Hoppa yfir valmynd
12. desember 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um uppsteypu rannsóknahúss - stór áfangi í heildaruppbyggingu Landspítala

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar ehf. undirrituðu fyrir helgi samning Nýs Landspítala ohf. um uppsteypu á rannsóknahúsi. Auk þess vottuðu samninginn Svava María Atladóttir framkvæmdastjóri Þróunar hjá Landspítala og Sólrún Lovísa Sveinsdóttir verkefnastjóri rannsóknahúss hjá NLSH.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Þessi undirritun er stór áfangi í heildaruppbyggingu Landspítala. Öflugt vísinda og rannsóknarstarf eru eitt af grundvallarskilyrðunum fyrir því að heilbrigðisþjónusta uppfylli hæstu gæðakröfur og standist samanburð við önnur lönd. Rannsóknahúsið sem hér rís mun sameina alla rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað og um leið gjörbylta aðstöðu okkar til rannsókna og vísindastarfa. Gert er ráð fyrir að húsið beri þyrlupall, sem myndi þá tengjast bráðamóttöku og fleiri deildum í meðferðarkjarna um tengibrú, mikilvægt öryggishlutverk þegar kemur að sjúkraflutningum og bráðaviðbragði í landinu,“.

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala: „Það fer vel á því að þegar uppsteypu í meðferðarkjarnanum er nær lokið að hefjast handa sunnan megin Burknagötu í rannsóknahúsinu. Niðurstaða útboðsins varð sú að Eykt ehf. var með hagstæðasta tilboðið, sama verktakafyrirtæki og sinnti uppsteypuverkefnum í meðferðarkjarna og sinnir nú byggingu bílastæða- og tæknihússins, sem vissulega ætti að vera til betri samræmingar á verksvæðinu við Hringbraut, öllum aðilum í hag. Vonandi verður þessi fyrsti steypuvetur okkur góður þannig að húsið komist fljótlega upp úr jörðinni,“.

Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar ehf.: „ Við hjá Eykt erum full tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni. Við erum komin langt með að klára uppsteypu á meðferðarkjarnanum og vinna við bílastæða- og tæknihús er í fullum gangi. Samstarfið við NLSH hefur gengið vel og spennandi að vinna áfram með þeim að þessu stóra verkefni sem uppbygging Nýs Landspítala er,“.

Á mynd: Svava María Atladóttir Landspítala, Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar ehf, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Sólrún Lovísa Sveinsdóttir NLSH ohf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta