Hoppa yfir valmynd
13. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 96/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 96/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010046

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. janúar 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2020, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Aðallega er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og efnismeðferð á umsókn kæranda verði frestað þangað til dómur Landsréttar er fallinn í sakamáli hans.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi fyrir maka Íslendings þann 1. mars 2016 og hefur fengið það leyfi endurnýjað tvisvar, nú síðast með gildistíma til 24. maí 2019. Þann 10. júlí 2019 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 29. janúar sl. en kæru fylgdi greinargerð og fylgigögn. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með tölvupósti, dags. 11. febrúar sl., og fékk svar við því erindi samdægurs. Umboðsmanni kæranda var veitt tækifæri til að koma að andmælum vegna svars Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann sama dag en ekki bárust athugasemdir frá umboðsmanni hans.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að útlendingur ætti ekki ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. Fram kom að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá 7. nóvember 2019 væri kærandi með ólokin mál í refsivörslukerfinu. Þar sem kærandi uppfyllti ekki fyrrnefnt skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi dvalið hér á landi meira og minna sl. fimm ár, hann sé giftur íslenskum ríkisborgara og þau eigi saman barn. Maki hans glími við veikindi, hún sé óvinnufær og sé kærandi því eina fyrirvinna fjölskyldunnar. Kærandi byggir á því að hann uppfylli öll skilyrði 58. gr. laga um útlendinga enda hafi hann áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, [...], til Landsréttar. Samkvæmt meginreglu sakamálaréttarfars sé maður saklaus uns sekt sé sönnuð en ljóst sé að endanleg niðurstaða um sekt hans liggi ekki fyrir fyrr en Landsréttur hafi kveðið upp endanlegan dóm sinn. Sé ekki heimilt að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli þess að kærandi eigi ólokið mál í refsivörslukerfinu og hafi Útlendingastofnun ekki gætt að lögmætisreglunni. Þá byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt meðalhófs við ákvörðun sína, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Maki hans og sonur séu íslenskir ríkisborgarar og kærandi hafi mjög ríka hagsmuni af því að fá að dvelja áfram á Íslandi og síðar fá íslenskan ríkisborgararétt. Jafnframt þurfi að horfa til hagsmuna sonar kæranda. Hafi Útlendingastofnun hvorki gætt að rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, né að jafnræðisreglu sömu laga, sbr. 11. gr. Loks vísar kærandi til þess að allar líkur séu á því að umræddu sakamáli verði vísað heim í hérað sem kalli á að flytja þurfi málið aftur þar en meðferðartími sé langur hjá dómstólum og því megi búast við því að mál hans taki marga mánuði, ef ekki ár, áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir. Byggir kærandi á því að hann eigi að fá að dvelja á Íslandi þar til niðurstaða liggi fyrir hjá dómstólum enda kalli hagsmunir hans og fjölskyldunnar á það.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins leyfis síðan 1. mars 2016.

Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Samkvæmt e-lið er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. febrúar 2020, á kærandi ólokin mál í refsivörslukerfinu. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Líkt og áður greinir gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. að óheimilt sé að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli þess að kærandi eigi ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem samkvæmt meginreglu sakamálaréttarfars sé maður saklaus uns sekt sé sönnuð. Ákvæði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga gerir áskilnað um að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Löggjafinn hefur með setningu laga um útlendinga ákveðið að haga skilyrðum fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis á þessa vegu og áréttar kærunefnd að um heimildarákvæði til útgáfu dvalarleyfis er að ræða en ekki refsiákvæði. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

Samkvæmt 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um ótímabundið leyfi stóð. Eins og að framan greinir hefur málsmeðferðinni nú verið lokið með synjun umsóknarinnar og hefur kærandi því ekki lengur heimild til dvalar hér á landi. Kærunefnd ítrekar leiðbeiningar í ákvörðun Útlendingastofnunar um að kæranda sé leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli innan 15 daga frá móttöku úrskurðar þessa eða að öðrum kosti yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann sækir ekki um dvalarleyfi á öðrum grundvelli eða yfirgefur ekki landið kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. og 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                               Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta