Hoppa yfir valmynd
8. október 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Kynning á rannsókn á sóun lyfja á Íslandi - Málþing RUL

Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra

 

Ávarp ráðherra:
Morgunverðarfundur RUL –
kynning á niðurstöðum
rannsóknar á sóun lyfja á Íslandi
8. október 2008 í ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins



 

Góðan daginn góðir fundarmenn,

Ég vil byrja á því að þakka Rannsóknastofnun um lyfjamál fyrir að efna hér í dag til fundar þar sem kynntar verða niðurstöður rannsóknar um sóun lyfja.

Þetta er augljóslega brýnt málefni og aldrei brýnna en nú. Mikilvægt er nú sem aldrei fyrr að koma í veg fyrir sóun hvort sem það er á lyfjum eða öðrum hlutum. Ég hlýt að fagna því að nú liggur fyrir rannsókn sem kynnt verður hér á eftir á umfangi og ástæðum þess að lyf koma ekki að notum og þeim sé fleygt.

Hér er um stóran kostnaðarlið að ræða bæði fyrir almenning og hið opinbera en heildarkostnaður þjóðarinnar vegna lyfja nam á síðasta ári um 16 milljörðum króna á smásöluverði.

Bent hefur verið á að greiðsluþátttökukerfi lyfja og fyrirkomulag afslátta séu  e.t.v. helstu ástæður lyfjasóunar hér á landi. Greiðsluþátttökukerfið geti leitt til óhagræðis og ógagnsæis í lyfjaverði. Það hvetji ekki til að ávísað sé á minni skammta og ódýr lyf. Í apótekunum hafi sjúklingar fengið hærri afslátt fyrir stóra og/eða dýra lyfjaskammta en læknar hafa viðurkennt að afsláttur auki líkur á að strax sé ávísað á stóra lyfjaskammta. 

Ég hef talið þessa gagnrýni á greiðsluþátttökukerfi lyfja og fyrirkomulag afslátta vera réttmæta.

Meðal annars vegna þessarar gagnrýni lagði ég fram frumvarp sem nú er orðið að lögum þar sem tekið er á afsláttarmálunum og nú er verið að vinna að nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir lyf og aðra heilbrigðisþjónustu í svokallaðri „Pétursnefnd“ sem skipuð var fyrir um ári síðan.

Ég vonast til að þessar aðgerðir verði til að draga úr óþarfa sóun lyfja en eflaust má gera betur og vonandi verða fleiri leiðir ræddar hér á fundinum í dag.

Sem innlegg í þá umræðu vil ég nefna mikilvægi forvarna. Með forvörnum má koma í veg fyrir og draga úr líkum á sjúkdómum og þannig minnka lyfjanotkun og kostnað vegna lyfjanotkunar.

Þegar um veikindi er að ræða er hins vegar mikilvægt að rétt greining sjúkdóms fáist sem fyrst og í framhaldi af því hafin markviss meðferð með góðum og öruggum lyfjum.

Til eru góð lyf gegn sjúkdómum, þ.á m. gegn þeim langvinnu sjúkdómum sem vega þungt hér á landi. Aðgengi að góðum lyfjum, sem rétt eru notuð og á ásættanlegu verði, eru því einnig mikilvæg forvörn og til þess fallin að bæta lífsgæði einstaklinga og auka líkur á langlífi.

Fátt hefur jafnmikil áhrif á lyfjakostnað og val lyfja. Því er mikilvægt að ódýrari en jafngóðum úrræðum sé beitt við val lyfja, bæði innan heilbrigðisstofnana og utan.

Þar gegna læknar lykilhlutverki en til þess að þeir geti gegnt því lykilhlutverki verður að tryggja þeim val á ódýrari samheitalyfjum og efla samkeppni á markaðinum. Að því hef ég unnið með margvíslegum aðgerðum, m.a. með þeim breytingum á lyfjalögum sem tóku gildi þann 1. október s.l.

Jafnframt er nauðsynlegt að efla þátt sjúklinga í eigin meðferð. Hvetja þarf til aukinnar ábyrgðartilfinningar þeirra gagnvart eigin lyfjameðferð, í því skyni að bæta meðferðarheldni. Því er mikilvægt að efla upplýsingagjöf til almennings og nauðsynlegt er að læknar séu virkir þátttakendur í því starfi.

Ljóst er að lyf eru gríðarlega mikilvæg fyrir heilbrigðisþjónustuna og heilsu þjóðarinnar. Lyf eru notuð við margvíslegum sjúkdómum. Þau geta dregið úr tíðni sjúkdóma, linað þjáningar og bætt lífslíkur fólks og lífsgæði.

Lyf hafa svo sannanlega bætt líf fólks, dregið úr þörf á skurðaðgerðum og innlögnum á sjúkrahús og bjargað mörgum mannslífum. 

Hins vegar er það svo, að ekki er sama hvernig lyf eru notuð og lyfjanotkun fylgja ýmsir slæmir fylgikvillar sem nauðsynlegt er að huga að. Röng notkun lyfja getur skapað hættu fyrir sjúkling og haft í för með sér sóun og mikinn kostnað.

Rétt og skynsamleg notkun lyfja getur lækkað annan kostnað í heilbrigðiskerfinu með færri innlögnum á sjúkrahús, styttri legutíma og færri veikindadögum.

Markviss og skynsamleg notkun lyfja hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál lækna, lyfjafræðinga, heilbrigðisyfirvalda og ekki síst sjúklinga.

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta