Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra fundaði með starfsmönnum Landspítala

Ögmundur Jónasson
heilbrigðisráðherra

 

 

Heilbrigðisráðherra fundaði með starfsmönnum Landspítala
16. febrúar 2009

 

 

Gott fólk.

Það verður ekki sagt að okkar hlutskipti sé auðvelt. Krafa hefur verið reist á heilbrigðiskerfið að skera niður um 6,7 milljarða á þessu ári. Á þessa stofnun, Landspítala háskólasjúkrahús, er reist krafa um að skera niður um 2,6 milljarða – tvö þúsund og sex hundruð milljónir. Þar er um að ræða gamlan vanda og nýjan, skuldahala sem eltir stofnunina út úr meintu góðæri, halla af völdum gengishraps, og síðan er það niðurskurðarkreppan, í bland runnin undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, International Monetary Fund, sem boðinn hefur verið upp á dekk á íslensku þjóðarskútunni.

Alla mína daga í verkalýðsstarfi og pólitík hef ég barist fyrir auknu framlagi til samfélagsþjónustunnar og þá ekki síst heilbrigðiskerfisins, lífæðar velferðarsamfélagsins. Og ég hef ekki verið einn um þetta viðhorf. Hver skoðanakönnunin á fætur annarri í áranna rás hefur sýnt að vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar stendur til að greiða nægilega skatta svo reka megi öflugt heilbrigðiskerfi – því flest okkar vilja fá að borga til heilbrigðisþjónustunnar á meðan við erum heilbrigð og vinnufær í stað þess að láta rukka okkur þegar heilsan brestur. Þegar við erum komin inn á gangana hérna hjá ykkur viljum við ekki láta leita í vösum okkar – við komum hingað hjálparþurfi en ekki í viðskiptaerindum og erum þakklát fyrir þá aðhlynningu og lækningu sem við fáum frá ykkar hendi. Og þannig viljum við helst hafa það fyrir alla. Þetta er hið almenna viðhorf á Íslandi. Sem betur fer.   

Það breytir því ekki að hér stend ég, í þann veginn að hefja predikun um þörf á niðurskurði, maðurinn sem fyrir örfáum mánuðum krafðist hins gagnstæða. Þá benti ég á – réttilega – að þessi stofnun hefur, samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar, aukið framleiðni sína jafnt og þétt – á hverju einasta ári um langt árabil. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um árangur LSH 1999 - 2004 sem gefin var út í desember 2005 kemur fram að raunkostnaður við rekstur LSH hafi nánast staðið í stað á þessu fimm ára tímabili þrátt fyrir aukin afköst. Afköst jukust í heild um 9% á þessu tímabili og framleiðni vinnuafls um 12,6%. Við skulum einnig hafa í huga stóraukið álag vegna breyttrar aldurssamsetningar og fjölgunar í nærumhverfi spítalans. Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu var árið 2004, 184.101 en var í fyrra 201.585.  Þetta er fjölgun um 17 þúsund manns á fjórum árum – á þessum tíma hefur með öðrum orðum bæst við hér í næsta nágrenni ígildi myndarlegs bæjarfélags!

Allt þetta þýðir á mannamáli að sömu verk eru unnin með sífellt minni tilkostnaði. Þetta er afrek. En einnig þessu má ofgera og er hætt við að ef of stífar kröfur eru gerðar um niðurskurð bresti eitthvað í þjónustunni, álagið verði of mikið á starfsfólkið og þjónustan versni. Haft var eftir formanni félags Hjúkrunarfræðinga í fréttum í gær að hún teldi ekki útilokað að niðurskurðurinn nú tefldi öryggi sjúklinga í tvísýnu. Þá mátti heyra varnaðarorð formanns Læknafélagsins í morgunfréttum og svipaðar áherslur hafa heyrst frá formanni Sjúkraliðafélagsins. Þessi varnaðarorð þarf að taka alvarlega þótt ég vilji nota þetta tækifæri til að lýsa fullu trausti á stjórnendur sjúkrahússins sem ég tel fara fram af ábyrgð og sýna varfærni við þessar erfiðu aðstæður. 

Við skulum aldrei missa sjónar á því að sparnaður er af hinu góða ef hann næst með bættu skipulagi, betri nýtingu og meiri árvekni. Í gær undirritaði ég lyfjareglugerð sem felur í sér að samanlagður lyfjasparnaður verður – þegar reglugerðin rennur saman við ákvarðanir Lyfjagreiðslunefndar – 1300 milljónir á þessu ári. Þetta er liður í niðurskurðinum sem heilbrigðisráðuneytið er ábyrgt fyrir. En þrátt fyrir auknar álögur á sjúklinga er reynt að halda þannig á málum að réttlætis sé gætt. Öldruðum, börnum, öryrkjum og atvinnulausum er hlíft eftir því sem kostur er og breytingin er skattgreiðendum til hagsbóta því reynt er að stuðla að breyttri og ódýrari lyfjaneyslu. Kallað er eftir samstarfi lækna og annarra heilbrigðisstétta um framkvæmdina þannig að sparnaður náist án þess að skaða sjúklinginn. Þarna er því þrátt fyrir allt verið að stíga skref sem vonandi er til góðs þegar upp er staðið. Nákvæmlega þetta lít ég á sem mitt hlutverk: Að standa vörð um grunn velferðarkerfisins á erfiðum tímum, haga verkstjórn með þeim hætti að kreppan og niðurskurðurinn verði ekki til að valda varnalegu tjóni heldur beina honum inn í eins uppbyggilegan farveg og framast er unnt.

Verkefnið er erfitt. Við erum beðin um að spara í stofnunum sem hafa verið fjársveltar um árabil. Það hefur nefnilega alltof lengi verið leikinn þykjustuleikur í heilbrigðiskerfinu, þar sem ekki hefur mátt hækka laun hins almenna starfsmanns, eða fjölga störfum og því hefur starfsemin verið rekin á hlutastörfum með yfirvinnu í stað þess að semja um eðlileg kjör. Reikningar við lyfjabirgja hafa verið greiddir seint og illa. Kerfið hefur verið fullt af ósannindum og leikaraskap, til að uppfylla óraunhæfar áætlanir.

En nú þurfum við að fara að lögum, fjárlögum sem sumpart voru samin af útlendingum, sem þurfa ekki að standa hér og útfæra hugmyndir sínar; lögum sem síðan voru samþykkt af Íslendingum sem því miður sumir hverjir hafa um skeið horft til heilbrigðisþjónustunnar sem auðlindar fyrir tekjuþyrsta auðmenn.

Á sama tíma og við rifum seglin er okkur greint frá skuldum ríkissjóðs sem nema mörg hundruð milljörðum – jafnvel þúsundum milljarða- og hrannast upp. Icesafe lánin ein og sér gætu staðið í 6-7 hundruð milljörðum brúttó á þessu ári sem þýðir, hver svo sem endanleg niðurstaða verður, að þessi upphæð er á vöxtum þar til skuldirnar hafa verið færðar niður. Hvert vaxtastig á Icesave lánunum einum til eða frá er þá ígildi niðurskurðarins í heilbrigðiskerfinu á þessu ári.

Það liggur við að maður þurfi að láta segja sér þetta tvisvar. Hvert vaxtastig á Icesave lánunum einum er þá ígildi niðurskurðarins í heilbrigðiskerfinu sem lögbundinn var í fjárlögum í desember samkvæmt fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Tökum annað dæmi. Inni í hagkerfinu eru fjögur hundruð milljarðar í krónubréfum, að uppistöðu til í eigu nokkurra útlendra auðmanna. Við 15% innlánsvexti eru mánaðarlegar vaxtagreiðslur 5 milljarðar. Ef mín hagfræði réði yrðu vextir skornir niður við trog til að vernda atvinnulíf og húsnæðiseigendur. Ef vextirnir á jöklabréfunum stæðu í 5% þá yrði vaxtakostnaður ekki 5 milljarðar á mánuði heldur 1,7 milljarðar. Mismunurinn á ári er næstum tífaldur fyrirhugaður sparnaður í heilbrigðiskerfinu á þessu ári.

Þetta er samhengi sem við megum aldrei gleyma og sú krafa stendur á stjórnvöld landsins að fá þessu breytt.

Við vitum einnig að samdráttur í velferðarþjónustunni – fækkun starfa þar leiðir til aukins atvinnuleysis. Samdráttur í heilbrigðisþjónustunni er fækkun í umönnunarstörfum – kvennastörfum. Viljum við frekar greiða heilbrigðisstéttunum atvinnuleysisbætur en laun? Þetta þurfa stjórnvöld og við öll að vera meðvituð um og halda til haga á vinnuborði hins pólitíska ákvörðunarvalds þegar fjárlög fyrir næsta ár eru smíðuð. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að standa vörð um heilbrigðiskerfið þegar að þeirri vinnu kemur.

Ég hef ekki breytt um skoðun. En ég segi jafnframt að sú staða sem nú er uppi eigi að verða okkur tilefni til að kasta burt öllum gervilausnum fortíðarinnar, öllum óheiðarleikanum í kerfinu, allri uppgjafarhugsun og að við ákveðum hér og nú að sú endurskipulagning sem við verðum að fara í verði sá grundvöllur sem geri okkur fært að byggja heilbrigðisþjónustu Íslendinga á til framtíðar.

Baráttan fyrir eflingu heilbrigðiskerfisins þarf að byggja á frjórri umræðu, ekki bara hér innandyra heldur úti í þjóðfélaginu. Við megum ekki hætta að vera stolt af heilbrigðiskerfi, sem er enn á við það sem best gerist á byggðu bóli. Þjóðin þekkir af eigin raun þá natni, þá samviskusemi og þann kærleika sem hún mætir þegar hún þarf að sækja umönnun til heilbrigðisstéttanna. Ég er sannfærður um að þjóðin vill tryggja þeim stéttum sem hér vinna bestu aðstæður og góð kjör.

Til frambúðar má það ekki gerast að sparnaður verði sóttur í vasa starfsfólks á heilbrigðisstofnunum. Heilbrigðiskerfið á ekki að fjármagna með því að leggja skatta á sjúklinga eða gjöld á veikindi. Við eigum hins vegar  að freista þess að bæta skipulag, nýtingu og ná fram aukinni hagkvæmni í innkaupum og öllu skipulagi. Allt þetta á að vera hægt að gera í sátt og samvinnu.

En núna er staðreyndin sú að ekki verður undan því vikist að rifa seglin.Næstum allt það sem sagt var fyrir sex mánuðum er nú úrelt. Á blaðsíðu 17. í nýbirtri skýrslu tveggja hagfræðinga, Jóns Daníelsssonar og Gylfa Zoega er gefið til kynna að ástæða sé til að óttast gjaldþrot ríkissjóðs: “Á heildina litið er staða ríkissfjármála á Íslandi hættuleg...Þessi vandamál eru ekki líkleg til að hverfa til meðallangs tíma. Við getum búist við verulegum fjölda gjaldþrota, ört vaxandi atvinnuleysi og landflótta?”

Við þetta má bæta að ef fer fram sem horfir þá mun atvinnuleysistryggingasjóður tæmast um næstu áramót. Það þýða enn meiri álögur. Fyrir utan þá þjáningu sem því fylgir að missa vinnuna.

Fátt er eins slæmt og að missa vinnuna; felur í sér jafn mikla höfnun samfélagsins sem við erum þó öll hluti af, fátt hefur eins mikil áhrif á þann sem vill vinna og að fá það ekki.

Þess vegna segi ég: Áður en fólki er sagt upp störfum þarf að leita allra leiða til sparnaðar, þeir sem hafa meira verða að afsala sér til þeirra sem hafa minna. Krafan stendur nefnilega núna á okkur öll. Ég vorkenni engum manni sem hefur það sæmilegt að gefa tímabundið eftir – en hin sem ekkert hafa aflögu, hafa lág laun eða það sem er ennþá verra hafa mist atvinnuna, eiga mína samúð – alla.

Mér fannst það vel sagt hjá einum samstarfsmanni mínum í heilbrigðisráðuneytinu að við myndum sem þjóð hafa okkur í gegnum vandann ef við bærum gæfu til að vinna saman. Þá myndum við líka ná árangri: Því væri nú ekki tíminn til að halda sig neðanþilja – nú þyrftu allir upp á dekk að brjóta ísinn. 

Og að lokum þetta: Sá sparnaður sem við þurfum að ná fram, verður að verða grundvöllur sóknar til framtíðar. Við ætlum okkur að efla heilbrigðisþjónustuna til framtíðar. Þetta verður að vera grunnhugsunin í öllu sem við gerum. Að við tökumst ekki einvörðungu á við verkefnið sem þjóð í vanda, heldur þjóð sem er að undirbúa nýja sókn. Þess vegna þarf núna að ræða um framtíðarsýn. Ég kalla eftir þeirri umræðu.

Við sem viljum efla heilbrigðiskerfið og gera það sterkara og betur í stakk búið til að takast á við framtíðina skulum nú saman huga að því hvernig megi straumlínulaga allt okkar starf, með því að nýta aðföngin betur, með því að velja ódýrari lyf þar sem það á við, með því að skipuleggja tímann betur, með því að jafna kjörin, með því að hver og einn leggi til málanna, með því að auka heiðarleikann í kerfinu. Þannig og aðeins þannig náum við árangri: Með því að takast í sameiningu á við verkefnið. Og gleymum því aldrei að takmarkið er að láta þetta bitna sem allra minnst á þeirri þjónustu sem veitt er.

Sjálfur ætla ég að fara varlega í að gefa loforð. Nema einu skal ég lofa. Ég ætla að reyna að gera allt sem í mínu valdi stendur til að varðveita sem best á þessum erfiðu tímum það fjöregg þjóðarinnar sem heilbrigðisþjónustan er. Ég veit – og við vitum það öll – að besta fjárfesting sem enn hefur verið fundin upp er góð heilsa.

Stöndum vörð um velferðarkerfið. Gerum það saman. Með félagslegt réttlæti og sanngirni að leiðarljósi. Þá mun okkur vegna vel. Þá munum við ná árangri – saman.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta