Fléttan: Betri svefn og bætt sálfræðiþjónusta innleidd með nýsköpun
Úthlutanir styrkja úr Fléttunni - styrkja til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu voru kynntar á dögunum. Að þessu sinni hefur tólf íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum verið boðið að ganga til samninga en alls verður um 104 milljónum króna dreift til innleiðingar nýrrar tækni og lausna í heilbrigðiskerfinu.
Styrkir úr Fléttunni eru háðir því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkur er veittur til. Þannig er Fléttan brú á milli einkaframtaksins og heilbrigðiskerfisins.
Þrjú af tólf verkefnum sem styrkt eru af Fléttunni í ár hafa sett á fót samstarf með heilsugæslustöðvum. Verkefnin eru fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að felast í nýjum meðferðarlausnum sem stuðla að bættri þjónustu við skjólstæðinga og aukinni skilvirkni.
Mín líðan ehf.
Mín líðan er verkefni sem felur í sér að nýta 10 tíma staðlaðar netmeðferðir fyrirtækisins á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins. Meðferðirnar eru uppbyggðar af fræðslu sem einstaklingar fara í gegnum á sínum hraða, ásamt því að gera æfingar og verkefni sem löggildur sálfræðingur veitir endurgjöf á. Öll samskipti við sálfræðing fara fram með skrifuðum texta og hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er. Árangur er metinn þrisvar sinnum yfir meðferðina með spurningalistum. Enginn biðtími er í meðferðirnar.
Mobile Health – Betri Svefn
Betri Svefn hefur þróað bætta verkferla við meðferð vegna svefnleysis hér á landi og fylgir til þess alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum. Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi verður gerð aðgengileg með innleiðingu á völdum heilsugæslustöðvum víðs vegar um landi í gegnum vef Betri svefns. Árangur verður metinn og í kjölfarið fylgst með ávísunum svefnlyfja.
Proency
Proency hlýtur styrk til verkefnis sem felst í prófun stafrænnar flokkunar og forgangsröðunar ásamt rafrænu eftirliti og árangursmati fyrir fyrstu línu sálfræðiþjónustu hjá geðheilsuþjónustu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið hefur það að markmiði að meta hvort lausnin bæti þjónustu og skilvirkni í verkferlinu og stytti biðlista eftir sálfræðiþjónustu. Skjólstæðingum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem vísað er á sálfræðiþjónustu geðsviðs fara allir í gegnum tímafrekt ferli. Hugbúnaðarlausn Proency flokkar og forgangsraðar skjólstæðingum eftir þjónustuþörf og vísar þeim svo í sérsniðið úrræði í samræmi við það með tilheyrandi styttingu biðlista eftir sálfræðiþjónustu