Föstudagspósturinn 18. mars 2021
Heil og sæl.
Eins og endranær var nóg um að vera í utanríkisþjónustunni í vikunni. Á mánudag var greint frá því að til stæði að opna sendiráð í Varsjá í Póllandi síðar á þessu ári. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti tillögu þess efnis á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir viku síðan og kynnti utanríkismálanefnd málið á mánudag. Hún átti í kjölfarið fund með Gerard Sławomir Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, þar sem honum var greint frá áformunum, og ritaði sömuleiðis grein í Fréttablaðið um hið nýja sendiráð.
Á miðvikudag sat Þórdís Kolbrún fund varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Stuðningur við Úkraínu og efling sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins voru meginefni fundarins.
„Bandalagsríkin eru sammála um að úkraínska þjóðin sýni einstakt baráttuþrek og hugrekki við hryllilegar aðstæður. Við styðjum öll við Úkraínu og það er einhugur um að efla þann stuðning enn frekar,“ var haft eftir utanríkisráðherra. „Ég lýsti á fundinum stuðningi íslensku þjóðarinnar og vilja Íslands til að styðja enn frekar við Úkraínu og úkraínsku þjóðina. Þá ljáði ég máls á mikilvægi þess hugað sé að vörnum gegn kynbundnu ofbeldi sem er ein af mörgum hryllilegum birtingarmyndum stríðsátaka og neyðarástands,“ sagði Þórdís Kolbrún enn fremur.
Sama dag var Rússlandi vísað úr Evrópuráðinu á sérstökum aukafundi ráðherranefndar ráðsins. Ákvörðunin tók gildi á miðvikudag og var tekin á grundvelli þess að Rússland hafi með árás sinni á Úkraínu brotið gróflega gegn stofnsáttmála og grunngildum stofnunarinnar.
„Með sögulegri samstöðu 46 aðildarríkja Evrópuráðsins um að vísa Rússlandi úr ráðinu eru gefin skýr skilaboð um að gróf brot gegn grunngildum stofnunarinnar verði ekki látin óátalin. Hins vegar eru það mikil vonbrigði að til þessa hafi þurft að koma. Evrópuráðið hverfist um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, gildi sem ég vona að eigi afturkvæmt í rússneskt samfélag,“ sagði utanríkisráðherra af því tilefni.
Í vikunni tilkynnti Þórdís Kolbrún svo um stuðning Íslands við Jemen á framlagsráðstefnu sem skipulögð var af Svíþjóð og Sviss í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar.
En þá að sendiskrifstofunum.
Við byrjun að þessu sinni vestanhafs. Í Washington var nóg um að vera í vikunni þegar Eliza Reid kom í heimsókn. Í myndarlegri yfirferð sendiráðsins í Washington á Instagram má sjá allt það helsta en Eliza hitti ásamt okkar fólki sjálfan Bandaríkjaforseta, Joe Biden, og konu hans dr. Jill Biden, í tilefni jafnlaunadagsins. Við mælum virkilega með áhorfinu hérna en auðvitað var farið vel yfir heimsóknina á Twitter:
What an honor that President Joe Biden joined the meeting @POTUS @FLOTUS @elizajreid pic.twitter.com/i84RatlRHw
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) March 16, 2022
Í fastanefnd okkar í New York hefur okkar fólk haft í nógu að snúast undanfarnar vikur. Þar hafa málefni Úkraínu vitaskuld vegið þungt og þau lituðu jafnframt mjög þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hófst í upphafi viku. Þema þingsins að þessu sinni er jafnrétti og valdefling kvenna og stúlkna í tengslum við afleiðingar loftslagsbreytinga og flutti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðu Íslands af skjá. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, tók svo þátt í norrænum fundum sem skipulagðir voru í tengslum við þing kvennanefndar þar sem m.a. var undirrituð samnorræn skuldbinding um loftslagsbreytingar og jafnrétti kynja. Félags- og vinnumarkaðsráðherra átti auk þess tvíhliða fundi með forseta allsherjarþings SÞ, framkvæmdastýru UNFPA og yfirmanni mannréttindaskrifstofu SÞ í New York þar sem staða mála í Úkraínu og málefni flóttafólks voru ofarlega á baugi. Þá fundaði ráðherra með samtökunum Outright International sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks.
