Hoppa yfir valmynd
21. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt meðferðarheimili fyrir börn í Garðabæ

Undirritun viljayfirlýsingarinnar við Vífilsstaðavatn - myndVelferðarráðuneytið

Í dag undirrituðu Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu nýs meðferðarheimilis fyrir börn í Garðabæ.  Vel­ferðarráðuneytið mun tryggja Barna­vernd­ar­stofu fjár­magn til fram­kvæmda við bygg­ingu meðferðar­heim­il­isins en Barna­vernd­ar­stofa mun ann­ast starf­semi og rekst­ur þess. Nýja meðferðarheimilið verður með 6-8 plássum í þremur aðskildum hlutum heimilisins og ætlað unglingum sem þurfa sérhæfða meðferð á meðferðarheimili vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Þar munu börn á aldrinum 15-17 ára einnig geta afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma á forsendum meðferðarþarfar í stað fangelsisvistar og eftir atvikum setið í gæsluvarðhaldi í lausagæslu. Áhersla verður lögð á meðferð áhættuþátta með þátttöku fjölskyldunnar, aðlögun að nærumhverfi, skóla eða vinnu og jákvæðum tómstundum. Uppbygging meðferðarheimilisins er liður í því að tryggja börnum á Íslandi nauðsynleg meðferðarúrræði og auka vægi gagnreyndra aðferða í meðferð barna og stuðla þannig að framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Ásmundur Einar Daðason segist hafa lagt mikla áherslu á úrbætur í þessum málaflokki og það sé afar ánægjulegt að búið sé að finna heimilinu stað. Nú sé spennandi uppbygging framundan þar sem áberandi sé jákvæðni allra aðila sem að þessu standa og sameiginlegur vilji til að láta þetta mikilvæga verkefni ganga vel.

Garðabær mun nú þegar hefja vinnu við skipulag svæðisins og skipaður verður sameiginlegur samráðshópur til að vinna að frekari framgangi málsins. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á árinu 2020.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta