Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Geðheilbrigðisþjónusta nær og fjær

Margrét Björnsdóttir skrifstofustjóri,

flutti ávarpið fyrir hönd

Guðlaugs Þórs Þórðarsonar,

heilbrigðisráðherra

Geðheilbrigðisþjónusta nær og fjær

Ávarp flutt fyrir hönd heilbrigðisráðherra á ráðstefnu

um geðheilbrigðismál barna sem haldin var dagana

15. og 16. janúar 2009 á Hótel Loftleiðum í Reykjavík

Góðir ráðstefnugestir, það er gott að sjá ykkur öll hér saman komin til að ræða geðheilbrigðismál barna og unglinga. Ég vil byrja á að bera ykkur kveðju ráðherra sem því miður gat ekki verið með okkur í dag.

Börn okkar og unglingar eru það dýrmætasta sem við höfum umsjón með. Þau eru í senn samtíð okkar og framtíð. Okkur ber skylda að sýna þeim alúð, nærgætni og kærleik því að slíkar gjafir fáum við sem samfélag ríkulega endurgoldnar er börnin vaxa úr grasi. Þau eru grunnurinn að samfélagi morgundagsins.

Það er athyglisvert að hér í dag og á morgun á að fjalla um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga í víðu samhengi. Kynningar á legudeildum og göngudeildum, umræða um einstaka raskanir og geðheilbrigði barna og ungmenna á tímum efnahagsþrenginga eru mál sem koma mér ekki á óvart að séu á dagskrá. Það vekur hins vegar athygli og ánægju að þjónusta fyrir börn og unglinga með geðheilsuvanda sé komin í nærumhverfi þeirra og kerfið okkar orðið sveiganlegra og farið að starfa í auknu mæli á forsendum notenda þess. Á þessu þarf að verða aukning. Við viljum kappkosta það að íhlutun í nærumhverfi standi notendum í geðheilbrigðisþjónustunni til boða svo frekast það sé unnt. Ráðuneytið hefur síðustu tvö ár m.a. styrkt verkefnið Lífslistina sem vinnur með unglingum í áhættuhópum utan stofnanna og hafa erlendar rannsóknir sýnt að slík þjónusta utan stofnanna skilar hliðstæðum árangri og er ódýrari. Það verður því athyglisvert að fá að heyra um árangur af starfrækslu vettvangsteymis BUGL hér seinna í dag.

Annað verkefni sem fjallað hér um í dag og mér finnst hugmyndafræði og fyrirkomulag til fyrirmyndar er verkefnið „brúum bilið – Egilsstaðaverkefnið“. Verkefnið snýst um tilfærslu þekkingar og reynslu frá sérfræðingum BUGL til starfsfólks heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum. Verkefnið mun hafa gefið góða raun og er það annað dæmi um vel heppnaða „þekkingarútrás“ geðheilbrigðiskerfisins. Má segja að markvisst sé verið að færa þjónustu okkar frá stofnun út í samfélagið. Í því ferli þarf hvort að lagast að öðru á farsælan hátt, aðkoma fagfólks stofnananna og mótækileiki samfélagsins. Liggur beint við að skoða hvort aðrar heilsugæslustöðvar geti ekki nýtt sér sömu fræðslu og þjónustu frá BUGL og þeir á Egilsstöðum. Slík verkefni þar sem sérfræðingar þjálfa aðra sérfræðinga og þekking er flutt í nærumhverfi notenda þar sem hún var ekki áður hafa óumdeilanleg forvarnaáhrif, auk þess að efla þekkingar- og þjónustustig sveitarfélaga. Almennt fellur slík hugsun þar sem þjónusta og þekking er flutt út af stofnunum og til fólksins vel að hugmyndum okkar í ráðuneytinu um áherslur í geðheilbrigðismálum.

Ágætu ráðstefnugestir, nú í síðustu viku var fumsýnd heimildamynd eftir Friðrik Þór Friðriksson, Sólskinsdrengurinn. Án efa eru mörg ykkar búin að sjá myndina. Myndin fjallar um drenginn Kela sem er með einhverfu á hæsta stigi og viðleitni fjölskyldu hans til að ná sambandi við hann. Myndin er mjög fræðandi og snertir mann á einhvern sérstakan hátt. Þarna er falleg mannvera sem virðist vera mikið úr takt við umhverfi sitt. Skynfærin ofvirk og úrvinnsla þeirra skilar ekki alveg sömu upplifun af raunveruleika og við upplifum. Í fljótu bragði virtist nær ómögulegt að ná sambandi við Kela, en svo með hjálp indversks þerapista tekst að ná til hans og Keli tjáir sig upp að vissu marki í fyrsta sinn.

Boðskapur myndarinnar er ef til vill tvíþættur er kemur að meðferð og umgengni við börn og ungmenni með geð- og þroskaraskanir. Annars vegar sá að allt er hægt ef viljinn og þrautsegjan er fyrir hendi og hins vegar sá hvað fjölskylda og stuðningsnet einstaklinga hefur gríðarlega mikið að segja er kemur að því að ná árangri í meðferð.

Með þessi orð að leiðarljósi vil ég óska ykkur öllum góðrar ráðstefnu og þakka ykkur fyrir hönd heilbrigðisráðherra fyrir góð störf í þágu geðheilbrigðis íslenskrar æsku undanfarin misseri.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta