Hoppa yfir valmynd
7. mars 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Lífshættir hafa áhrif

Lífshættir hafa áhrif

Mikið hefur áunnist í krabbameinsvörnum á þeim tæpu 60 árum sem Krabbameinsfélag Íslands hefur verið starfrækt. Ljóst er að félagið hefur lagt lóð sitt á vogarskálarnar með ötulli vinnu að forvörnum, rannsóknum og greiningu krabbameina til að ná þeim árangri sem við búum við í dag.

Krabbameinsfélagið hefur beitt sér fyrir fjölda átaksverkefna og af umfjöllun mætti draga þá ályktun að krabbamein væri algengara hjá íslenskum konum en körlum. Þessu er öfugt farið. Karlmenn greinast oftar með krabbamein en konur en það hafa ekki verið til hentugar skimunaraðferðir og því ekki verið hægt að bjóða upp á hópleit hjá körlum. Forvarnarstarfið hefur því í meira mæli beinst að konum þar til nýlega að breyting hefur orðið þar á.

Forvarnir

Sem heilbrigðisráðherra fagna ég átaki Krabbameinsfélagsins, enda brýnt að vekja karla til umhugsunar um hvernig þeir geta sjálfir minnkað hættuna á að fá krabbamein.

Horfur þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi eru almennt góðar og er heilbrigðisþjónusta okkar vel í stakk búin til að takast á við þennan sjúkdóm. Þrátt fyrir þetta skiptir miklu að reyna að koma í veg fyrir krabbamein með ýmiskonar forvörnum. Sýnt hefur verið fram á að heilsusamlegur lífsstíll, góð heilsa og hollt mataræði hafa mikið forvarnargildi en aðrir þættir spila einnig inn í, s.s. erfðir og umhverfisáhrif.

Að auki er oft talað um krabbamein sem sjúkdóm efri áranna. Íslendingar verða allra þjóða elstir og því eðlilegt að krabbamein sé algengt dánarmein hér en krabbameinsvarnir geta komið í veg fyrir ótímabæran dauða af völdum krabbameina.

Rannsóknir sýna að auk reykinga, sem við vitum að auka hve mest líkur á krabbameinum, þá á óhollusta í mat, ofþyngd og hreyfingarleysi að einhverju leyti þátt í um 30% allra tilfella krabbameina í vestrænum ríkjum heims. Mikilvægi þess að reykja ekki, borða hollan mat, halda réttri líkamsþyngd og hreyfa sig verður seint brýnt um of fyrir fólki. 

Heilbrigðir lífshættir

Heilbrigður lífsstíll, næg hreyfing og jafnvægi og hóf í matarvenjum er lykillinn að bættri heilsu og vellíðan og fyrirbyggjandi gagnvart sjúkdómum hvort sem um ræðir krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma eða áunna sykursýki svo fátt eitt sé nefnt.

Kæru landsmenn. Ég hvet ykkur til að styðja við átakið sem nú er í gangi og hugleiða hvernig þið getið sjálf nýtt ykkur það, eða stutt þá sem í kringum ykkur eru til að nýta sér þá vitneskju og úrræði sem við í dag búum yfir.

 

Ögmundur Jónasson

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta