Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 20/2013

Hinn 18. desember 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 20/2013:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 220/2011

Síminn hf.

gegn

Gullveri sf.

og gagnsök

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 22. nóvember 2013 óskaði Kristleifur Indriðason fyrir hönd Gullvers sf. eftir að hæstaréttarmál nr. 220/2011 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 2. febrúar 2012 yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Endurupptökubeiðandi höfðaði mál og krafði gagnaðila um greiðslu frekari bóta fyrir eignarnám sem fram hafði farið á hluta lóðar Aðalgötu 7 Stykkishólmi. Gagnaðili hafði greitt bætur í samræmi við úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta, sem kveðinn var upp 17. maí 2004, annars vegar 200.000 krónur fyrir þá spildu lóðarinnar sem tekin var eignarnámi og hins vegar 800.000 krónur vegna almennrar verðrýrnunar á lóðinni, vegna lagna að lóðarmörkum og umferðarréttar. Endurupptökubeiðandi taldi þessar bætur of lágar og fékk tvo matsmenn dómkvadda til að leggja mat á bótafjárhæð, sem töldu fjárhæðina eiga að nema 18.000.000 krónum.  Í dómsmálinu krafðist endurupptökubeiðandi greiðslu bóta í samræmi við matsniðurstöðuna. Gagnaðili krafðist sýknu með vísan til niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta en aflaði yfirmats undir rekstri málsins. Í yfirmatsgerð var komist að þeirri niðurstöðu að bætur ættu að nema samtals 7.600.000 krónum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að leggja bæri niðurstöðu yfirmatsgerðar til grundvallar. Gagnaðili undi þeim dómi ekki og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Endurupptökubeiðandi hafði einnig uppi gagnsök.

Í dómi Hæstaréttar var leyst úr hvort leggja bæri niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta til grundvallar eða niðurstöður dómkvaddra matsmanna. Líkt og í úrskurði matsefndar greindi rétturinn á milli verðmætis spildunnar sem tekin var eignarnámi og þess óhagræðis sem af eignarnáminu stafaði.

Hvað varðar verðmæti lóðarskikans, taldi Hæstiréttur að undirmatið yrði ekki lagt til grundvallar þar sem það ætti sér enga stoð í viðurkenndum sjónarmiðum sem leggja bæri til grundvallar við ákvörðun eignarnámsbóta samkvæmt íslenskum rétti. Hæstiréttur gat þess að  yfirmatsmenn hefðu talið örðugt að meta spilduna til verðs og að yfirmatið hafi tekið undir þá niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta að verðmæti hennar hefði verið 200.000 krónur í maí 2004. Hæstiréttur taldi því að mati matsnefndarinnar um verðmæti spildunnar í maí 2004 hefði ekki verið hnekkt.

Hvað varðar bætur fyrir óhagræði endurupptökubeiðanda af eignarnáminu, byggði Hæstiréttur á að verðmæti þess hluta lóðarinnar sem endurupptökubeiðandi hélt eftir skyldi miða við heimila nýtingu lóðarinnar eða líklega nýtingu í fyrirsjáanlegri framtíð. Þess bæri að geta að deiliskipulag lægi ekki fyrir á þeim hluta Stykkishólms þar sem lóð endurupptökubeiðanda væri staðsett og ekkert lægi fyrir um að fyrirætlanir hafi verið uppi um að byggja á lóðinni eða að leyfi myndi fást til slíks ef eftir yrði leitað.  Hæstiréttur féllst ekki á að leggja til grundvallar álit yfirmatsmanna um að verðmæti lóðarinnar gæti numið tvöföldum gatnagerðargjöldum þar sem það álit væri engum gögnum stutt. Hæstiréttur taldi enn síður rétt að byggja á sjónarmiðum sem reifuð höfðu verið í undirmatsgerð. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að matsgerðir dómkvaddra matsmanna hnekktu ekki niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta sem þar með var lögð til grundvallar. Var gagnaðili við svo búið sýknaður af kröfum endurupptökubeiðanda.

III. Grundvöllur beiðni

Í beiðni um endurupptöku gerði endurupptökubeiðandi ítarlega grein fyrir þeim málavöxtum sem áttu sér stað í aðdraganda þess dómsmáls sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 220/2011. Af beiðni um endurupptöku má ráða að hann telji skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991  um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins, þótt ekki sé vísað til laganna, ákvæðisins eða einstakra liða þess. Endurupptökubeiðandi byggir kröfu sína um endurupptöku annars vegar á því að dómarar málsins í Hæstarétti hafi verið vanhæfir til úrlausnar þess, einkum þar sem einn dómari við Hæstarétt hafi verið í Matsnefnd eignarnámsbóta sem úrskurðaði hið umdeilda mat. Hins vegar byggir endurupptökubeiðandi á því að hann sé ósammála forsendum dóms Hæstaréttar hvað varðar fjárhæð eignarnámsbóta þar sem dæmdar bætur feli ekki í sér fullt verð í skilningi 1. mgr. 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá gerir endurupptökubeiðandi grein fyrir fjárkröfum sem hann telur leiða af niðurstöðu héraðsdóms í málinu auk bóta sem nemi leigutekjum til nóvember 2013 og leigugreiðslum gagnaðila til framtíðar á meðan rekin sé starfsemi á lóðarspildunni. Þá vísar endurupptökubeiðandi til fjárhæðar sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 424/2005 sem kveðinn var upp 6. apríl 2006.

Endurupptökubeiðandi krafðist þess að einn nefndarmanna, Þórdís Ingadóttir, viki sæti við meðferð málsins. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 4. desember 2014, var þeirri kröfu hafnað þar sem ekki þótti um vanhæfi að ræða á grundvelli 5. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 5. mgr. 34. gr. laga um dómstóla.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku eru eftirfarandi:.

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. 

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Sá dómari Hæstaréttar sem átti sæti í Matsnefnd eignarnámsbóta, sem úrskurðaði um bætur til endurupptökubeiðanda, dæmdi ekki í máli nr. 220/2011. Endurupptökubeiðandi hefur með vísan til þess ekki leitt líkur að því að um vanhæfi hafi verið að tefla þannig að uppfyllt séu lagaskilyrði til endurupptöku dóms Hæstaréttar.

Rökstuðningur endurupptökubeiðanda er lýtur að því að mat Hæstaréttar á fjárhæð eignarnámsbóta hafi verið rangt og að dæmdar bætur feli ekki í sér fullt verð í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar felur ekki í sér forsendur sem unnt er að leggja til grundvallar endurupptöku máls á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þótt endurupptökubeiðandi kunni að vera ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og telja hana ranga þá kemur slíkt ekki til álita vegna umsóknar um endurupptöku hæstaréttarmáls á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laganna.

Endurupptökubeiðanda hefur því ekki tekist að sýna fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr., um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það.

Hvað varðar skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. um framlagningu nýrra gagna er orðið geti til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, þá hefur endurupptökubeiðandi ekki lagt fram nein gögn sem hafa þýðingu í máli þessu til viðbótar við þau gögn sem hann lagði fram í dómsmálinu.

Í ljósi ofanritaðs er endurupptökubeiðni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna vanhæfis nefndarmanna og skipunar í þeirra stað.     

Úrskurðarorð

Beiðni Gullvers sf. um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 220/2011, sem kveðinn var upp 2. febrúar 2007, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta