Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áhersla á atvinnumál eldri borgara á fundi ráðherra og FEB

Frá fundir ráðherra og Félagi eldri borgara í Reykjavík - mynd

Aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var ofarlega á baugi á fundi Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, og forystu Félags eldri borgara í Reykjavík (FEB) í velferðarráðuneytinu í dag.

Til fundarins komu af hálfu félagsins þau Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður og Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri þess og höfðu meðferðis ályktun stjórnar FEB um stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem þau afhentu ráðherra.  Í ályktun félagsins kemur m.a. fram að hækkun frítekjumarka og hækkun lágmarkslífeyris almannatrygginga sé ein af meginkröfum FEB og lýst áhyggjum af því hvernig launatekjur eldri borgara eru skattlagðar.

Ráðherra kynnti á fundinum áform stjórnvalda um hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna eldri borgara og sagðist myndu leggja áherslu á að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og auka hvata sem styðja við aukna atvinnuþátttöku aldraðra: „Aukin atvinnuþátttaka aldraðra er allra hagur, gerir samfélaginu gott og það er þörf fyrir alla þá sem vilja og geta unnið“ sagði ráðherra meðal annars á fundinum og því ætti að gera sveigjanleg starfslok að meginreglu.

Þórunn og Gísli kynntu starfsemi FEB fyrir ráðherra á fundinum, ræddu meðal annars um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir eldri borgara á vegum félagsins, um þörfina fyrir að efla og bæta þjónustu við aldraða sem þurfa stuðning til að geta búið heima, t.d. með aukinni aðstöðu til dagþjálfunar fyrir aldraða og þar með styttri bið eftir slíkum úrræðum o.fl. Þá sögðu þau áherslur stjórnvalda um að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu falla vel að markmiðum félagsins enda skilaði það sér meðal annars í minni kostnaði með bættri heilsu fólks á efri árum.

Ráðherra og forsvarsmenn FEB voru einhuga um að draga þurfi betur fram og gera sýnilegt hve virk samfélagsþátttaka aldraðra er mikils virði og framlag þeirra til samfélagsins mikið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta