9. ágúst 2001, þ.e. þeirri ákvörðun sem mál þetta snúist um, sem muni hafa verið sent honum á sínum tíma. Ekki verði heldur séð að það myndi skipta máli hvort upplýst hefði verið um kæruheimild þar sem það sé ekki nauðsynlegt þegar kröfur séu teknar til greina að öllu leyti. Það hafi einmitt verið gert með því að samþykkja að hækka örorkumat kæranda upp í hæsta örorkustig og jafnframt að örorkumat skyldi gilda eins langt aftur í tímann og lagaheimild sé fyrir, sbr. þágildandi 48. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 og núgildandi 53. gr. laga nr. 100/2007 og lög nr. 62/1999.

Tryggingastofnun telji því að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku máls séu ekki uppfyllt í máli þessu. Komist úrskurðarnefnd að annarri niðurstöðu áskilji Tryggingastofnun sér á hinn bóginn rétt til að koma að efnislegri greinargerð um málið.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2017, um endurupptöku örorkumats frá 9. ágúst 2001. Kærandi krefst þess að greiðsla aldurstengdrar örorkuuppbótar til framtíðar verði miðuð við að hann hafi verið 75% öryrki frá X ára aldri, þ.e. frá árinu X. Til vara fer kærandi fram á að greiðsla aldurstengdrar örorkuuppbótar til framtíðar verði miðuð við að hann hafi verið 75% öryrki frá 1990.

Í 21. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum er kveðið á um aldurstengda örorkuuppbót og er 1. mgr. ákvæðisins svohljóðandi:

„Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 18. gr. eða fullan örorkulífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Aldurstengd örorkuuppbót greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. um búsetutíma, örorkumat og skerðingu vegna tekna. Fjárhæð uppbótar, sbr. 2. mgr., miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 18. gr. eða lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða uppfyllir skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð.“

Fyrst var kveðið á um aldurstengda örorkuuppbót í lögum nr. 130/2003 um breytingu á lögum um almannatryggingar með gildistöku 1. janúar 2004. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að meginmarkmið aldurstengdrar örorkuuppbótar sé að koma til móts við sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Útreikningur aldurstengdrar örorkuuppbótar er á þá leið að um 100% greiðslur er að ræða þegar einstaklingur verður öryrki 18 og 19 ára en lækkar hlutfallslega frá 20 ára aldri til og með 66 ára. Þá er sérstaklega tilgreint í frumvarpinu að lögin gildi um umsóknir sem berast Tryggingastofnun eftir gildistöku laganna, þ.e. 1. janúar 2004, en jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem sótt hafa um eða fá greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins við gildistöku laganna fái aldurstengda örorkuuppbót án þess að þurfa að sækja sérstaklega um uppbótina. Núgildandi ákvæði um aldurstengda örorkuuppbót er í megindráttum samhljóða eldra ákvæði.

Af gögnum málsins má ráða að kæranda var metin 50% örorka frá ágúst X þangað til í ágúst X en þá var matið hækkað í 65%. Með örorkumati, dags. 9. ágúst 2001, var örorka kæranda metin 75% frá 1. september 1999. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda er fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar hans miðuð við að hann hafi orðið 75% öryrki árið 1999. Í ljósi þess að upphafstími fyrsta 75% örorkumats kæranda var 1. september 1999 telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að miða fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar til kæranda við það tímamark. Kemur þá næst til skoðunar hvort kærandi eigi rétt á því að fá örorkumatið frá 9. ágúst 2001 endurupptekið.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Aðili máls getur jafnframt átt rétt til að fá mál sitt endurupptekið á grundvelli ólögfestra reglna meðal annars ef stjórnvaldsákvörðun byggir á röngu mati stjórnvalds eða á röngum lagagrundvelli.

Kærandi byggir á því að hann hafi uppfyllt skilyrði fyrir 75% örorku löngu fyrir 1999 og því sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. ágúst 2001 röng. Því til stuðnings vísar hann til læknisvottorða B, dags. 16. júlí 1990, og C, dags. 3. október 2017. Í læknisvottorði Bsegir svo:

„Þessi […] maður fékk heilablæðingar X sinnum og var í öll skiptin lokað fyrir arteriovenus malformationir.