Delighted to welcome 🇮🇸 Minister Guðbrandsson @gu_brandsson to🗽 @IcelandUN for the #CSW66 🇺🇳. Our first ministerial visit since before #COVID19 and hopefully a sign of better times to come. pic.twitter.com/ySepQREEsg
— Jorundur Valtysson 🇮🇸 (@jvaltysson) March 16, 2022
Fjöldi hliðarviðburða er skipulagður í tengslum við þing kvennanefndar og tók fastanefnd þátt í viðburði um jafnréttismál á norðurslóðum og flutti þar opnunarávarp. Þingi kvennanefndar lýkur svo í næstu viku.
Nikulás Hannigan aðalræðismaður Íslands í New York hefur verið á ferðinni uppá síðkastið og sótti m.a. í Maine útflutningssýninguna Natural Products Expo, ræddi við þingkonuna Chellie Pingrie um viðskiptamál og kíkti á Portland Museum of Art.
Í Brussel heimsóttu stjórnmálafræðinemar á öðru og þriðja ári við Háskóla Íslands sendiráðið á dögunum og fengu þar yfirgripsmikla fræðslu um starfsemi þess, og ekki síst hvernig sendiskrifstofan tengist málefnum líðandi stundar.
Í Helsinki rifjar sendiráðið upp söguna í tilefni 75 ára stjórnmálaafmælis Íslands og Finnlands.
Í London voru grænar íslenskar lausnir kynntar fjárfestum þar í borg.
Í París tóku sendiráð ríkja Atlantshafsbandalagsins þar í borg höndum saman í boði bandaríska sendiherrans um að sýna samstöðu með Úkraínu ásamt sendiherra Úkraínu í París, Vadym Omelchenko.
Í París lýstu Norðurlöndin yfir áhyggjum af áhrifum stríðsins í Úkraínu á aðgengi að menntun, starfsemi fjölmiðla og vernd menningarminja í sameiginlegri ræðu sem fastafulltrúi Íslands hjá UNESCO, Unnur Orradóttir Ramette, flutti á stjórnarfundi stofnunarinnar um stöðu mála í landinu í vikunni.
Fastanefnd Íslands í Vínarborg var svo ein af skipuleggjendum á hliðarviðburði við 65. þing fíkniefnanefndar Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg, 14.-18. mars.
Í Svíþjóð hitti Hannes Heimisson sendiherra borgarstjóra Uppsala, Göran Enander.
Græn orka var einnig á dagskrá hjá Þóri Ibsen sendiherra í Kína.
Meeting with LIU Hongbin Senior Vice President of SINOPEC 🇮🇸🇨🇳 Sinopec Green Energy the joint venture with #Iceland´s Arctic Green Energy has saved China 13 million tons of CO2 during its operation from 2006 to the present by using #GeothermalEnergy for house heating. @MFAIceland pic.twitter.com/07p6lGGLnx
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) March 17, 2022
Úkraína er ofarlega í huga okkar allra þessa dagana og skírskotanir til fánans leynast víða, þar á meðal í Tókýó:
Out and about in #Tokyo today. #WeStandWithUkraine pic.twitter.com/UrfiQdjePK
— Stefan H Johannesson (@stefanhaukurj) March 12, 2022
Í Úganda eru kunnugleg andlit í heimsókn.
Á Facebook-síðu sendiráðs Íslands í Lilongwe fær fólk að kynnast bættum fiskverkunaraðferðum sem skipta sköpum.
Við minnum að endingu á Heimsljós!
Bestu kveðjur í bili frá upplýsingadeild.