Stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028 samþykkt
Alþingi samþykkti einróma á föstudag þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028. Stefnan byggir á því sem vel hefur tekist á undanförnum árum, niðurstöðum úttekta og nýafstaðinni jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) þar sem meðal annars var lögð áhersla á mikilvægi þess að Ísland hafi áfram skýra og einbeitta nálgun í sinni þróunarsamvinnu.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Parísarsamkomulagið um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum, og aðrir alþjóðlegir sáttmálar sem Ísland er aðili að, varða veginn í nýrri stefnu. Á sama tíma er tekið mið af þeim áskorunum sem fátækari ríki heims standa frammi fyrir, styrkleikum og sérþekkingu Íslands og þeim gildum sem íslenskt samfélag hefur í heiðri til að mynda mannréttindum, kynjajafnrétti og réttindum hinsegin fólks.
„Ég hlakka til að koma nýrri stefnu í framkvæmd, enda er hún metnaðarfull bæði hvað varðar áherslumál og framlög til þróunarsamvinnu, en með stefnunni höfum við stigið mikilvægt skref í átt að 0,7% markmiðinu. Það er ánægjulegt að finna fyrir þverpólitískri sátt um málaflokkinn og það starf sem unnið hefur verið á síðastliðnum árum, enda hefur víða tekist að lyfta grettistaki með markvissum stuðningi og áherslu á afmarkaða málaflokka og samstarfshéruð – í stað þess að kasta netinu of vítt,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands í Malaví, Úganda og Síerra Leóne hefur náðst umtalsverður árangur. Í þessum þremur löndum hafa til dæmis um 700 þúsund manns, eða tvöfaldur íbúafjöldi Íslands, fengið aðgang að hreinu vatni og bættu hreinlæti sem hefur dregið mjög úr tíðni niðurgangspesta og vatnstengdra sjúkdóma. Þar njóta jafnframt nær 80 þúsund börn árlega góðs af bættu námsumhverfi á borð við skólabyggingar, þjálfun kennara og námsgögn, og hafa úttektir sýnt fram á umtalsvert bættan námsárangur meðal barna í þeim skólum sem Ísland hefur stutt.
Kjarnaframlög til fjölþjóðastofnana og tvíhliða samstarf í Afríku í forgrunni
Yfirmarkmið nýrrar stefnu er „útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði“ auk þess sem mannréttindi og jafnrétti kynjanna annars vegar og umhverfis- og loftslagsmál hins vegar eru bæði sértæk og þverlæg markmið, sem þýðir að þau skuli lögð til grundvallar og samþætt í allt starf. Lögð er áhersla á fjóra málaflokka:
- Mannréttindi og jafnrétti kynjanna
- Mannauð og grunnstoðir samfélaga
- Loftslagsmál og náttúruauðlindir
- Mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar
Sem fyrr munu íslensk stjórnvöld nýta fjölbreyttar leiðir við framkvæmd stefnunnar, þar á meðal tvíhliða þróunarsamvinnu við Malaví, Úganda og Síerra Leóne og samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir með áherslu á Alþjóðabankann, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).
Á sviði mannúðaraðstoðar verður stuðningi einkum beint til lykilstofnana á því sviði: Mat-væla¬áætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) og samræmingarskrifstofu aðgerða Samein¬uðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) en því til viðbótar verði áfram haft samstarf við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og alþjóðaráð Rauða kross¬ins (ICRC). Þá verður áfram haft samstarf við félagasamtök, GRÓ þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og aðila atvinnulífs auk þess sem unnið verður að því að efla samstarf við fræðasamfélagið.
Stefnuna má nálgast á vef Alþingis ásamt fylgiskjölum.