Frá því síðasta vottorð var ritað hefur ástand haldist óbreytt. Hann er áfram á stöðugri krampalyfjameðferð og gengur vel að halda k[r]ömpum í skefjum. Vinstri hemiparesa er óbreytt og vinstri handleggur sem fyrr algjörlega óvirkur. Notar sérstakar spelkur á vinstri fót.

Batahorfur A eru sem fyrr engar og fötlun hans hefur í för með sér verulegan aukakostnað auk skerðingar á starfsorku. Mælt er [með] fullum örorkubótum áfram.“

Þá segir svo í læknisvottorði C, dags. 3. október 2017:

„A fékk heilablæðingar X og X eins og komið hefur fram í beiðnum um örorku ykkur áður send. Af þessu hlaut hann spastiska hemiparesu í vinstri hlið og flogaveiki. Var frá […] á 65% örorku. Örorkan breyttist hins vegar í 75% árið 1999 þegar hann þurfti á [...] að halda, þá X ára gamall. A hefur beðið mig að fara yfir þessi mál og votta að þrátt fyrir breytingu á örorkunni úr 65% í 75% hafði ekki orðið nein breyting á hans líkamlegu getu. Ég hef í höndunum læknisvottorð vegna endurnýjunar umsóknar um örorkubætur sem að B skrifaði 16.07.90. Þar kemur fram að batahorfur A séu sem fyrr engar og fötlun hans hafi í för með sér verulegan auka kostnað auk skerðingar á starfsorku. Ég hef fylgt A eftir frá ca. 2000 og frá þeim tíma hefur hans líkamlega ástand verið óbreytt með umræddri spastiskri hemiparesu og litlum flogum inn á milli. Ég treysti mér til þess að lýsa yfir því að sú örorka sem að A er á nú, þ.e. 75% hafi átt að gilda einnig fyrir örorku hans fyrir 1999.“

Eins og getið er um hér að framan þá var fyrsta örorkumat kæranda framkvæmt á árinu 1981. Á þeim tíma voru í gildi lög nr. 67/1971 um almannatryggingar með síðari breytingum og grundvallaðist þá örorkumat lífeyristrygginga á þremur eftirfarandi forsendum þ.e. læknisfræðilegum, félagslegum og fjárhagslegum. Í 12. gr. framangreindra laga segir að rétt til örorkulífeyris ættu þeir sem „eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn ¼ þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröfum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.“ Sambærilegt ákvæði var að finna í lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar. Framkvæmd örorkumats var breytt með lögum nr. 62/1999 sem tóku gildi 1. september 1999. Örorkumat var frá þeim tíma byggt á læknisfræðilegum staðli og fallið frá beinum tekjuviðmiðunum. Því var um umtalsverða breytingu frá fyrri framkvæmd að ræða. Með ákvörðun Tryggingastofnunar frá árinu 2001 var kærandi metinn með varanlega 75% örorku út frá læknisfræðilegum staðli frá gildistíma laga nr. 62/1999, þ.e. frá 1. september 1999.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau læknisvottorð sem kærandi hefur lagt fram gefi til kynna að líkamleg geta hans hafi verið sambærileg og nú mun lengur en frá árinu 1999. Aftur á móti voru örorkumöt fyrir 1. september 1999 ekki einungis byggð á læknisfræðilegum forsendum líkt og nú, heldur einnig félagslegum og fjárhagslegum eins og áður hefur komið fram. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. ágúst 2001 sé röng líkt og kærandi heldur fram. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að örorkumat kæranda hafi verið byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik en fyrir liggur að fyrrgreint læknisvottorð B barst Tryggingastofnun 24. júlí 1990. Með hliðsjón af framangreindu verður hvorki ráðið af gögnum málsins að kærandi eigi rétt á að örorkumat hans frá 9. ágúst 2001 verði endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga né á grundvelli ólögfestra reglna.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. desember 2017 um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati frá 9. ágúst 2001 er staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. desember 2017 um að synja beiðni um endurupptöku á örorkumati A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta