Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2013

Þriðjudaginn 26. nóvember 2013


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 29. apríl 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 15. apríl 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 25. mars 2013, þar sem honum var tilkynnt að greiðsla til kæranda í 100% fæðingarorlofi yrði X kr. á mánuði.  

Með bréfi, dags. 7. maí 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 15. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. maí 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi lauk námi í júní 2012, starfaði sem lagerstarfsmaður sumarið 2012 og hóf störf sem verkfræðingur í ágúst 2012. Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með umsókn, dags. 24. janúar 2013, í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar í lok mars 2013. Kærandi eignaðist dóttur í lok marsmánaðar 2013. Með bréfi, dags. 25. mars 2013, tilkynnti Fæðingarorlofssjóður kæranda að greiðslur til hans í fæðingarorlofi miðað við 100% fæðingarorlof yrðu X kr. á mánuði. Sú ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs er nú kærð til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi klárað nám í júní 2012 og væri nýr inná vinnumarkaði. Kærandi hafi fengið sér vinnu á lager sumarið 2012 svo hann gæti einbeitt sér að meistararitgerð sinni. Kærandi hafi byrjað að vinna sem verkfræðingur um miðjan ágúst. Tekjumunurinn á þessum tveimur störfum sé talsverður og hafi kærandi farið úr því vera með um X kr. á mánuði í að vera með um X kr. á mánuði. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs að kærandi myndi fá hámarksgreiðslur úr sjóðnum þar sem tekið yrði tillit til þess að hann hafi verið að koma úr námi.

Eftir að dóttir kæranda hafi fæðst þann Y. mars 2013 hafi kærandi farið í fæðingarorlof. Fyrsta greiðsla til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið um X kr. og stuttu síðar hafi kærandi fengið senda greiðsluáætlun frá sjóðnum þar sem fram kom að kærandi fengi X kr. á mánuði fyrir fullt fæðingarorlof. Það sé talsvert frá þeim X kr. sem kærandi taldi sig eiga að fá.

Fæðingarorlofssjóður hafi sagst hafa sent kæranda greiðsluáætlun hans löngu fyrir fæðingu barnsins. Það geti ekki staðist þar sem kærandi hafi ekki fengið bréf stílað á sig fyrr en um mánaðarmótin mars/apríl 2013. Kærandi hafi þó fundið eldra bréf sem hafi verið sent með upplýsingum á konu kæranda.

Kærandi geti ekki séð að tekið hafi verið tillit til þess að hann hafi verið að koma úr löngu námi. Fæðingarorlofið sé reiknað út frá tekjum maí til ágúst 2012 en eins og flestir námsmenn hafi kærandi ekki verið með neinar tekjur í maí 2012 og komi sá mánuður sem 0 kr. inn í útreikning meðaltals. Miðað við fæðingu dóttur kæranda væri nær að taka september inní útreikninga en maí miðað við sex mánaða regluna.

Það hafi verið í lögum um fæðingarorlof að hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skuli miða við heildarlaun yfir það tímabil sem að foreldri hafi unnið, að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Kærandi skilji ekki hvers vegna það hafi verið tekið út úr lögunum þar sem þar hafi verið tekið tillit til námsmanna.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 24. janúar 2013, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann 27. mars 2013.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tvær tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 16. janúar og 15. mars 2013, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 3. janúar 2013, launaseðlar frá U hf. fyrir nóvember og desember 2012 og vottorð um skólavist, dags. 24. janúar 2013. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 14. febrúar 2013, hafi honum m.a. tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Þar sem kærandi hafi óskað eftir því að hefja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði við fæðingardag barns hafi ekki verið unnt að senda honum greiðsluáætlun fyrr en fæðingardagur barnsins væri orðinn ljós og honum verið tilkynnt um það í sama bréfi.

Þann 25. mars 2013 hafi kæranda verið send greiðsluáætlun þar sem fram hafi komið að mánaðarleg greiðsla til hans miðað við 100% fæðingarorlof væri X kr.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, 3. gr. laga nr. 136/2011 og a – liður 2. gr. laga nr. 143/2012, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a – og b – lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e liði 2. mgr. 13. gr. a o.fl.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.  Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda var þann Y. mars 2013 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið september 2011 til ágúst 2012.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Á tímabilinu september 2011 til maí 2012 sé kærandi launalaus og skv. vottorði um skólavist, dags. 24. janúar 2013, sé staðfest að kærandi hafi verið í fullu námi á því tímabili. Á tímabilinu júní til ágúst 2012 fái kærandi greidd laun frá V hf. og í ágúst fái kærandi greidd laun frá U hf.

Eins og kemur skýrt fram í 2. mgr. 13. gr. ffl. skuli einungis miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í samræmi við framangreint og staðfestingu um skólavist séu mánuðirnir september 2011 til apríl 2012 undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda en miðað við mánuðina júní til ágúst 2012 við útreikninginn þegar kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði og þegið laun frá sínum vinnuveitendum auk maí 2012 þegar kærandi hafi verið launalaus, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. in fine um að aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í ffl. og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 2. mgr. 13. gr. ffl., við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Í kæru kæranda kemur fram að hann segist hafa fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Fæðingarorlofssjóð í síma að hann fengi hámarksgreiðslur úr sjóðnum þar sem tekið yrði tillit til þess að hann hafi verið að koma úr námi og jafnframt segist kærandi ekki hafa fengið bréf um fjárhæð greiðslna. Eftir leit hafi hann hins vegar fundið bréfið en það verið stílað á konuna hans. Í samskiptasögu kæranda komi ekkert fram um það að honum hafi verið veittar upplýsingar um að tekið yrði tillit til þess að hann hafi verið að koma úr námi og hann fengi hámarksgreiðslur enda sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda. Fyrir liggi bæði í samskiptasögu og með afritum af tveimur bréfum sem hafi fylgt með greinargerð Fæðingarorlofssjóðs að kæranda hafi verið sendar upplýsingar um væntanlega greiðslur og hafi bæði bréfin verið stíluð á hann og send á lögheimili hans.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 25. mars 2013, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að greiðslur til kæranda í 100% fæðingarorlofi nemi X kr.  

Kærandi byggir á því að Fæðingarorlofssjóði beri taka tillit til þess að hann hafi verið að klára langt nám og sé nú með mun hærri laun en hann hafi verið á viðiðunartímabilinu.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt hvergi sé heimild til að víkja frá því viðmiðunartímabili 2. mgr. 13. gr. ffl. um útreikning á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Barn kæranda fæddist í mars 2013 og er því framangreint tímabil frá september 2011 til ágúst 2012.

Í 8. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Samkvæmt vottorði kennslusviðs/nemendaskrár C háskólans, dags. 24. janúar 2013, var kærandi í námi við skólann á tímabilinu 16. ágúst 2011 til 31. maí 2012 og því ekki á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl., sbr. 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Á viðmiðunartímabili 2. mgr. 13. gr. ffl. var kærandi því einungis á innlendum vinnumarkaði mánuðina júní, júlí og ágúst 2012. Í 9. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að aldrei skuli miða við færri en fjóra mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Að mati úrskurðarnefndar ber því í tilfelli kæranda að líta til eins mánaðar innan viðmiðunartímabilsins þar sem kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK er ljóst að kærandi var ekki með tekjur þá mánuði viðmiðunartímabilsins sem hann var ekki á innlendum vinnumarkaði og því hefur það ekki áhrif á útreikningin hvaða mánuður er tekin með.

Hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/200 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna undanþágur frá framangreindum ákvæðum.

Ekki fæst séð hvernig frásagnir kæranda af samskiptum við sjóðinn gætu hróflað við þessari niðurstöðu, enda fer um réttindi kæranda til greiðslna úr sjóðnum eftir þeim hlutrænu mælikvörðum sem hér hafa verið raktir.

Það er því rétt að mati úrskurðarnefndar að miða útreikning á fæðingarorlofsgreiðslum til kæranda við tekjur hans mánuðina maí, júní, júlí og ágúst 2012.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að greiðslur til kæranda, A í 100% fæðingarorlofi verði X kr. á mánuði er staðfest.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta