Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2013

Þriðjudaginn 26. nóvember 2013

 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 10. janúar 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A dags. 9. janúar 2013. Kærður var útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynntur var með bréfi, dags. 26. nóvember 2012, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. janúar 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um fæðingarorlof frá 3. janúar 2013 til 3. janúar 2014. Í útreikningi Fæðingarorlofssjóðs sé miðað við að kærandi sé með meðaltekjur að fjárhæð X kr. á mánuði. Föst laun kæranda séu hins vegar X kr. og því óski kærandi eftir því að tekið sé tillit til fullra launa hennar sem hún telji að ættu að veita henni hámarksgreiðslu úr sjóðnum.

Ástæða Fæðingarorlofssjóðs fyrir útreikningi sínum sé sú að kærandi hafi verið í fæðingarorlofi á tímabilinu Y. maí 2011 til Y. maí 2012. Samkvæmt þjónustufulltrúa Fæðingarorlofssjóðs hafi kærandi átt að vera í hálfu starfi samhliða fæðingarorlofinu á þeim tíma þar sem hún hafi lengt tímabilið úr sex mánuðum í tólf. Það geri það að verkum að tekjurnar sem miðað hafi verið við til útreiknings fæðingarorlofs séu eingöngu þær tekjur sem hún hafi verið með á meðan hún sé í fæðingarorlofi, þ.e. geriðslur frá Fæðingarorlofssjóði ásamt mótframlagi atvinnurekanda.

Kærandi hafi verið starfsmaður reiknistofu bankanna frá árinu 2010. Í ljósi þess að kærandi hafi verið í fæðingarorlofi á viðmiðunartímabili Fæðingarorlofssjóðs þætti henni eðlilegt að tekið yrði tillit til þess að ekki sé um að ræða raunverulegar tekjur kæranda heldur talsvert mikið skertar tekjur. Í ljósi aðstæðna sé því eðlilegt að mati kæranda að meðaltal launa sex mánaða tímabils áður en orlofið sem sótt sé um hefjist, þ.e. frá 1. júlí 2012 til 1. janúar 2013, væri lagt til grundvallar. Einnig væri hægt að styðjast við sama útreikning og notaður hafi verið við útreikning fyrra orlofs.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með ódagsettri umsókn hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann 3. janúar 2013.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tvær tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 8. nóvember og 18. desember 2012, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 22. nóvember 2012, launaseðlar fyrir október og nóvember 2012 og upplýsingar um fæðingarorlofstöku með eldra barni, sbr. greiðsluáskorun, dags. 7. júní 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 26. nóvember 2012, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Þann 22. janúar 2013 hafi kæranda verið send ný greiðsluáskorun þar sem barn hennar hafi fæðst þann Y. janúar 2013, en þann 1. janúar 2013 hafi orðið breyting á 2. mgr. 13. gr. ffl. sem átt hafi við um börn sem fæðst hafi 1. janúar 2013 og síðar þannig að nú sé miðað við 80% af meðaltali heildarlauna í stað 80% af meðaltali heildarlauna að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram sé. Við það hafi mánaðarlega greiðsla kæranda hækkað úr X kr. á mánuði miðað við 100% orlof í X kr.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, 3. gr. laga nr. 136/2011 og a-lið 2. gr. laga nr. 143/2012, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna sem foreldri hafi átt rétt á skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Sama eigi við þótt foreldri hafi kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Aldrei skuli taka mið af hærri fjárhæð en sem nemi viðmiðunartekjum sem miða skuli við samkvæmt framangreindu enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna skv. 3. málsl. og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við almanaksmánuði og að áfram sé tekið fram að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hafi unnið til utan innlends vinnumarkaðar.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. janúar 2013 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlaun hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið júlí 2011 til júní 2012.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattsjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Á öllu viðmiðunartímabilinu hafi kærandi þegið laun frá vinnuveitanda sínum sem hafi verið með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Kærandi hafi auk þess verið í 50% fæðingarorlofi á tímabilinu frá júlí 2011 til maí 2012 en hún hafi dreift greiðslum með eldra barni fæddu þann Y. maí 2011 á tólf mánaða tímabil frá júní 2011 til maí 2012 og þegið þanni 50% greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á því tímabili.

Eins og komi skýrt fram í 2. mgr. 13. gr. ffl. gildi sú regla að hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Sama eigi við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Það hafi verið gert í tilfelli kæranda og hafi þannig greiðslur til hennar frá Fæðingarorlofssjóði verið uppreiknaðar um X kr. á mánuði tímabilið júlí 2011 til maí 2012 sem lendi innan tólf mánaða viðmiðunartímabilsins.

Í ffl. og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 2. mgr. 13. gr. ffl., við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 22. janúar 2013, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 26. nóvember 2012, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Af hálfu kæranda er á því byggt að þar sem hún hafi verið í fæðingarorlofi hluta viðmiðunartímabils 2. mgr. 13. gr. ffl. beri að miða við sex mánaða tímabil sem ljúki þegar fæðingarorlof hennar hefjist, þ.e. frá 1. júlí 2012 til 1. janúar 2013, eða nýta sama útreikning og stuðst hafi verið við við útreikning á fyrra fæðingarorlofi.

Þann 26. nóvember 2012 tilkynnti Fæðingarorlofssjóður kæranda að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru þann 9. janúar 2013. Eftir að kæran barst nefndinni og eftir að Fæðingarorlofssjóður hafði fengið kæruna til umsagnar birti Fæðingarorlofssjóður kæranda leiðrétta ákvörðun, dags. 22. janúar 2013. Í hinni leiðréttu greiðsluáætlun hafði Fæðingarorlofssjóður tekið tillit til breytinga á lögum sem tekið höfðu gildi 1. janúar 2013 og hafði því mánaðarleg greiðsla til kæranda hækkað í X kr. á mánuði miðað við 100% orlof, í leiðréttri greiðsluáætlun, dags. 22. janúar 2013.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að eftir að mál kæranda barst úrskurðarnefndinni tók hið lægra stjórnvald, Fæðingarorlofssjóður, nýja ákvörðun í málinu og tilkynnti kæranda um hana. Um var að ræða ívilnandi ákvörðun miðað við eldri ákvörðun, þar sem mánaðarleg greiðsla til kæranda var hækkuð með vísan til breyttra laga. Úrskurðarnefndin tekur fram að stjórnvöld hafa ekki frjálsar hendur um það hvort og hvenær þau taka ákvarðanir til endurskoðunar en um það þarf að fara skv. 23. eða 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða eftir atvikum 24. gr. ef aðilar máls óska eftir endurupptöku. Þá er í þessu máli ekki síður nauðsynlegt að benda á að eftir að kæra hefur borist æðra stjórnvaldi er hið lægra stjórnvald ekki lengur valdbært að ákvarða í málinu, eða taka ákvörðun sína til endurskoðunar, en Fæðingarorlofssjóður virðist hafa farið þá leið í nokkrum málum sem nú eru til meðferðar hjá nefndinni. Þannig getur nefndin ekki litið svo á að hin leiðrétta greiðsluáætlun sem send var kæranda hinn 22. janúar 2013 sé gild stjórnsýsluákvörðun sem leiðrétt geti hina kærðu ákvörðun. Þau sjónarmið sem hin leiðrétta ákvörðun er byggð á, og koma jafnframt fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs til nefndarinnar, lýsa hins vegar afstöðu Fæðingarorlofssjóðs til kærunnar og þeirra álitaefna sem þar eru uppi, og mun nefndin líta til þeirra við afgreiðslu málsins. Úrskurðarnefnd vill þó ítreka við Fæðingarorlofssjóð að sjóðurinn er ekki valdbær til nýrrar ákvörðunar í máli sem kært hefur verið til nefndarinnar.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að við útreikning mánaðarlegra greiðslna Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Hvorki í ffl. nér reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna heimild til að víkja frá framangreindu viðmiðunartímabili við útreikning á meðaltals heildarlaunum foreldris. Er óhjákvæmilegt að hafna því að miða við „raunverulegar tekjur“, þ.e. núgildandi föst mánaðarlaun kæranda

Barn kæranda fæddist þann Y. janúar 2013. Viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. var því júlí 2011 til júní 2012. Ljóst er að kærandi var í 50% fæðingarorlofi með eldra barni hluta viðmiðunartímans, þ.e. júlí 2011 til maí 2012. Í 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum m.a. úr Fæðingarorlofssjóði hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði.

Við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabili 2. mgr. 13. gr. ffl. bar því að líta til viðmiðunartekna fyrra fæðingarorlofs í réttu hlutfalli við fæðingarorlofstöku vegna þeirra mánaða sem kærandi var í fæðingarorlofi með eldra barni auk greiðslna frá vinnuveitanda kæranda á viðmiðunartímabilinu, líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun. Ekki virðist tölulegur ágreiningur um útreikningana.

Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst er að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 22. janúar 2013, er í samræmi við ákvæði ffl.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Mánaðarleg greiðsla til kæranda, A frá Fæðingarorlofssjóði skal vera X kr. miðað við 100% fæðingarorlof.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta