Hoppa yfir valmynd
1. desember 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Vígsla heilsuleikskólans Kór

Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra

Ávarp ráðherra

Leikskólinn Kór í Kópavogi vígður sem heilsuleikskóli.

1.     desember 2008.

Ágætu tilheyrendur.

Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag þegar leikskólinn Kór í Kópavogi fær víglsu sem ,,heilsuleikskóli”. Kór er tíundi leikskólinn á landinu sem fær slíka vígslu. Sú þróun sem endurspeglast í þessu er afar ánægjuleg svo ekki sé meira sagt.

Eins og einhver ykkar hafa vonandi orðið vör við þá kynnti ég heilsustefnu þann 18. nóvember síðast liðinn og hugmyndafræði heilsuleikskólans passar alveg inn í þá hugsun og hugmyndir sem við erum að leggja fram í heilsustefnunni.

Lengi býr að fyrstu gerð. Ég held að við eigum að hafa þessi orð í huga í öllum samskiptum okkar við börn. Það er lykilatriði fyrir okkur sem samfélag að hlúa að börnunum og ef við sleppum því tækifæri að ala þau upp við góðar og heilsusamlegar venjur þá koma vandamálin margföld til baka þegar fram líða stundir. Flest börn á Íslandi eiga þess kost að vera á leikskóla og því eru leikskólar í ákveðnu lykilhlutverki þegar kemur að því að gera börnin okkar að heilbrigðum og sterkum einstaklingum. Með þeirri heilsueflingu sem fram fer innan heilsuleikskóla er stuðlað enn frekar að því að ná þessu markmiði.

Í rauninni má segja að engin fjárfesting sé betri en sú að tryggja börnum öruggt og gott umhverfi – umhverfi sem styður þroska þeirra sem einstaklinga. Þannig stuðlum við ekki aðeins að hamingju barnanna heldur drögum við verulega úr þeirri hættu að þau þrói með sér ýmsa sjúkdóma síðar á lífsleiðinni. Þessir sjúkdómar eru fjölmargir, ég ætla að nefna hjarta- og æðasjúkdóma og geðræna sjúkdóma. Þá er ofþyngd vaxandi hér á landi og henni fylgja margir sjúkdómar sem hægt er að koma í veg fyrir með heilsusamlegu líferni.

Í fyrsta hluta heilsustefnunnar, sem ég nefndi hér áðan, er lögð mikil áhersla á börn. Þar sem heilsustefnan er unnin í heilbrigðisráðuneytinu er horft til heilsugæslunnar og hennar hlutverks í að stuðla að velferð barna. Samvinna heilsugæslunnar og leikskóla er líka mikilvæg og það er ánægjulegt að samstarf milli þessara tveggja aðila er, held ég megi segja almennt með ágætum.

Heilsuleikskólar eru ekki alveg nýir af nálinni og mér er kunnugt um að þegar frumkvöðullinn Unnur Stefánsdóttir var að byrja þá vinnu sem nú hefur borið mikinn ávöxt þá fékk hún afnot af litlum sal í kjallara við hliðina á sundlaug Landspítalans í Kópavogi. Þangað komu börnin í skipulagða hreyfingu. Það er gaman að því að heilbrigðiskerfið hafi þannig komið að málinu frá upphafi.

En mig langar til að hrósa Unni og þakka henni sérstaklega fyrir þá framsýni sem hún hefur sýnt og þá miklu vinnu sem hún hefur lagt fram til að gera hugmyndina að heilsuleikskóla að veruleika. Þótt Kór sé tíundi skólinn sem fær vígslu eru sex skólar til viðbótar að búa sig undir að verða heilsuleikskólar og það er góður árangur.

Ég óska öllum aðstandendum leikskólans til hamingju með daginn og óska ykkur alls hins besta í starfi ykkar í framtíðinni.


(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta