Funduðu um bætt öryggi á sviði Þjóðleikhússins
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Þjóðleikhúsið á dögunum og fundaði með Þjóðleikhússtjóra og fleira starfsfólki leikhússins.
„Þjóðleikhúsið er einn af burðarásum menningarlífs þjóðarinnar en þar er unnið frábært starf á hverjum degi. Það er ánægjulegt að nú sé verið að hefja endurnýjun á sviðsrásakerfi stóra sviðsins sem mun bæta öryggi og aðbúnað á sviðinu. Endurnýjunin er liður í því að bæta umgjörð okkar frábæru listamanna sem fylla fjalir Þjóðleikhússins af lífi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Á fundinum var rætt um stöðu leikhússins, framtíðarverkefni og framtíðarsýn. Jafnframt fékk ráðherra innsýn inn í starfsemina og verkefnin fram undan.
Hópurinn skoðaði sérstaklega sviðsrásakerfi stóra sviðsins, sem er yfir 70 ára gamalt. Vinna er farin af stað við endurnýjun á kerfinu með sérstöku framlagi frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu sem eyrnamerkt er þessu mikilvæga öryggismáli.